Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra skipar starfshóp um EES-skýrslu

Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp sem vinna á skýrslu um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Hópurinn er skipaður þremur einstaklingum sem hafa víðtæka þekkingu og fjölbreytta reynslu á þessu sviði. 

Á næsta ári verður aldarfjórðungur liðinn frá gildistöku EES-samningsins. Jafnframt eru framundan þáttaskil í Evrópusamvinnunni þar sem til stendur að aðildarríki gangi úr ESB í fyrsta sinn. Í ljósi þessa er bæði tímabært og nauðsynlegt að ráðast í ítarlega úttekt á aðild Íslands að EES. 

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, verður formaður starfshópsins. Hann ber almenna ábyrgð á skipulagi verkefnisins og er talsmaður hópsins gagnvart stjórnvöldum. Auk hans sitja í hópnum þær Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og erindreki um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar. Þá fær hópurinn sér til halds og trausts starfsmann sem hefur aðsetur í utanríkisráðuneytinu.

„EES-samningurinn hefur reynst okkur afar vel undanfarinn aldarfjórðung en það er engu að síður nauðsynlegt að meta kosti hans og galla reglulega. Á síðustu misserum höfum við verið að bæta framkvæmd samningsins og gæta betur að okkar hagsmunum. Nú er lag að lyfta umræðu um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þremenningarnir sem skipa starfshópinn eigi eftir að skila bæði vandaðri skýrslu sem á eftir að nýtast vel enda valinn maður í hverju rúmi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Með skýrslunni er jafnframt komið til móts við beiðni frá hópi þingmanna um skýrslu utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningnum sem samþykkt var á Alþingi fyrr á þessu ári.

Starfshópurinn fær tólf mánuði til skýrslugerðarinnar. Við vinnu sína skal starfshópurinn leita til helstu sérfræðinga á þeim sviðum sem skýrslugerðin tekur til og er heimilt að afla efnis í skýrsluna frá fræðimönnum og öðrum sérfræðingum utan hópsins. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira