Hoppa yfir valmynd

Virkjun efnahags ríkisins til lækkunar á skuldum ríkissjóðs - Rammagrein 8

Umtalsverðar eignir eru á efnahagsreikningi ríkissjóðs sem tækifæri eru til að hagnýta mun betur. Ríkissjóður er eigandi að 47 félögum sem höfðu samtals um  1.000 ma.kr. í eigin fé í árslok 2022. Þá er ríkissjóður eigandi að um 900 fasteignum með heildarfermetrafjölda upp á 950.000 m2 og ríflega 400 jörðum en bókfært virði þessara eigna er um 312 ma.kr. Til viðbótar á ríkissjóður talsvert af lóðum, spildum og auðlindum víðs vegar um landið. Í eignasafninu felast margvísleg tækifæri til að innleysa verðmæti, t.a.m. með sölu eigna eða þróun þeirra sem eykur virði eignanna.

Til að styðja við lækkun á skuldastöðu ríkissjóðs og meira svigrúm til samfélagslega arð­bærra fjárfestinga verður lögð aukin áhersla á að hámarka hagrænan og samfélagslegan ábata af eignum ríkisins. Frekari greining verður gerð á félaga- og eignasafni ríkisins m.t.t. þess hvaða eignir teljast mikilvægar út frá almannahagsmunum og sviðsmyndir mótaðar um sölu og ráðstöfun slíkra eigna. Horft verður til tilgangs og ábata af eignarhaldinu og arðsemis­sjónarmiða.

Tækifæri eru til að stýra efnahagsreikningi ríkisins með enn markvissari hætti og ná fram meiri arðsemi, auknum arðgreiðslum og öðrum ábata af eignum ríkisins. Þörf er á að ráðast í sölu ótekjuberandi eigna eins fljótt og hægt er og kanna möguleika á sameiningu félaga eða sölu þeirra í meira mæli en verið hefur. Með slíkum aðgerðum verður hægt að lágmarka fjármagnskostnað ríkissjóðs að teknu tilliti til áhættu, innleysa verðmæti sem liggja á efnahagsreikningnum og þar með draga úr skuldasöfnun.

Skuldir og eignir ríkissjóðs jukust árið 2022: 2018-2022

Til baka
Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum