Hoppa yfir valmynd
31. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstaða á Suðurnesjum

Frá fundinum í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju
Frá fundinum í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju

Á annað hundrað manns tók þátt í starfsdegi Suðurnesjavaktarinnar, samstarfshóps á vegum velferðarvaktarinnar um velferð á Suðurnesjum, þann 27. október síðastliðinn. Fjallað var um úrræði og athafnir á sviði velferðarþjónustu á svæðinu og kynntur nýr bæklingur með slíkum upplýsingum.

Á annað hundrað manns tók þátt í starfsdegi Suðurnesjavaktarinnar, samstarfshóps um velferð á Suðurnesjum, sem haldinn var 27. október síðastliðinn.  Suðurnesjavaktin starfar á vegum velferðarvaktarinnar og var sett á fót í byrjum þessa árs að ósk Suðurnesjamanna til að efla samstarf sveitarfélaga á svæðinu um velferðarmál.

Á starfsdeginum voru saman komnir aðilar sem standa að baki fulltrúum í Suðurnesjavaktinni ásamt öðrum sem starfa að velferðarmálum á svæðinu. Þarna voru meðal annars fulltrúar frá öllum félagþjónustum sveitarfélaganna á svæðinu, Vinnumálastofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fjölmörgum menntastofnunum, kirkjunni, fræðsluskrifstofum og fleirum. Markmiðið með starfsdeginum var að kynna öll úrræði og athafnir sem eru í boði á Suðurnesjum á sviði velferðarþjónustu en talin hefur verið þörf á markvissri kynningu fyrir þá sem starfa að ráðgjöf og þjónustu við einstaklinga á svæðinu.

Ingibjörg Broddadóttir frá velferðarráðuneytinu og formaður Suðurnesjavaktarinnar flutti ávarp í upphafi dags. Eftir það hélt Lovísa Lilliendahl verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar kynningu á úrræðum og fleiru sem er í boði á svæðinu og í framhaldinu fengu allir fulltrúar tækifæri til þess að kynna nánar sínar eigin stofnanir og samtök. Suðurnesjakonan Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands flutti skemmtilegt erindi og góð hvatningarorð til Suðurnesjamanna. Lára Björnsdóttir formaður stýrihóps velferðarvaktarinnar hélt svo stutta tölu í lok dags. Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði sá um fundarstjórn.

Í tilefni dagsins var kynntur nýr bæklingur sem Suðurnesjavaktin tók saman og inniheldur úrræði og athafnir á sviði velferðarmála á Suðurnesjum 2011.

Velferðarvaktin var sett á laggirnar í kjölfar efnahagshrunsins en hlutverk hennar er að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins fyrir fjölskyldur og einstaklinga í landinu með markvissum hætti og gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna. Velferðarvaktin er óháður álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunaaðila. Suðurnesjavaktin hefur verið starfandi frá því í byrjun janúar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum