Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2013 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Samstarfsyfirlýsing KSÍ og verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði samstarfsyfirlýsingu við Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) um aðgerðir gegn einelti.
Samstarfsyfirlýsing KSÍ og verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti
Samstarfsyfirlýsing KSÍ og verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti

Í dag, þann 1. febrúar 2013, var undirrituð samstarfsyfirlýsing Knattspyrnusambands Íslands og verkefnisstjórnar fjögurra ráðuneyta (fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis) um aðgerðir í baráttunni gegn einelti í samfélaginu.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ undirrituðu samstarfsyfirlýsinguna fyrir hönd aðstandenda verkefnisins í höfuðstöðvum KSÍ.  

Í samstarfsyfirlýsingunni segir m.a.: „Að baki knattspyrnuhreyfingunni stendur einn tíundi hluti íslensku þjóðarinnar og í henni býr því mikill kraftur. Knattspyrnusamband Íslands lítur á það sem skyldu sína að nýta þann kraft með því að taka virkan þátt í samfélagslegum verkefnum.  Með þátttöku knattspyrnuhreyfingarinnar í þessu verkefni leggur hún sitt af mörkum í baráttunni gegn einelti í samfélaginu“.

Eitt af hlutverkum verkefnisstjórnarinnar er að taka þátt í og stuðla að vitundarvakningu um hið alvarlega samfélagslega vandamál sem einelti er, þætti í skóla- og starfsumhverfi sem geta stuðlað að einelti, leiðir til að taka á kvörtunum um einelti, neikvæð samfélagsleg áhrif af einelti og aðgerðir til að sporna gegn einelti.

Verkefnið tekur til grunnskólanema hér á landi, sem fá fræðslu um áhrif eineltis á einstaklinginn og heildina, bæði hvað varðar gerendur og þolendur, áhrif þess á fólk í dag og til framtíðar. Stefnan er sett á að heimsækja hvern einasta grunnskóla í landinu á næstu tveimur árum, þar sem fulltrúar verkefnisins fræða þátttakendur um áhrif eineltis. 

Fyrstu heimsóknirnar verða haustið 2013 og í hvern skóla fara ungmenni ásamt fulltrúum knattspyrnuhreyfingarinnar (landsliðsfólk á öllum aldri) í anda jafningjafræðslu.

Aðrir þættir samstarfsins/verkefnisins:

  • Merki verkefnisins og slagorð verður sýnilegt í starfi KSÍ (vefur KSÍ, prentefni og markaðsstarf/auglýsingar).
  • Verkefnið kynnt á knattspyrnuleikjum og öðrum viðburðum á vegum KSÍ.
  • Málþing með íþróttahreyfingunni og skólasamfélaginu í maí.
  • Dagur gegn einelti 8. nóvember og ýmsir viðburðir tengdir þeim degi.

 

Samstarfsyfirlýsing um baráttu gegn einelti

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti

 

Í lok árs 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta, þ.e. fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, og velferðarráðuneytis, til að fjalla um og fylgja eftir tillögum að aðgerðum gegn einelti í íslensku samfélagi sem ríkisstjórnin hafði samþykkt. Í árslok 2012 bætist fulltrúi innanríkisráðuneytis við í verkefnisstjórn. Eitt af hlutverkum verkefnisstjórnarinnar er að taka þátt í og stuðla að vitundarvakningu um hið alvarlega samfélagslega vandamál sem einelti er, þætti í skóla- og starfsumhverfi sem geta stuðlað að einelti, leiðir til að taka á kvörtunum um einelti, neikvæð samfélagsleg áhrif af einelti og aðgerðir til að sporna gegn einelti.

Að baki knattspyrnuhreyfingunni stendur einn tíundi hluti íslensku þjóðarinnar og í henni býr því mikill kraftur. Knattspyrnusamband Íslands lítur á það sem skyldu sína að nýta þann kraft með því að taka virkan þátt í samfélagslegum verkefnum.  Með þátttöku knattspyrnuhreyfingarinnar í þessu verkefni leggur hún sitt af mörkum í baráttunni gegn einelti í samfélaginu.

Fótbolti er fyrst og fremst hópíþrótt sem krefst liðsheildar, einingar og samstöðu.  Leikurinn snýst um samspil leikmanna með skilgreind hlutverk inni á vellinum.  Hvert hlutverk er hannað þannig að það nýtist liðinu og liðsheildinni sem best til að ná settu marki.  Liðið spilar sinn besta leik ef allir leikmenn hjálpast að, hjálpa hver öðrum, styðja við hvern annan þannig að hver og einn geti látið ljós sitt skína.  Þannig eru mestar líkur á árangri liðsheildarinnar sem og einstaklinganna sem mynda heildina.  Einelti gengur algerlega gegn eðli hópíþróttar eins og fótbolta.  Knattspyrnuhreyfingin stendur saman sem eitt lið, ein heild, í baráttunni gegn einelti.

Verkefnið tekur til allra grunnskólanema hér á landi, sem fá fræðslu um áhrif eineltis á einstaklinginn og heildina, bæði hvað varðar gerendur og þolendur, áhrif þess á fólk í dag og til framtíðar. Stefnan er sett á að heimsækja hvern einasta grunnskóla í landinu á næstu tveimur árum, þar sem fulltrúar verkefnisins fræða þátttakendur um áhrif eineltis.  Fyrstu heimsóknirnar verða haustið 2013 og í hvern skóla fara ungmenni ásamt fulltrúum knattspyrnuhreyfingarinnar (landsliðsfólk á öllum aldri) í anda jafningjafræðslu.

Aðstandendur verkefnisins lýsa yfir mikilli ánægju með það átak sem hér er að hefjast og staðfesta jafnframt hér með skuldbindingu sína við það. Það er sannfæring undirritaðra að átakið muni styrkja mjög baráttuna gegn einelti í samfélaginu.  Við erum öll í sömu fjölskyldunni – ein liðsheild.

Fyrir hönd aðstandenda verkefnisins:

  • Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
  • Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ
  • Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ

 

Samstarfsyfirlýsing KSÍ og verkefnastjórnar um aðgerðir gegn eineltiÞórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ, Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.  Mynd: Myndasafn KSÍ.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira