Hoppa yfir valmynd
20. júní 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um bætta þjónustu við fólk sem býr heima og þarfnast öndunarvélar

Ráðherra með nefndarmönnum - myndVelferðarráðuneytið

Vinnuhópur sem falið var að móta tillögur til að bæta aðbúnað og tryggja fullnægjandi aðstoð og þjónustu við fólk sem býr heima og þarfnast sólarhringsmeðferðar í öndunarvél, skilaði heilbrigðisráðherra í dag skýrslu með tillögum sínum.

Ráðherra skipaði hópinn í kjölfar ályktunar Alþingis nr. 43/145 sem samþykkt var 2. júní 2016 um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga.

Með skipunarbréfi heilbrigðisráðherra var hópnum falið að móta tillögur um skipulag heimaþjónustu við þá einstaklinga sem um ræðir, hvernig best sé að tryggja möguleika þeirra til hvíldarinnlagna, fjalla um samskiptatækni og þjálfun í notkun þeirra og hvernig best megi tryggja með samstarfssamningum eða öðrum hætti hnökralausa aðkomu allra þeirra sem koma að þjónustu við sjúklinga sem þurfa víðtæka öndunaraðstoð. Hópnum var falið að leita úrræða til að bæta aðbúnað og tryggja fullnægjandi aðstoð við daglegt líf þess fólks sem þarf víðtæka öndunaraðstoð og skyldi tillögunum fylgja kostnaðarmat og tímasett aðgerðaáætlun.

Þegar hópurinn tók til starfa var heilbrigðisráðherra búinn að gera ráðstafanir til að tryggja möguleika til hvíldarinnlagna með því að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við Reykjavíkurborg um sértæk hjúkrunarrými á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum. Rýmin eru meðal annars ætluð einstaklingum sem þurfa meðferð í öndunarvél og þurfa dvöl á hjúkrunarheimili bæði til langframa og tímabundinnar dvalar/hvíldarinnlagnar.

Hópurinn ákvað samt sem áður að taka saman ábendingar um forsendur eða atriði sem æskilegt væri að horfa til við mat og ákvörðun um hvíldarinnlögn fyrir þann hóp sem hér um ræðir. Upplýsinga var aflað meðal annars frá Noregi, Danmörku og Íslandi. Fulltrúar frá Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarkaupstað, þar sem reynsla er af því að annast fólk í öndunarvél, komu á fund hópsins og sögðu frá reynslu þeirra. Einnig var leitað til annarra sérfræðinga eftir því sem tilefni var til.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra þakkaði vinnuhópnum fyrir góða vinnu og vandaðar tillögur þegar hann tók við skýrslu hans í ráðuneytinu í dag: „Það er breiður vilji til að bæta þjónustu við þessa einstaklinga, líkt og fram kom þegar þingsályktunin var samþykkt á Alþingi. Nú er mikilvægt að hlutaðeigandi aðilar taki höndum saman og vinni að þeim úrbótum sem að er stefnt.“

Auk tillagna til úrbóta í samræmi við skipunarbréf hópsins er í skýrslu hans fjallað um ábyrgðarskil milli þjónustukerfa gagnvart einstaklingum í öndunarvél, en verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga getur haft áhrif á aðkomu og samfellu í þjónustu við þá sem þarfnast sólarhringsmeðferðar í öndunarvél. Um þetta efni segir m.a. í skýrslunni: „Undirbúningshópurinn er sammála um þær hugmyndafræðilegu forsendur að þjónustan eigi heima hjá sveitarfélögunum og hún fari vel innan þeirra þjónustukerfa með þeirri þjónustu sem þau veita í dag. Til að þjónustan geti gengið hnökralaust fyrir sig er það einnig mat undirbúningshópsins að mikilvægt sé að sameiginlegur skilningur ríki milli ríkis og sveitarfélaga um veitingu þjónustunnar og fjármögnun hennar. Undirbúningshópurinn er einnig sammála um og leggur mikla áherslu á að niðurstaða liggi fyrir hið allra fyrsta svo óvissu verði eytt og sólarhringsþjónusta á heimili þeirra einstaklinga sem hér um ræðir verði að veruleika.“

Formaður hópsins var Bryndís Þorvaldsóttir, fulltrúi heilbrigðisráðherra. Aðrir nefndarmenn voru Ingi Valur Jóhannsson, fulltrúi félags- og jafnréttismálaráðherra, Bryndís Stefanía Halldórsdóttir, fulltrúi Landspítala, Gyða Hjartardóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Guðjón Sigurðsson, fulltrúi samtaka sjúklinga. Guðrún Björk Reykdal, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, vann einnig með hópnum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum