Hoppa yfir valmynd

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki - Rammagrein 4

Efling nýsköpunar í atvinnulífinu er stór liður í áformum stjórnvalda um stuðning við vaxtargetu hagkerfisins í því skyni að örva framleiðniþróun. Eitt helsta verkfæri hins opinbera til þess er skattfrádráttur eða útgreiðsla á styrk samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunar­fyrirtæki en þau hafa það markmið að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnis­hæfni nýsköpunarfyrirtækja.

Fyrirtæki sem hafa fengið staðfestingu frá Rannís fá rétt til skatt­frádráttar á álögðum tekjuskatti vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni eða greiðslur ef frádrátturinn er meiri en það sem fyrirtækjum er gert að greiða í tekjuskatt. Á síðustu árum hafa beinar útgreiðslur numið um 90% af heildarstuðningnum.

Frá því að lögin tóku gildi árið 2010 hefur stuðningur við nýsköpun stóraukist. Bæði hafa fleiri nýsköpunarfyrirtæki nýtt sér stuðninginn og stjórnvöld gert umfangsmiklar breytingar á stuðningskerfinu. Veigamesta breytingin fól í sér hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu sem var lögfest tímabundið árið 2020 í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Núverandi ríkisstjórn framlengdi þá hækkun til ársins 2025 og er endurgreiðsluhlutfallið því áfram 35% af útlögðum kostnaði vegna verk­efna í tilviki lítilla og meðalstórra fyrirtækja og 25% í tilviki stórra fyrirtækja.

Stuðningur við nýsköpun stóraukist á síðustu árum: 2011-2023

 

Fjármagn sem var greitt í styrk og veittan skattafslátt vegna nýsköpunar og þróunar nam um 0,32% af VLF árið 2023 en um 0,05% árið 2011 þegar stuðningurinn var fyrst veittur sam­kvæmt lögum. Í fjárlögum ársins 2024 er gert ráð fyrir 16,6 ma.kr. í umræddan stuðning. Gert er ráð fyrir að á árunum 2025–2029 fari samanlagt 96 ma.kr. til stuðnings við nýsköpunar­fyrirtæki.

Á síðasta ári voru kynntar niðurstöður Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á úttekt á stuðn­ingsfyrirkomulaginu um skattfrádrátt og greiddan styrk vegna rannsóknar og þróunar á Íslandi. Almennt eru niðurstöður og ráðleggingar í skýrslunni jákvæðar og er hvatt til áfram­haldandi beitingar aðgreinds skattafsláttar milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stærri fyrir­tækja í rannsóknum og þróun í samræmi við þá breytingu sem gerð var á lögunum árið 2020 og var síðan framlengd 2022. Er á því byggt að skattafsláttur vegna rannsókna og þróunar hafi meiri áhrif á lítil og smærri fyrirtæki.

Mikilvægt er þó að meta árangurinn með reglulegum hætti og til þess að svo megi vera þarf að viðhalda þeim gagnagrunni sem komið var upp í tengslum við vinnu OECD og bæta við upplýsingum í grunninn til að ná að meta áhrifin út frá fleiri þáttum en gert var í þeirri rannsókn.

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum