Hoppa yfir valmynd
7. september 1998 Dómsmálaráðuneytið

Samningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um fjárframlög


Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi

s a m n i n g

um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað
biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar:


1. gr.

Samningur þessi er nánari útfærsla á samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, hér eftir nefnt kirkjujarðasamkomulagið, og nær jafnframt til rekstrarkostnaðar þjóðkirkjunnar sem fellur utan þess samkomulags, sbr. 3. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
Með samningi þessum eru þrjú fylgiskjöl nr. 1, 2 og 3. Um er að ræða skýringar við samning þennan (fskj. nr. 1), yfirlit yfir fjárhæðir samningsins (fskj. 2) og framangreint samkomulag frá 10. janúar 1997 (fskj. nr. 3).

2. gr.

Úr ríkissjóði skal greitt fjárframlag vegna launa og launatengdra gjalda biskups Íslands, vígslubiskupa og 138 presta og prófasta samkvæmt úrskurðum kjaranefndar, kjaradóms og gildandi lögum og reglum á hverjum tíma.
Að auki skal árlega gera ráð fyrir fjárframlagi er svarar til launa og launatengdra gjalda í 70 mánuði vegna námsleyfa, veikinda og annarra launaútgjalda umfram greiðslur samkvæmt 1. mgr., þar með talið fæðingarorlof. Þau mánaðarlaun skal miða við meðalheildarlaun sóknarprests samkvæmt líkani sem tilgreint er í 4. mgr. þessarar greinar.
Fjölgi eða fækki prestum samkvæmt 2. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag, sbr. 1. mgr., breytast sem því nemur. Fyrir hvert prestsembætti, sem þannig fjölgar eða fækkar um, skal fjölga eða fækka mánuðum vegna námsleyfa o.fl., sbr. 2. mgr., um hálfan mánuð.
Fjárframlag samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. skal áætlað í reiknilíkani sem biskupsstofa hefur umsjón með í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Líkanið skal sundurliða launin niður á embætti og launategundir. Við undirbúning frumvarps til fjárlaga hvers árs skal biskupsstofa endurskoða líkanið til samræmis við síðustu úrskurði kjaranefndar og kjaradóms. Niðurstaða líkansins skal lögð til grundvallar fjárframlagi í frumvarp til fjárlaga hvers árs enda staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti líkanið.
Ef nýir úrskurðir kjaranefndar og kjaradóms leiða til breytinga á kostnaði samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. sem ekki eru í samræmi við forsendur fjárlaga skal leiðrétta framlögin til samræmis.

3. gr.

Úr ríkissjóði skal árlega greitt fjárframlag að fjárhæð 89,5 m.kr. til rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta og annars kostnaðar en launa sem tilgreindur er í úrskurðum kjaranefndar. Kirkjuþing setur reglur um greiðslu rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta og skulu þær taka gildi 1. janúar 1999.
Fjölgi eða fækki prestum, samkvæmt 2. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins, breytist fjárframlag um 0,6 m.kr.
Samningsfjárhæðir, samkvæmt grein þessari, skulu verðbættar í fjárlögum ár hvert í samræmi við forsendur fjárlaga um hækkun annarra rekstrargjalda en launa.


4. gr.

Úr ríkissjóði skal árlega greitt framlag að fjárhæð 52,7 m.kr. til greiðslu launa starfsmanna biskupsstofu. Biskupsembættið ákveður fjölda starfsmanna hverju sinni og ráðningarkjör þeirra.
Fjölgi eða fækki störfum á biskupsstofu samkvæmt 3. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag samkvæmt 1. mgr. breytast um 2,9 m. kr. fyrir hvert starf.
Samningsfjárhæðir samkvæmt grein þessari skulu hækka í samræmi við meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna samkvæmt mati Hagstofu Íslands. Verði breyting, á þeim sem ekki er í samræmi við forsendur fjárlaga skal framlagið leiðrétt.

5. gr.

Árlega skal greitt úr ríkissjóði framlag að fjárhæð 30 m.kr. til annars kostnaðar biskupsstofu, vígslubiskupa og biskups Íslands, en að framan greinir. Fjárhæðin tekur til alls rekstrarkostnaðar annars en launa og launatengdra gjalda samkvæmt 2. og 4. gr., m.a. endurnýjunar á tækjum og búnaði, húsnæðiskostnaðar, ferðakostnaðar, risnu og kostnaðar vegna biskupskosninga.
Fjölgi eða fækki störfum á biskupsstofu samkvæmt 3. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag vegna reksturs breytast um 1,4 m.kr. fyrir hvert starf.
Samningsfjárhæðir samkvæmt grein þessari skulu verðbættar í fjárlögum ár hvert í samræmi við forsendur fjárlaga um hækkun annarra rekstrargjalda en launa.

6. gr.

Árlegt framlag í fjárlögum til kristnisjóðs skal svara til 15 fastra árslauna presta í fámennustu prestaköllum samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Auk þess skal árlega greiða úr ríkissjóði til ársloka 2005 sem nemur einum árslaunum samkvæmt 1. mgr.


7. gr.

Ríkissjóður greiðir samkvæmt fjárlögum ár hvert sérframlög til þjóðkirkjunnar, sem samið er um sérstaklega, lög kveða á um eða Alþingi ákveður. Með sérframlögum er átt við styrki sem ekki falla innan 2.-6. gr. samnings þessa.

8. gr.

Þjóðkirkjan ber fulla ábyrgð á fjármálum sínum og hagar rekstri eins og þykir best hverju sinni. Í því felst m.a. að þjóðkirkjan fjármagnar án aðstoðar úr ríkissjóði útgjöld sem reynast umfram greiðsluskyldu ríkissjóðs. Framlag úr ríkissjóði er óháð öðrum tekjum sem þjóðkirkjan kann að afla, hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins vegna presta er þjóna erlendis, þjónustugjöldum sjóða til biskupsstofu o.fl.
Ef kirkjan fjölgar eða fækkar prestum umfram það sem tilgreint er í 1. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins hefur það ekki áhrif á greiðsluskyldu ríkissjóðs samkvæmt samningi þessum. Eins getur kirkjan fjölgað eða fækkað öðru starfsliði, breytt launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði án þess að það hafi áhrif á framlag úr ríkissjóði.

9. gr.

Hækka skal framlag í fjáraukalögum 1998 til fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands alls um 70,3 m. kr. Af þeirri fjárhæð eru 27,3 m. kr. vegna uppsafnaðs halla fyrri ára. Hækka skal framlag til kristnisjóðs í fjáraukalögum 1998 um 5,2 m.kr.
Heildarframlag til fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands árið 1999 skal vera 655,2 m. kr. Á árinu 2000 lækkar framlag um 8,1 m.kr. Framlag til fjárlagaliðar kristnisjóðs árið 1999 skal vera 36,4 m.kr. Í fjárlögum ársins 2006 lækkar framlag um sem nemur einum árslaunum prests, sbr. 6. gr. Framlag samkvæmt 1. mgr. er á verðlagi fjárlaga 1998. Aðrar fjárhæðir samnings þessa eru á verðlagi frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1999.


10. gr.

Samningsaðilar skulu í upphafi hvers árs sammælast um greiðsluáætlun fyrir einstaka mánuði innan þess fjárhagsramma sem fjárlög ársins setja á fjárlagalið þjóðkirkju Íslands. Laun til biskups Íslands, vígslubiskupa, presta, prófasta og starfsmanna biskupsstofu skulu greidd úr ríkissjóði til viðkomandi einstaklinga án atbeina biskupsstofu. Mánaðarlegt framlag til annars kostnaðar samkvæmt 3. og 5. gr. skal vera mismunur á heildarframlagi viðkomandi mánaðar og þeirra launa sem greidd hafa verið í þeim mánuði. Framlagið skal greiðast til biskupsstofu.

11. gr.

Samningsaðilar geta óskað eftir endurskoðun á samningi þessum ef grundvallarbreyting verður á úrskurðum kjaradóms og/eða kjaranefndar og vegna verulegra breytinga á öðrum forsendum samningsins.
Verði verulegar vanefndir á skyldum af hálfu annars hvors samningsaðila getur hinn sagt samningi þessum upp. Tekur uppsögnin gildi frá og með næstu áramótum eftir að hún er tilkynnt.
Rísi ágreiningur um framkvæmd samnings þessa skal honum vísað til þriggja manna nefndar sem gera skal út um ágreininginn. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af biskupi Íslands, einn sameiginlega af dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra og oddamaður skal tilnefndur af Hæstarétti Íslands. Kostnaður sem hlýst af starfi nefndarinnar skal að hálfu greiddur úr ríkissjóði og að hálfu af þjóðkirkjunni.

12. gr.

Dóms– og kirkjumálaráðherra mun á haustþingi 1998 leggja fram frumvarp til laga á Alþingi er felur í sér brottfall 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk.
Dóms– og kirkjumálaráðherra mun 31. desember 1998 fella úr gildi reglur um greiðslu embættiskostnaðar presta og prófasta settar 15. júní 1989, með síðari breytingum.

13. gr.

Samningur þessi gildir frá 1. janúar 1999. Hann er gerður með fyrirvara um samþykki kirkjuþings og samþykki Alþingis á fjárframlögum.


Reykjavík, 4. september 1998



Biskup Íslands - Dóms- og kirkjumálaráðherra - Fjármálaráðherra
___________________________________________


Fylgiskjal nr. 1.
Skýringar við einstakar greinar samningsins:
Um 1. gr.

Samningur þessi tengist samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, fsk. 3 um eignaafhendingu á móti skuldbindingu með fyrirvara um fækkun eða fjölgun á skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar miðað við þjóðskrá 1. desember 1996, sem var 244.060.

Um 2. gr.

Til viðbótar við framlag til launa og annars kostnaðar til samræmis við kirkjujarðasamkomulagið skal greitt framlag sem nemur 70 mánaðarlaunum til námsleyfa, veikinda o.fl. en það samsvarar um hálfum mánuði fyrir hvert prestsembætti.
Með staðfestingu ráðuneyta á launalíkani er átt við að samþykktar verði breytingar á talnaforsendum og gerð embætta. Núverandi skipting á 138 embættum er 16 prófastar, 112 sóknarprestar, 4 héraðsprestar og 6 sérþjónustuprestar.

Um 3. gr.

Til rekstrarkostnaðar embætta telst allur embættiskostnaður þar með talinn aksturskostnaður, svo og allur kostnaður vegna sérþjónustupresta að frátöldum almennum prestslaunum, sbr. 2. gr.
Kveðið er á um annan kostnað en laun og launatengd gjöld presta í úrskurði kjaranefndar. Samkvæmt úrskurði hennar frá 13. febrúar 1998 gilda reglur kjaranefndar dagsettar 16. desember 1997, en í 4. lið III. kafla þess úrskurðar segir: Um greiðslur til búferlaflutninga og vegna starfa í þremur fastanefndum kirkjunnar skulu gilda óbreytt ákvæði síðasta kjarasamnings. Kostnaður þessi telst hluti af framlagi samkvæmt 3. gr. samnings þessa en er ekki áætlaður í reiknilíkani samkvæmt 2. gr.
Að því er varðar 2. mgr. 3. gr. samningsins er miðað við meðaltalstölur þannig að deilt er í heildarfjárhæð með 138.

Um 4. gr.

Fjárhæðin nemur launum og launatengdum gjöldum 18 starfsmanna biskupsstofu samkvæmt 2. gr. kirkjujarðasamkomulagsins.
Að því er varðar 2. mgr. 4. gr. er miðað við meðaltalstölur þannig að deilt er í heildarfjárhæð með 18.

Um 5. gr.

Að því er varðar 2. mgr. 5. gr. er miðað við meðaltalstölur þannig að deilt er í heildarfjárhæð með 21 (18 starfsmenn biskupsstofu, biskup Íslands og tveir vígslubiskupar).

Um 6. gr.

Viðmiðun um 15 föst árslaun presta tekur mið af b. lið 20. gr. laga nr. 35/1970, um kristnisjóð o.fl. sem felldur var niður með lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en kirkjujarðasamkomulagið gerði ekki ráð fyrir að framangreindur b. liður félli niður. Ákvæðið var svohljóðandi: "Tekjur kristnisjóðs skulu vera Árlegt framlag úr ríkissjóði, er samsvari hámarkslaunum presta í þeim prestaköllum, sem lögð eru niður samkvæmt lögum þessum". Tekið er mið af árslaunum prests í fámennustu prestaköllum, þ.e. mánaðarlaun með 5% álagi ásamt einingum, sbr. úrskurð kjaranefndar frá 13. febrúar 1998. Nema þau árslaun nú um 2,2 m.kr.
Samkvæmt 2. mgr. 62. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, skal næstu 8 ár frá samþykkt laganna greiða sem nemur einum árslaunum sóknarprests. Því er heildarviðmiðun 16 árslaun. Framlag þetta fellur niður í árslok 2005.

Um 7. gr.

Átt er við styrki samkvæmt ákvörðun Alþingis, samningsbundnar og lögboðnar greiðslur, ss. greiðslur til Skálholtsstaðar, Hallgrímskirkju, Hóladómkirkju, Kirkjumiðstöðvar Austurlands, Löngumýrar í Skagafirði og Skálholtsskóla. Auk þess innheimtir ríkissjóður eins og verið hefur sóknar– og kirkjugarðsgjöld fyrir þjóðkirkju Íslands og innir af hendi lögbundnar greiðslur í kirkjumálasjóð, jöfnunarsjóð sókna og kirkjugarðasjóð.
Ekki er gert ráð fyrir verðlagshækkun fjárframlaga samkvæmt þessari grein. Tekið er mið af almennum venjum við gerð og meðferð fjárlaga en við undirbúning frumvarps til fjárlaga hefur það ekki tíðkast að verðlagsbæta styrkjaliði heldur er tekin ákvörðun hverju sinni um styrkfjárhæð. Taki liður hækkun samkvæmt lögum eða samningi þar um, sbr. 7. gr., hækkar fjárframlag til samræmis við það.

Um 8. gr.

Niðurstaða þessa samnings er ákveðin fjárhæð fyrir hvert ár. Ef tekjur eða gjöld breytast á fjárlagalið þjóðkirkjunnar þarf að breyta samsvarandi þannig að greiðsla úr ríkissjóði standi óbreytt.

Um 9. gr.

Með orðunum "fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands" er átt við viðfangsefnið 1.01 Þjóðkirkja Íslands á fjárlagalið 06-701 Biskup Íslands, eða sambærilegan lið, verði breyting á framsetningu fjárlaga frá frumvarpi til fjárlaga 1999.
Í fjárlögum 1998 var veitt tímabundið framlag til prestsembættis í Grafarvogsprestakalli. Dóms - og kirkjumálaráðherra skipaði prestinn til tveggja ára frá 1. september 1997 og er því gert ráð fyrir framlagi á árinu 1999 sem svarar til 8 mánaða launa. Framlagið fellur niður í fjárlögum ársins 2000.
Í fjárlögum árið 2000 fellur niður tímabundið framlag til embættis sérþjónustuprests er þjónar meðal Íslendinga búsettra á meginlandi Evrópu.

Um 10. gr.

Með orðunum "fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands" er átt við viðfangsefnið 1.01 Þjóðkirkja Íslands á fjárlagalið 06-701 Biskup Íslands, eða sambærilegan lið, verði breyting á framsetningu fjárlaga frá frumvarpi til fjárlaga 1999.

Um 11. gr.

Hér er einungis átt við meiri háttar breytingar, s.s. meiri háttar breytingar á efnisatriðum úrskurða kjaranefndar, dagsett 3. febrúar 1998, og úrskurða kjaradóms, dagsett 17. desember 1997.

Um 12. gr.

Lagaákvæði er svohljóðandi: Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum biskups, fyrirfram til 5 ára í senn, embættiskostnað hvers prestakalls. Upphæðin greiðist síðan prestinum mánaðarlega á sama hátt og embættislaun.

13. gr.

Þarfnast ekki skýringa.

___________________________________________


Fylgiskjal nr. 2.
   
Frumvarp
Frumvarp
Frumvarp
   
til fjárlaga
til fjárlaga
til fjárlaga
   
1999
1999 1)
2000
Grein Kostnaðarliður
Verðlag 1998
Verðlag 1999
Verðlag 1999
         
2. gr.
Laun samkvæmt kirkjujarðasamkomulagi
461,5
477,7
477,7
  Grafarvogsprestur
2,4
2,5
0,0
  Evrópuprestur
5,4
5,6
0,0
3. gr.
Rekstrarkostnaður prestsembætta og prófasta
87,7
89,5
89,5
4.gr.
Launakostnaður biskupsstofu
50,9
52,7
52,7
5. gr.
Annar rekstrarkostnaður biskupsstofu
29,4
30,0
30,0
7. gr.
Styrkjaliðir
23,7
23,7
23,7
8. gr.
Sértekjur
-26,3
-26,3
-26,3
         
  Alls
634,7
655,2
647,2
         
6. gr.
Framlag til Kristnisjóðs
35,2
36,4
36,4
         
  Samtals, framlag úr ríkissjóði
669,9
691,7
683,6
         
         
  Frumvarp til fjáraukalaga 1998      
2. gr.
Laun samkvæmt kirkjujarðasamkomulagi 2)
33,0
   
3. gr.
Rekstrarkostnaður prestsembætta og prófasta
6,0
   
5. gr.
Annar rekstrarkostnaður biskupsstofu
4,0
   
6. gr.
Framlag til Kristnisjóðs
5,2
   
  Hækkun frá fjárlögum 1998
48,2
   
  Halli frá fyrri árum
27,3
   
  SAMTALS
75,5
   

1) Hækkun frá verðlagi 1998 til verðlags 1999 er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga og er þá miðað við að kjaranefnd og kjaradómur muni úrskurða sömu hækkun launa í upphafi árs 1999 og almennt er kveðið á um í kjarasamningum.
2) Alls hækkar framlag skv. 2. gr. um 33 m.kr. frá fjárlögum 1998. Af þeirri fjárhæð verður aflað 10,8 m.kr. viðbótarheimildar í frumvarpi til fjáraukalaga 1998 en 22,2 m.kr. verða fluttar af launa- og verðlagsmálalið fjármálaráðuneytis á árinu 1998.


___________________________________________



Fylgiskjal nr. 3.


Frásögn af fundi nefnda ríkis og kirkju um kirkjujarðir
í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 10. janúar 1997.

Mættir eru af hálfu ríkisins Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson og Stefán Eiríksson. Af hálfu kirkjunnar eru mættir Þorbjörn Hlynur Árnason, Þórir Stephensen og Halldór Gunnarsson.
Þorsteinn Geirsson setti fundinn. Fyrir fundinum liggja eftirfarandi drög að samkomulagi:

..........

Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi
samkomulag
um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar:
1. gr.

Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð. Umsýsla og ráðstöfun umræddra eigna fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

2. gr.

Íslenska ríkið skuldbindur sig til þess, á þeim grundvelli sem að framan greinir, að greiða laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Þá skuldbindur ríkið sig til að setja reglur um umgengni á kirkjustöðum.

3. gr.

1. Ríkissjóður greiði laun:
a. Biskups Íslands og vígslubiskupa.
b. 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar.
c. 18 starfsmanna biskupsembættisins.
2. Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 prests til viðbótar því sem greinir í b-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 lækkar talan í b-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.
3. Fjölgi prestum um 10, sbr. það sem greinir í 1. mgr., skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 starfsmanns biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í c-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um 10, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar talan í c-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.
4. Um ráðningar þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.
5. Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.
6. Greiðslur til kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu 8 ár, upphæð er svarar til fastra árslauna 1 sóknarprests.


4. gr.

Aðilar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907. Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagsins að liðnum 15 árum frá undirritun þess.

5. gr.

Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Kirkjuþings, svo og samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

.........

Til skýringar vilja fundarmenn taka fram að með kirkjujörðum er í samkomulagi þessu átt við jarðeignir sem kirkjur hafa átt og eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild eða gengið undan þeim með öðrum sambærilegum hætti, og hafa verið í umsjón ríkisins frá árinu 1907, sbr. lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, og lög nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða, og Álitsgerð kirkjueignanefndar 1984. Með orðalaginu ,,og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja`` er m.a. átt við kirknaítök, réttindi á afréttum o.fl. sem fylgir og fylgja ber umræddum jörðum í hverju tilviki.

Undir þetta samkomulag falla ekki eftirtaldar jarðeignir:
a. Klausturjarðir: Fram kemur í álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 að ekki verði séð að íslenska kirkjan eigi nú neina lagalega kröfu til klausturjarðanna. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið klausturjarðir.
b. Stólsjarðir: Umræddar jarðir voru seldar kringum aldamótin 1800. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið stólsjarðir.
c. Prestssetur: Eins og tekið er fram í samkomulaginu þá falla prestssetrin og það sem þeim fylgir ekki undir þetta samkomulag. Prestssetrasjóður hefur á höndum umsjón og umsýslu umræddra jarða, sbr. lög nr. 137/1993, um prestssetur. Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar fjalli síðar um eignarréttarstöðu prestssetranna.
d. Kristfjárjarðir og fátækrajarðir: Eignarréttarstöðu jarða sem falla undir þessa skilgreiningu er ekki á einn veg háttað. Þær eignir sem eru í eigu eða umsjá sveitarfélaga falla ekki undir þetta samkomulag. Aðrar kirkjujarðir sem eru með kristfjárkvöðum eða fátækrakvöðum falla undir samkomulagið, en með þeim formerkjum þó að sannanlegar kristfjár- eða fátækrakvaðir sem á þeim hvíla halda gildi sínu. Hreinar kristfjár- eða fátækrajarðir falla ekki undir þetta samkomulag.

Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar starfi áfram og fjalli sameiginlega um eignar- og réttarstöðu þjóðkirkjunnar í heild sinni.
Í samkomulaginu er fyrirvari um samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings, svo og Alþingis, á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Frumvarpið og samkomulag þetta verður lagt fyrir ríkisstjórn 14. janúar n.k. og fyrir kirkjuþing sem hefst 21. janúar n.k. Í frumvarpinu eru ákvæði sem tryggja efnisatriði þessa samkomulags. Kirkjumálaráðherra gerir ráð fyrir að leggja frumvarpið fram á Alþingi á yfirstandandi þingi, að fengnu samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings á þessu samkomulagi.
Fundarmenn eru sammála um framangreind drög, og rita nöfn sín því til staðfestingar undir fundargerð þessa.

Reykjavík, 10. jan. 1997.

Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson, Stefán Eiríksson, Þorbjörn Hlynur Árnason, Halldór Gunnarsson og Þórir Stephensen.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum