Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2013 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum

Á fundi ríkisstjórnarinnar 21. desember 2012, kynnti Steingrímur J Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra árlega skýrslu samstarfshóps sem hefur það hlutverk að fylgja eftir markmiðum stjórnvalda um aukið afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

Afhendingaroryggi_raforku_a_Vestfjordum-Skyrsla_til_radherra
Vidauki-8.2-Thjonustukonnun_OV_sept_2011
Vidauki-8.1-OV-Linur-_og_strengir

Afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum hefur um langt skeið verið óviðunandi.  Það hefur leitt til þess að samkeppnisstaða atvinnulífsins á svæðinu hefur verið lakari en í öðrum landshlutum.  Samfélagslegur kostnaður vegna ótryggrar orkuafhendingar hefur verið metinn á um 400 milljónir króna á ári.  

Á fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði í apríl 2011 var verkefnið um bætt orkuöryggi á Vestfjörðum ákveðið sem eitt af átaksverkefnum um eflingu byggðar og atvinnusköpunar í landshlutanum.

Í nóvember 2011 var ákveðið að koma á föstum samstarfshópi til að fylgja eftir þeim tillögum sem fram komu í skýrslu ráðgjafarhópsins.  Samstarfshópnum var ætlað að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni:

  • að afla reglulega upplýsinga um þróun afhendingaröryggis og gæði raforku og uppsetts afls á Vestfjörðum,
  • að fara yfir áætlanir flutnings- og dreififyrirtækja varðandi uppbyggingu og endurbætur á raforkukerfinu,
  • að fylgjast með áætlanagerð Landsnets vegna mögulegrar styrkingar Vesturlínu og hringtenginga raforkuflutnings fyrir Vestfirði,
  • og hafa frumkvæði að því að á næstu 4 árum verði gerð rammaáætlun fyrir raforkuframleiðslu og raforkuflutning á Vestfjörðum sem nái til minni og stærri virkjanakosta.

Á starfstíma nefndarinnar hafa átt sér stað merkjanlegar framfarir í afhendingaröryggi rafmagns, og þá sérstaklega vegna nýs búnaðar við tengistöð við Mjólká og vegna styrkingar á línum. Straumleysi hjá Orkubúi Vestfjarða hefur almennt minnkað verulega frá 2002 og er nú sambærilegt við dreifbýli hjá RARIK. Helsta niðurstaða hópsins nú er að með nýjum virkjanakostum í vatnsafli og jarðhita ásamt öðrum aðgerðum á Vestfjörðum er hægt að afla nægilegrar orku innan svæðisins sem dregur úr þörf á tvöföldun Vesturlínu.

Samstarfshópurinn leggur fram tillögur til úrbóta í skýrslu sinni en þær eru eftirfarandi:

  • að skoða betur möguleika á uppsetningu lághitavirkjana á svæðum sem eru með yfir 100°C hita.
  • að skoða minni og öðruvísi virkjanakosti á Glámu hálendinu.
  • að kortleggja frekar jarðhita á Vestfjörðum.
  • að unnið verði með afrennsliskort til þess að greina möguleika á minni og stærri vatnsaflskostum.
  • að samræma vegagerð og strenglagnir vegna raforkuflutnings og dreifingar.
  • að skoða að setja löggjöf sem kveður á um skyldu um myndun vatnsnýtingarfélags á hverju einstöku vatnasvæði.  
  • að gera efnahagslega og félagslega greiningu á þýðingu jarðhita fyrir minni byggðarlög.
  • kanna leiðir til þess að greiða niður eignastofn vegna dreifingar raforku í dreifbýli.

Samstarfshópurinn mun fylgja eftir ofangreindum verkefnum og leggur auk þess til, í ljósi árangurs af starfinu, að sambærileg vinna fari fram fyrir aðra landshluta þar sem brýnt er að bæta afhendingaröryggi til dæmis á Norð-Austurlandi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum