Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

Ný sýn, breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu

Ný sýn - Breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu
Ný sýn - Breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu

Skýrslan, Ný sýn, breytingar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu, hefur verið gefin út. Í skýrslunni er dregin upp mynd af vísinda- og nýsköpunarkerfinu, allt frá Vísinda- og tækniráði, háskólum og rannsóknarstofnunum, þekkingarsetrum um allt land, þeim fyrirtækjum sem starfa innan þessa geira og opinberum samkeppnissjóðum. Þá er gerð grein fyrir flæði og skiptingu þeirra átján milljarða króna sem fara úr opinberum fjárveitingum í vísindi og nýsköpun árið 2012, árangri og gæðamati, rannsóknarinnviðum og alþjóðlegu samstarfi. Skýrslan sýnir þá staðreynd að opinbert fjármagn til háskóla, stofnana og sjóða hefur rýrnað um fjóra milljarða króna á tímabilinu 2008-2012 eða um rúmlega 20%.

Áhersla er lögð á að margt sé afbragðsvel gert hér á landi. Við eigum að vera stolt af vísindamönnum okkar sem koma mjög vel út í alþjóðlegum samanburði, af Háskóla Íslands sem mælist í flokki 300 bestu háskóla í heiminum, af rannsóknarstofnunum og okkar sterku rannsóknarfyrirtækjum og frumkvöðlum í nýsköpun.

Skýrslan var unnin af sérstökum starfshópi vísindanefndar og tækninefndar Vísinda- og tækniráðs en Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri, hjá Rannís ritstýrði verkinu. Eftir umfjöllun í starfsnefndum Vísinda- og tækniráðs voru drög að skýrslunni lögð fram til umræðu á fundi Vísinda- og tækniráðs 23. mars 2012. Skýrsludrögin voru síðan sett í opið umsagnarferli á vef ráðsins og auk þess send til umsagnar fjölmargra aðila og kallað eftir viðbrögðum og athugasemdum. Í umsagnarferlinu var einnig efnt til tveggja opinna funda um tillögurnar í Norræna húsinu, 26. apríl og 3. maí 2012. Jafnframt var efnt til umræðufunda um efni skýrslunnar í rannsóknarstofnunum og háskólum.

Eftir umfjöllun í starfsnefndum ráðsins var endurskoðuð skýrsla síðan lögð fram til umræðu á fundi Vísinda- og tækniráðs 8. júní 2012. Þar var samþykkt framkvæmdaáætlun um greiningu á þeim tillögum sem fram koma í skýrslunni. Á fundi Vísinda- og tækniráðs 7. desember 2012 var einnig fjallað um skýrsluna og eftirfylgni tillagna sem veganesti inn í vinnu nýskipaðs ráðs við mótun nýrrar stefnu til næstu þriggja ára.

Forsætisráðuneytið gefur skýrsluna út sem er 113 bls. með töflum og skýringarmyndum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira