Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Viðbrögð stjórnvalda við skýrslu pyntingarnefndar Evrópuráðsins vegna úttektar á Íslandi 2012

Íslensk stjórnvöld hafa nú svarað athugasemdum í skýrslu pyntingarnefndar Evrópuráðsins sem hún lagði fyrir stjórnvöld eftir reglubundna heimsókn hingað haustið 2012. Stjórnvöld fagna eftirliti nefndarinnar og telja rýni hennar til gagns fyrir stjórnsýslu og samfélag. Hér að neðan verður greint frá svörum við helstu athugasemdum í skýrslunni. Skýrsluna má sjá hér svo og svar Íslands í heild.

Pyntingarnefnin heimsótti Ísland í fjórða sinn í september 2012 en Ísland er í hópi þeirra ríkja sem lengst líður á milli heimsókna nefndarinnar. Síðasta skýrsla nefndarinnar er vegna heimsóknar árið 2004. Eftirlitinu er þannig háttað að þegar nefndin hefur samþykkt skýrslu vegna heimsóknar til ríkis er viðkomandi stjórnvöldum send skýrslan. Þá er stjórnvöldum gefið rúm til þess að skila nefndinni greinargerð vegna skýrslunnar og bregðast við athugasemdum, tilmælum og frekari beiðni um upplýsingar sem nefndin fjallar um á fundi sínum. Í framhaldinu er skýrsla nefndarinnar gerð opinber ásamt svörum viðkomandi ríkis.

Ráðuneytinu barst skýrsla nefndarinnar eftir heimsókn hennar í mars og hefur tekið saman  greinargerð í samvinnu við fulltrúa ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnunar, Fangelsismálastofnunar, velferðarráðuneytis, geðsviðs Landsspítala Háskólasjúkrahúss og ríkissaksóknara.

Skýrsla nefndarinnar skiptist í tvo kafla, almennan hluta um heimsókn nefndarinnar og lýsingu á grunngögnum og sérstakan hluta þar sem gerð er grein fyrir tillögum, athugasemdum og beiðnum nefndarinnar um frekari upplýsingar varðandi lögreglustöðvar, stöðu frelsissviptra á grundvelli útlendingalaga, fangelsi og aðbúnað geðsjúkra.

Nokkrir efnisþættir í svörum stjórnvalda

Löggæsla

Nefndin gerir ýmsar athugasemdir varðandi framkvæmd sakamálalaga varðandi rétt handtekinna til að fá aðgang að lögmanni, skráningu á upplýsingum um gæsluvarðhald og eftirlit með gæsluvarðhaldsstöðum. Þá minnir nefndin á að valdbeiting lögreglumanna verði að vera í samræmi við meðalhóf og óskar eftir tölfræðiupplýsingum um kvartanir vegna harðræðis lögreglumanna í starfi.

Í svari stjórnvalda er upplýst um viðkomandi ákvæði laga og afleidds regluverks og tölfræðiupplýsingar veittar.

Útlendingalög og framkvæmd á grundvelli þeirra

Nefndin gerir tillögur að úrbótum á framkvæmd brottvísana á grundvelli útlendingalaga, leggur til að eftirliti með þeim verði komið á laggirnar og óskar eftir frekari upplýsingum um framkvæmd þeirra. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvort móttökumiðstöð fyrir útlendinga verið komið á fót.

Í svari stjórnvalda er upplýst um regluverk og framkvæmd brottvísana og upplýst um átaksverkefni í málefnum hælisleitenda sem nú stendur yfir og fyrirhugaða stefnumörkun í málaflokknum.

Fangelsi

Nefndin hvetur sterklega til þess að áfram verði lögð áhersla á uppbyggingu nýs fangelsis í Reykjavík og óskar eftir upplýsingum um stöðu framkvæmdarinnar. Þá er hvatt til þess að hætt verði að vista unga fanga í fangelsum og þeim gert kleift að taka út refsingar á stöðum á vegum barnaverndaryfirvalda. Þá er óskað eftir upplýsingum um frumvarp til breytinga á fullnustulögum. Athugasemdir eru gerðar við að konur og karlar afpláni refsivist á sama stað, að meðferðarúrræði séu of fá og að fangar þurfi að greiða fyrir úrræðið.

Í viðbrögðum stjórnvalda er upplýst um að áfram sé unnið að því að byggja nýtt fangelsi í Reykjavík þó að hægja verði á framkvæmdum, að unnið sé að setningu reglugerðar um vistun ungra fanga í kjölfar lögfestingar Barnasáttmála SÞ og að frumvarp til breytinga á fullnustulögum verði lagt fyrir Alþingi. Hvað varðar kynjaskiptingu við fullnustu refsinga er afstaða stjórnvalda útskýrð og upplýst um fyrirkomulag. Þá eru upplýsingar veittar um fullnustu refsinga í meðferðarúrræðum og dreifingu kostnaðar vegna þeirra.

Þá óskar nefndin eftir upplýsingum um afdrif mála sem varða ofbeldi fanga á milli og atvik sem átti sér stað á Litla-Hrauni í júlí 2012. Svör stjórnvalda upplýsir um atvikin og framgang mála. Þá er upplýst um að stjórnvöld telji ekki ástæðu til að viðhafa frekari rannsókn á umræddu atvikui frá júlí 2012.

Nefndin gerir athugasemdir við aðbúnað og réttarstöðu fanga sem sæta einangrunarvistun, möguleika til útiveru við fullnustu refsinga og tækifæri fanga til að stunda tómstundir og vinnu á meðan betrunarvist stendur.

Í svörum til nefndarinnar er upplýst um stöðu mála hvað varðar tómstundir og vinnu fyrir fanga og upplýsingar veittar um aðbúnað fanga sem sæta einangrun eða gæsluvarðhaldi.

Fjölmargar athugasemdir eru gerðar við stöðu heilbrigðisþjónustu í fangelsum. Þar má nefna undirmönnun og óskýrt verklag, álitaefni varðandi tilkynningu heilbrigðisstarfsmanna til lögreglu þegar þeim verður kunnugt um áverka á föngum vegna mögulegs ofbeldis af hálfu annarra fanga, skráningu upplýsinga og aðgengi að þeim og aðgang fanga að heilbrigðisþjónustu, en þá sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu.

Í svari stjórnvalda er tekið undir með nefndinni að ýmislegt megi betur fara og upplýst um samvinnu heilbrigðis- og fangelsismálayfirvalda til þess að tryggja sem besta skráningu tilkynninga um ofbeldi sem samræmast þangarskylduákvæðum varðandi heilbrigðisstarfsfólk og góðan aðgang fanga að heilbrigðisþjónustu í samræmi við athugasemdir nefndarinnar. 

Geðheilbrigðismál og ákvæði lögræðislaga

Nefndin gerir þó nokkrar athugasemdir varðandi ákvæði lögræðislaga og framkvæmd nauðungarvistana á grundvelli þeirra. Meðal annars er lagt til að ný heildarlög um geðheilbrigðismál verði sett, að nauðungarvistuðum verði heimilt að hafna meðferð og upplýsinga óskað um upplýsingagjöf til nauðgungarvistaðra. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvenær stjórnvöld sjái fram á að fullgilda megi sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Nefndin gerir athugasemdir við aðbúnað geðsjúkra á sjúkrahúsum, upplýsingagjöf til þeirra, þvingaða lyfjagjöf og atriði í framkvæmd á grundvelli heilbrigðislöggjafar.

Í svari fagna stjórnvöld rýni og telja mikilvægt að málaflokkurinn sæti sífelldrar endurskoðunar eins og aðrir samfélagsþættir. Gerð er grein fyrir því að fjallað sé um geðheilbrigði samhliða öðrum þáttum í íslenskri löggjöf og að ekki sé öruggt að sérstök löggjöf sé í samræmi við þá sýn að þeir sem glími við geðheilsuvanda, tímabundinn eða langvarandi, séu hluti af samfélaginu og að almennt regluverk taki til þeirra eins og annarra hópa í samfélaginu. Þá er gerð grein fyrir vinnu óformlegs samráðshóps sem komið hefur saman á vegum innanríkisráðuneytis til þess að endurmeta þætti í lagaumhverfi og framkvæmd nauðungarvistana á Íslandi. Upplýst er um verklag og framkvæmd á grundvelli lögræðislaga og löggjafar um heilbrigðismál, upplýsingagjöf til sjúklinga og upplýst um að ábendingar nefndarinnar verði teknar til skoðunar af hálfu stjórnvalda.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira