Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Ítarlegar tillögur frá hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur skilað frá sér tillögum sínum en þær taka til allra helstu þátta ríkisrekstrarins og allra stærri þjónustu- og stjórnsýslukerfa ríkisins. Hagræðingarhópurinn hefur ekki lagt áherslu á beinar niðurskurðartillögur heldur á kerfisbreytingar sem beinast að breytingum á áherslum, aðferðum og skipulagi.  Komist tillögurnar til framkvæmda geta þær stuðlað að varanlegri hagræðingu, auknum árangri til lengri tíma og tug milljarða króna ávinningi fyrir þjóðina. Sá ávinningur getur birst í lægri fjárveitingum en einnig í aukinni og bættri þjónustu við almenning.

Hagræðingarhópurinn hefur í starfi sínu leitað víða fanga. Skoðaðir hafa verið tugir skýrslna og greinargerða um margháttaðar breytingar sem lagðar hafa verið til á undanförnum árum og starfsmenn nefndarinnar hafa fundað með ráðherrum og embættismönnum þeirra. Sérstök áhersla var lögð á að fá tillögur og hagræðingarhugmyndir frá almenningi. Hátt í sex hundruð ábendingar bárust hópnum og hafa margar þeirra verið nýttar í vinnu hópsins. Þá hafa tillögur sem svipar til tillagna hagræðingarhópsins í mörgum tilfellum áður verið lagðar fram án þess að koma til framkvæmda. Að frumkvæði einstakra ráðherra er nú þegar unnið að undirbúningi margvíslegra breytinga sem endurspegla tillögur hagræðingarhópsins og eru til úrvinnslu í ráðuneytunum. 

Tillögurnar munu nú fara til skoðunar í einstökum ráðuneytum og verður þeim fylgt eftir að hálfu ráðherranefndar um ríkisfjármál í samvinnu við hagræðingarhópinn. Að frumkvæði einstakra ráðherra er nú þegar unnið að undirbúningi margvíslegra breytinga sem endurspegla tillögur hagræðingarhópsins. Þær tillögur sem nú þegar eru til úrvinnslu í ráðuneytunum eru stjörnumerktar (*). 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var greint frá áformum um stofnun hagræðingarhópsins sem skipaður var í byrjun júlí 2013. Hópurinn starfar undir stjórn Ásmundar Einars Daðasonar, alþm., og í honum sitja auk hans Guðlaugur Þór Þórðarson, alþm., Vigdís Hauksdóttir, alþm. og Unnur Brá Konráðsdóttir, alþm. Með hópnum hafa starfað sérfræðingar úr forsætis- og fjármálaráðuneyti.  Hópurinn hefur fundað með ráðherranefnd um ríkisfjármál og tillögurnar kynntar í ríkisstjórn.

,,Það hefur verið öflugt og gott starf í hópnum og við erum mjög ánægð með þá vinnu sem þar hefur verið unnin. Við teljum að tillögurnar geti orðið mikilvægur leiðarvísir við fjárlagagerð og nýst við stefnumótun í ríkisfjármálum í framtíðinni“, sagði Ásmundur Einar Daðason, formaður hagræðingarhópsins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum