Hoppa yfir valmynd
21. september 2015 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingum á siglingalögum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum. Þar er lagt til að tekin verði upp sambærileg vernd og farþegar njóta í öðrum flutningageirum, þ.e. í flugi og á landi. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 4. október nk. og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði reglugerð (ESB) nr. 1177/2010 um réttindi farþega sem ferðast á sjó eða skipgengum vatnaleiðum. Fram til þessa hafa ekki verið ítarlegar reglur í íslenskum rétti um réttindi farþega á sjó  og er því nauðsynlegt að breyta siglingalögum til að innleiða megi reglugerðina. 

Reglugerðin mælir fyrir um reglur um flutninga á sjó að því er varðar eftirfarandi:

 • Bann við mismunun 
  Samningsskilmálar og fargjald verður það sama fyrir alla farþega. Óheimilt verður að mismuna farþegum eftir þjóðerni, búsetu eða eftir því hvar farið er keypt.
 • Bann við mismunun fatlaðs fólks og hreyfihamlaðra einstaklinga og aðstoð við þá Ákvæði reglugerðarinnar eru mjög til bóta fyrir fatlað fólk og fólk með skerta hreyfigetu (e. disabled persons and persons with reduced mobility), en óheimilt er að synja því að kaupa miða og ferðast með þessum ferðamáta, þó með þeirri undantekningu þegar farþegaskip uppfyllir ekki tilteknar öryggiskröfur eða það telst ómögulegt vegna stærðar og búnaðar skips. Þá á fatlað fólk rétt á að því sé veitt aðstoð án endurgjalds til að komast að borði, aðstoð á meðan ferð stendur og aðstoð til að komast aftur frá borði við lok ferðar.
 • Seinkun og ferð fellur niður
  Í reglugerðinni er kveðið á um réttindi farþega þegar seinkun verður á ferð eða hún fellur niður. Farþegar eiga rétt á að fá upplýsingar um að ferð hafi seinkað eða fallið niður og hvenær áætlaður komu/brottfarartími sé. Einnig er kveðið á um að farþegar eigi rétt á að fá upplýsingar um aðrar mögulegar ferðaleiðir og möguleika á endurgreiðslu fargjalds. Þá geta farþegar átt rétt á fæði og gistingu auk þess að eiga rétt á skaðabótum við ákveðnar aðstæður sem miðast við verð á fargjaldinu.
 • Upplýsingar
  Farþegar eiga rétt á viðeigandi ferðaupplýsingum, fyrir ferð, á meðan henni stendur og að henni lokinni. Kveðið er á um að ferðaupplýsingar skuli birtar á þann hátt sem best þykir og að tekið sé tillit til þarfa fatlaðs fólks og hreyfihamlaðra við miðlun þeirra.  
 • Eftirlit
  Til staðar verður að vera gagnvirkt kerfi sem tekur við kvörtunum/kærum farþega og fjallar um deilumál aðila á þessu sviði. Farþegi hefur 2 mánuði til að bera fram kvörtun og skal flytjandi svara henni innan 2ja mánaða frá móttöku.
Reglugerðin gildir um farþegaflutninga og skemmtisiglingar. Hún tekur þó ekki til skipa sem mega flytja allt að 12 farþega, ekki til skipa þar sem áhöfnin, sem ber ábyrgð á siglingu skipsins, er þriggja manna eða færri, ekki til skipa í skoðunar- og kynnisferðum, og ekki til gamalla farþegaskipa sem hafa sögulegt gildi. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira