Hoppa yfir valmynd
23. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur á Þorláksmessu 23. desember 2023

Heil og sæl, 

Þetta verður síðasti föstudagspóstur ársins 2023. Vikulegt yfirlit yfir líf og störf í utanríkisþjónustunni er fastur liður sem fær okkur á upplýsingadeild og vonandi ykkur sem lesið til að staldra aðeins við, hugleiða hvað hefur áunnist, hvar við erum stödd og hvað er framundan. Áramót eru einmitt þannig tími í lífum flestra, á stærri skala. Við lítum yfir farinn veg, tökum stöðuna og búum okkur undir verkefnin sem við vitum að eru framundan og styrkjum okkur til að takast á við það óvænta.

Við byrjum yfirferð vikunnar á gleðifréttum frá Úganda. Tveir nýir grunnskólar sem byggðir voru fyrir íslenskt þróunarfé hafa verið afhentir yfirvöldum í Namayingo-héraði í landinu. Á dögunum voru ný salernishús tekin í notkun í sjö skólum til viðbótar. 

Namayingo er fátækt hérað í suðausturhluta Úganda. Þar búa um 215 þúsund manns og um 70 prósent þeirra eiga heima í fiskveiðiþorpum við Viktoríuvatn. Grunnþjónusta er þar af skornum skammti og styrkir Ísland héraðið með verkefnum í strandbyggðunum á sviði menntunar og vatns- og hreinlætismála, ásamt stofnanauppbyggingu. Framkvæmd verkefnanna er undir forystu héraðsyfirvalda með stuðningi og eftirliti af hálfu Íslands. Þau eru skipulögð í samræmi við þróunaráætlun Úganda, þróunarsamvinnustefnu Íslands og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
 

Talandi um þróunarsamvinnustefnu Íslands þá var ný þróunarsamvinnustefna fyrir árin 2024 - 2028 samþykkt sl. föstudag. Yfirmarkmið nýrrar stefnu er „útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði“ auk þess sem mannréttindi og jafnrétti kynjanna annars vegar og umhverfis- og loftslagsmál hins vegar eru bæði sértæk og þverlæg markmið, sem þýðir að þau skuli lögð til grundvallar og samþætt í allt starf.

Stjórnmálasamráð Íslands og Kína fór fram í Peking 21 desember. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri ræddi samskipti ríkjanna við Deng Li vara utanríkisráðherra. Jafnframt ræddu þeir mannréttindi í Kína, samskipti Kína við Bandaríkin og ESB, árásarstríð Rússlands í Úkraínu og átökin í Miðausturlöndum.

Martin fundaði einnig með Ling Ji vara viðskiptaráðherra um framkvæmd og mögulega uppfærslu á fríverslunarsamningi ríkjanna sem undirritaður var fyrir 10 árum. Jafnframt ræddu þeir komandi ráðherrafund WTO, samninginn um ríkisstyrki í sjávarútvegi, og áframhaldandi samstarf á sviði jarðvarma og kolefnisföngunar.

Í dag greindum við frá því að Ísland muni taka þátt í starfi tveggja ríkjahópa sem veita Úkraínu stuðning, annars vegar á sviði netvarna- og upplýsingamála (IT Coalition) og hins vegar á sviði sprengjueyðinga (Demining Coalition). 

„Markmiðið er að stuðningurinn leiði til bættrar varnarstöðu Úkraínu í baráttunni við innrásarlið Rússa. Með því að taka þátt í þessum ríkjahópum og veita viðbótarfjárframlög höldum við áfram að sýna í verki mikilvægi þess að styðja við Úkraínu af fullum kraft,“ segir Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra

Gos hófst á Reykjanesskaga með tilheyrandi tilkynningaskyldu sendiráðanna þótt því hafi lokið heldur fljótlega í þetta skiptið.

Í New York hlýddi fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Jörundur Valtýsson, á barnabarn eins helsta höfundar Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, Ms. Önnu Eleanor Roosevelt sem heitir í höfuðið í ömmu sinni en um þessar mundir fögnum við 75 ára afmæli yfirlýsingarinnar sjálfrar. 

Anna Pála Sverrisdóttir sendiráðunautur í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hitti framkvæmdastjóra samtakanna Trust Fund for Victims í tengslum við þing Alþjóðasakamáladómstólsins sem lauk í síðustu viku. Ísland styður við sjóðinn.

Starfsfólk sendiráðs Íslands í Helsinki þáði boð á kappræður forsetaframbjóðenda þar í landi.

80 nemendur í alþjóðastjórnmálum frá ESSCA-háskólanum í Frakklandi heimsóttu sendiráð Íslands í París í síðustu viku og fengu þar kynningu á utanríkisstefnu Íslands, EES-samstarfinu, starfsemi sendiráðsins og fastanefndanna í París.

Íslenskar kvikmyndir gera það gott erlendis og kvikmyndagerðafólk nýtur stuðnings starfsfólks sendiráða okkar víða um heim, til að mynda í París. 

Og Washington.

Íslensk úr frá JS Watch co. Reykjavik verða í hávegum höfð í nýopnaðri verslun í Gamla stan í Stokkhólmi.

Ragnar Þorvarðarson sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Japan átti, ásamt norrænum sendiherrum, fund með utanríkisráðherra Japan Yōko Kamikawa um samstarf ríkja í norður Evrópu og Japan á hinum ýmsu sviðum. 

Íslenskt skyr kom við sögu í Tókýó.

Og íslenski hesturinn í Varsjá.

Ásamt norrænu landslagi.

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni á jólakveðjum frá sendiskrifstofum okkar um víða veröld. Við á upplýsingadeild þökkum fyrir árið og hlökkum til að sjá hvaða ævintýri og áskoranir bíða okkar á því nýja. 

Hlýjar jólakveðjur,

upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum