Hoppa yfir valmynd
9. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Nýsköpun í öldrunarþjónustu verður til á gamla Sólvangi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri - mynd

Heilbrigðisráðuneytið og Hafnarfjarðarbær hafa gert með sér samning sem felur í sér endurgerð húsnæðis gamla Sólvangs þar sem komið verður á fót nýrri tegund sérhæfðrar þjónustu fyrir aldraða. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir undirrituðu samninginn á Sólvangi í dag. Í húsinu verða rými til skammtíma- og hvíldarinnlagna fyrir 39 einstaklinga þar sem veitt verður létt endurhæfing og lagt mat á frekari stuðningsþarfir viðkomandi. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 250 einstaklingum þessa þjónustu. Markmiðið er að efla getu fólks til að búa lengur heima. Að auki verður opnuð ný hjúkrunardeild í húsinu með aðstöðu fyrir 11 einstaklinga. Heilbrigðisráðuneytið mun veita Hafnarfjarðarbæ 120 milljónir króna vegna verkefnisins. 

Dregið úr þörf fyrir bráðaþjónustu og innlagnir á sjúkrahús

Eitt af megnimarkmiðum þjónustunnar er að beita forvörnum sem dregið geta úr líkum á alvarlegum heilsubresti sem útheimtir þjónustu á bráðamóttöku eða leiðir til ótímabærrar innlagnar á sjúkrahús. Þjónustunni er þannig ætlað að létta álagi af Landspítala, auka stuðning við aðstandendur aldraðra sem oft eru undir miklu álagi og síðast en ekki síst að bæta lífsgæði þeirra öldruðu sem þjónustunnar njóta og gera þeim betur kleift að búa lengur heima en ella. 

Samlegðaráhrif með rekstri hjúkrunarheimilis Sólvangs

Gert er ráð fyrir að húsnæði Sólvangs verði tilbúið undir rekstur þjónustunnar fyrir lok ársins og verður Sjúkratryggingum Íslands falið að bjóða út reksturinn. Horft er til þess að þjónustan verði á sömu hendi og rekstur hjúkrunarheimilis Sólvangs þar sem samnýta megi ýmsa aðstöðu í þágu notenda. Áhersla verður lögð á samvinnu við heilsueflandi móttökur á heilsugæslustöðvum og aðra þjónustu heilsugæslustöðva sem snýr að öldruðum.

Svandís Svavarsdóttir: „Það er frábært að þetta verkefni sé komið á framkvæmdastig. Við þurfum mun fjölbreyttari þjónustu til að mæta þörfum aldraðra en tíðkast hefur og við þurfum miklu meiri nýsköpun á þessu sviði. Þetta verkefni er liður í þeirri hugsun, rétt eins og var markmið með því að koma á fót heilsueflandi móttökum á heilsugæslustöðvum og með nýlegum samningi við Reykjavíkurborg um stofnun öldrunarteymis sem sinnir sérhæfðri heimahjúkrun við aldraða.“ 

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, fagnar þessum ánægjulega áfanga í þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu: „Við höfum sett nýsköpun í þjónustu í forgang með áherslu á heilsueflingu aldraðra. Um er að ræða nýja nálgun til að styðja við búsetu eldri borgara í heimahúsum sem miðar að því að bæta lífsgæði og heilsu eldri borgara og gera fólki kleift að búa sem lengst heima.

Sólvangur fær nýtt og endurnýjað hlutverk og verður miðstöð þjónustu fyrir aldraða í sveitarfélaginu eins og lengi hefur verið stefnt að. „Það er mjög ánægjulegt að halda áfram uppbyggingu öldrunarþjónustu á þessum stað. Hafnarfjarðarbær hefur lagt áherslu á fyrirbyggjandi stuðning við eldri borgara með markvissri heilsueflingu og fellur þetta nýja verkefni á Sólvangi afar vel að þeim áherslum bæjarins,“ segir Rósa. 

Gamli Sólvangur miðstöð öldrunarþjónustu

Hafnarfjarðarbær rekur nú þegar dagþjálfun fyrir aldraða á fyrstu hæð gamla Sólvangs. Þetta eru almenn rými og einnig sérhæfð rými fyrir einstaklinga með heilabilun sem nýlega var fjölgað um 12. Þegar breytingum á húsnæðinu lýkur er gert ráð fyrir opnun nýrrar hjúkrunardeildar fyrir 11 einstaklinga á 2. hæð hússins. Á 3. og 4. hæðinni verður aðstaða fyrir þá einstaklinga sem njóta munu þjónustu og endurhæfingar í skammtíma- og hvíldarinnlögnum, en eins og fyrr segir verður þar aðstaða fyrir 39 einstaklinga á hverjum tíma.

  • Nýsköpun í öldrunarþjónustu verður til á gamla Sólvangi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Nýsköpun í öldrunarþjónustu verður til á gamla Sólvangi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Nýsköpun í öldrunarþjónustu verður til á gamla Sólvangi - mynd úr myndasafni númer 3
  • Nýsköpun í öldrunarþjónustu verður til á gamla Sólvangi - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum