Hoppa yfir valmynd
6. desember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Íslensk nýsköpunarfyrirtæki á uppleið í Singapúr

Singapúr - myndUnsplash / Mike Enerio

Sendinefnd sem leidd var af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og heimsótti Singapúr í nóvember kynnti sér umhverfi háskóla, nýsköpunar, viðskiptalífs og fleira þar í landi. Eitt af helstu markmiðum ferðarinnar var að kynnast þeim leiðum sem Singapúr býður fyrirtækjum og fjárfestum sem hyggja á uppbyggingu og útrás í Singapúr og fá innsýn í hvernig landið laðar til sín alþjóðlega sérfræðinga.

Þónokkur íslensk fyrirtæki hafa tengsl eða starfsemi í Singapúr. Má þar t.d. nefna stór íslensk fyrirtæki á borð við Össur og Marel en einnig smærri fyrirtæki eins og RAFNAR, Meniga, Ankeri og Kerecis. Í sendinefndinni voru fulltrúar frá bæði Ankeri og Kerecis en bæði fyrirtækin undirbúa um þessar mundir innrás á singapúrskan markað enda er landið ákveðinn miðpunktur nýsköpunar og viðskipta í Asíu. 

Singapúr stökkpallur inn á Asíumarkað

Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Kerecis hefur undanfarin ár einblínt á bandarískan markað fyrir sár- og vefjaskaða og hefur árangurinn þar verið vonum framar en sáraroð Kerecis er nú með yfir 5% markaðshlutdeild þar í landi eftir rúm fimm ár á markaði. Það er þó ekki einungis í Bandaríkjunum sem svokölluð sykursár valda miklum usla, þ.e. sár sem myndast á fótum sem afleiðingar sykursýki og getur leitt til aflimunar, heldur er vandamálið einnig slæmt í mörgum löndum Asíu og því mikil markaðstækifæri þar á ferð.

Kerecis vinnur nú að því að koma upp tengslum við samstarfsaðila í Asíu og eru markaðsprófanir hafnar í nokkrum löndum, þ.ám. í Singapúr þar sem varan er prófuð á fjórum stórum sjúkrahúsum. „Þátttaka Kerecis í sendinefnd ráðherra var afskaplega árangursrík og ánægjulegt að geta tengt sjúkrahúsin og samstarfsaðila Kerecis í Singapúr við dagskránna sem vafalaust efldi samskipti og áhuga á notkun tæki Kerecis í landinu,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis. „Heimsókn sendinefndarinnar til læknadeildar singapúrsk-bandaríska háskólans Duke var einnig árangursrík og þar lögð drög að rannsóknarsamstarfi sem reynst gæti mikilvægt fyrir innreið sáraroðstækni Kerecis í Asíu.“

Aukin tengsl við samstarfsaðila

Ankeri starfar a alþjóðlegum skipamarkaði og nýtir skýjalausn til að gera skipafyrirtækjum kleift að fylgjast með gögnum, frammistöðu og sjálfbærni flotans. Skipaflutningar eru umfangsmiklir í singapúrsku viðskiptalífi og landið því spennandi markaður fyrir fyrirtækið.

„Umfram skipulagða dagskrá sendinefndarinnar áttum við 14 fundi með mögulegum viðskiptavinum og samstarfsaðilum í Singapúr,“ segir Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeri. „Viðurkenning sú sem nýsköpunarfyrirtæki fá með því að vera í viðskiptasendinefnd ásamt ráðherra skiptir miklu máli og hjálpar fyrirtækjum í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Stuðningur í þessu formi er mjög mikilvægur, ekki síst í Asíu. Brýr sem byggjast með heimsóknum sem þessari eru ómetanlegar og nýtast bæði okkur hjá Ankeri sem og öðrum íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.“

Íslenska sendinefndin í Singapúr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum