Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

AÞS: Skýrsla 1997: IV Norrænt samstarf

Yfirlitsskýrsla um utanríkismál - 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi

IV - Norrænt samstarf

Öflug þátttaka í rótgrónu samstarfi Norðurlandaþjóða er sem fyrr grundvallarþáttur í íslenskum utanríkismálum. Þrátt fyrir umfangsmiklar breytingar sem hafa orðið á efnahagsmálum, stjórnmálum og öryggissamstarfi Evrópuþjóða á fáum árum og öra þróun á þeim sviðum, hefur hefðbundið samstarf Norðurlanda sýnt að það er lífseigt og hefur góða aðlögunarhæfni. Með breyttum áherslum í samstarfi Norðurlanda, sem staðfestar voru með breytingum á Helsingforssamningnum á aukaþingi Norðurlandaráðs í Kaupmanna-höfn í september 1995 og tóku gildi í byrjun árs 1996, eru stoðir Norðurlandasamstarfsins nú þrjár. Þær eru samstarf innan Norðurlanda, samstarf um Evrópumál og samstarf Norðurlanda við grannsvæði. Ennfremur gætir nú aukinnar umfjöllunar um öryggis- og varnarmál á vettvangi Norðurlandasamstarfsins. Ljóst er að þessar breyttu áherslur í samstarfi Norðurlanda hafa gætt það nýju lífi.

Þótt Norðurlönd hafi valið sér mismunandi leiðir hvað varðar Evrópusambandið og samstarf á sviði öryggismála í ljósi mismunandi hagsmuna hefur það ekki haft deyfandi áhrif á þátttöku ríkjanna í Norðurlandasamstarfinu. Aðild Svíþjóðar og Finnlands að Evrópusambandinu hefur til dæmis skerpt umræðu og margvíslegt samstarf Norðurlanda í málefnum sambandsins. Sameiginlegir hagsmunir Norður-landa á vettvangi Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins hafa á skömmum tíma leitt til nánara samráðs um einstök málefni, bæði í höfuðborgum og í Brussel. Skipulag upplýsingastreymis frá stofnunum Evrópusambandsins til Norrænu ráðherranefndarinnar, Norðurlandaráðs og höfuðborga Norðurlanda er einnig í stöðugri endurskoðun.

Jafnframt hafa innbyrðis tengsl einstakra norrænna þingmanna og flokkahópa styrkst. Það hefur endurspeglast í bættu upplýsingastreymi til þingmanna og málefnalegri umfjöllun og skoðanaskiptum á vettvangi Norðurlandaráðs.

Náið samráð Norðurlanda kom skýrt fram á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins. Í því sambandi má einnig minna á samstöðu og ýtarlegt samstarf vegna Schengen-samningsins. Haldnir eru reglubundnir fundir ráðherra ríkjanna fimm, embættismanna og sérfræðinga. Náin tengsl á öðrum sviðum, til dæmis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana, verða áfram mikilvæg.

Samstarf á sviði öryggis- og varnarmála setti sterkan svip á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember í fyrra. Ljóst er að þessi málaflokkur verður á dagskrá þingsins í framtíðinni, ólíkt því sem áður var. Varnarmálaráðherrar Norðurlanda taka nú reglulega þátt í þingi Norðurlandaráðs. Íslendingar eiga nú áheyrnaraðild á fundum varnarmálaráðherra Norðurlanda.

Að frumkvæði Norðurlandaráðs var í fyrsta sinn í sögu norræns samstarfs haldin sérstök öryggismálaráðstefna Norðurlanda í Helsinki í september síðastliðnum. Tilgangur ráðstefnunnar var meðal annars undirbúningur fyrir þingið í nóvember og að skapa umræður um öryggismál í víðara samhengi. Ráðstefnan var vel sótt og vakti verðskuldaða athygli. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fjallaði í ræðu sinni á ráðstefnunni um lýðræði, mannréttindi og efnahagsþróun og mikilvæga hlutdeild þessara þátta í almennri þróun öryggismála. Hann vakti sérstaka athygli á baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi í þeim tilgangi að efla borgaralegt öryggi, og veigamiklu hlutverki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópuráðsins í því skyni að treysta mannréttindi og efla lýðræðisþróun.

Sendiráð í Helsinki

Mikilvægi Norðurlandasamstarfsins endurspeglaðist skýrt í ákvörðun ríkisstjórnar Íslands 18. júlí síðastliðinn um að opna nýtt íslenskt sendiráð í Helsinki. Utanríkisráðherra opnaði sendiráðið formlega 25. ágúst. Með stofnun sendiráðsins gefst tækifæri til að treysta enn betur náið samstarf Íslands og Finnlands, bæði efnahagslegt og pólitískt.

Finnland gegnir lykilhlutverki í grannsvæðasamstarfinu og er jafnframt mikilvægur tengiliður vaxandi samskipta ESB og Rússlands. Finnar munu fara með formennsku í Evrópusambandinu árið 1999 og í Barentsráðinu sama ár. Í formennskutíð sinni munu Finnar leggja áherslu á að treysta samstarf Evrópusambandsins við Rússa, en nýr samstarfssamningur ESB og Rússlands er nú í burðarliðnum. Jafnframt mun tilurð sendiráðs í Helsinki gefa færi á auknum samskiptum við Eystrasaltsríkin, einkum Eistland, og auka þátttöku í svæðisbundnu samstarfi á vettvangi Eystrasaltsráðsins og Barentsráðsins. Jafnframt er þeim áfanga náð að Ísland er ekki lengur eina norræna ríkið sem ekki á sendiráð í öllum norrænu höfuðborgunum. Viðskipti ríkjanna aukast á hverju ári og innan skamms hefja Flugleiðir reglubundið áætlunarflug til Helsinki tvisvar í viku. Nánari samskipti byggjast ekki síst á traustum samgöngum.

Norræn sendiráð í Berlín

Af öðru samstarfi Norðurlanda er vert að minna á samstarfssamning Norðurlanda um sendiráð landanna á sameiginlegri sendiráðslóð í Berlín er undirritaður var 4. ágúst 1995. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og er ráðgert að byggingar fyrir norrænu sendiráðin fimm verði fullgerðar árið 1999.

Norrænt hús í New York

Forráðamenn samtakanna American Scandinavian Foundation óskuðu á síðasta ári atbeina norrænna samstarfsráðherra og utanríkisráðherra Norðurlanda vegna kaupa samtakanna á húsnæði í New York undir norræna menningarmiðstöð. Utanríkisráðherra lýsti sérstökum áhuga á málinu og hefur fylgt erindi American Scandinavian Foundation eftir við utanríkisráðherra hinna Norðurlandanna. Jafnframt samþykkti ríkisstjórn Íslands að leggja fram fé til verkefnisins ef frændþjóðirnar legðu fram sambærilegar upphæðir. Utanríkisráðherrar hinna Norðurlandanna tóku vel í tillögu utanríkisráðherra Íslands og áforma að veita fé til verkefnisins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum