Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

Fjölmennt jafnréttisþing um samspil jafnréttismála og umhverfismála

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setur jafnréttisþing - myndBIG

Fjölmennt jafnréttisþing var haldið í Hörpu fimmtudaginn 20. febrúar. Yfir 300 gestir tóku þátt í þinginu, auk þess sem streymt var frá viðburðinum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti þingið sem var haldið undir yfirskriftinni „Kyn, loftslag og framtíðin“. Grunnstef þess var að fjalla um samspil jafnréttismála og umhverfismála í samhengi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Aðal­fyr­ir­les­ari var Hild­ur Knúts­dótt­ir rit­höf­und­ur og fjallaði hún um hvernig kynjam­is­rétti í sam­fé­lög­um hef­ur aukið á lofts­lags­vand­ann og varp­aði upp þeirri spurn­ingu hvort vand­inn verði yfirhöfuð leyst­ur án jöfnuðar.

Í ávarpi sínu rifjaði forsætisráðherra upp mikilvæga áfanga í þróun jafnréttismála:

„Árið í ár er sannkallað tímamótaár. Hundrað ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis að fullu til jafns við karla. Kvenfélagasamband Íslands fagnar 90 ára afmæli sínu og það gerir líka frú Vigdís Finnbogadóttir, auk þess sem fjörutíu ár eru liðin frá kjöri hennar til forseta Íslands. Fæðingarorlofslögin eru 20 ára, Stígamót eru 30 ára, 50 ár frá því Rauðsokkahreyfingin var stofnuð og á alþjóðavettvangi er þess minnst að 25 ár eru liðin frá samþykkt Peking yfirlýsingarinnar um réttindi kvenna. Svona mætti áfram telja. Tímamót eru kjörið tækifæri til að líta um öxl, fagna því sem hefur áunnist og þakka brautryðjendum en einnig til að skerpa framtíðarsýnina.“

Ráðherra ræddi nýútkomna skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála fyrir árin 2018 og 2019, meðal annars þá staðreynd að ennþá einkenndi kynjaskipting starfa vinnumarkaðinn og hefðbundin verkaskipting kynjanna væri enn ríkjandi innan heimila og við umönnun hér á landi. Vísbendingar væru um að álag hefði aukist í þjóðfélagslega mikilvægum störfum innan mennta- og heilbrigðiskerfisins. Þá bættist við álag utan vinnu vegna umönnunar sem kæmi fram í aukinni tíðni veikindaleyfa og örorku meðal kvenna yfir miðjum aldri. Þetta væri vandi í samfélagsgerðinni sem þyrfti að takast á við.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Sú umræða sem hefur spunnist í kringum kjaraviðræður – sem nú standa yfir bæði hjá borg og ríki og við sjáum birtast hér í þessum sal með gestum okkur frá Eflingu, sem eru hingað mætt til að minna á sínar kröfur – er mikilvæg í þessu sambandi. Með henni er dreginn fram hinn kynjaði veruleiki á íslenskum vinnumarkaði en kannski líka ákveðin vangeta til að þróa lausnir innan hins hefðbundna samskiptalíkans hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins. Ég árétta að ég tel ekki að einir samningar geti leyst þennan margþætta vanda. Viðfangsefnið er stærra en svo og kallar á víðtæka sátt um bæði vandamálið og lausnirnar. Ég tel þó að við höfum stigið mikil framfaraskref í umgjörð vinnumarkaðsmála með stofnun nýskipaðs Þjóðhagsráðs þar sem aðilar sitja saman við borðið og takast á við stóru málin á íslenskum vinnumarkaði. Mín von er sú að með því að styrkja þessa umgjörð um vinnumarkaðsmál á Íslandi, í Þjóðhagsráði, með nýrri launatölfræðinefnd og fleiri þáttum sem við höfum unnið að undanfarin misseri, færumst við nær aukinni sátt – ekki bara um leiðir heldur líka hver vandamálin eru.“

Á þing­inu var einnig fjallað um átaka­orðræðu í lofts­lags- og jafn­rétt­isum­ræðu en klofningur milli kynja, kynslóða, landsvæða og hagsmunahópa hefur verið áberandi, einkum á samfélagsmiðlum. Þá voru fluttar stuttar hugvekjur um breytta lifnaðarhætti til framtíðar í samhengi við tæknibreytingar og loftslagsmál. Forsætisráðuneytið og Jafnréttisráð stóðu að þinginu og að þessu sinni í samstarfi við Stúdentaráð Háskóla Íslands sem stóð fyrir dagskrárliðnum Hvað brennur á ungu fólki?.

Ávarp forsætisráðherra á jafnréttisþingi 2020.

Ljósmyndir sem teknar voru á jafnréttisþingi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira