Hoppa yfir valmynd
20. október 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 20. október 2016

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana, 1. tölublað 18. árgangs, er komið út.

Fræðsluátak um gerð stofnanasamninga

Í kjarasamningum 2015 urðu ríki og stéttarfélög sammála um að brýna nauðsyn bæri til að auka við þekkingu á gerð og inntaki stofnanasamninga. Með kjarasamningunum fylgir bókun um að aðilar standi sameiginlega að fræðsluátaki fyrir þá sem koma að gerð stofnanasamninga. Meðal annars vegna þess að form launataflna margra félaga innan BSRB og ASÍ munu taka breytingum þann 1. júní nk. en einnig vegna þeirrar áherslu sem lögð er á heildstæða mannauðsstjórnun innan stofnana. Aðildarfélög BHM, auk framhaldsskólakennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri hafa einnig valið að taka þátt í fræðsluátakinu þótt bókanir þeirra séu að einhverju leyti með öðrum hætti.

Í apríl sl. var settur á laggirnar starfshópur skipaður fulltrúum stéttarfélaga og bandalaga, fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins auk fulltrúa Félags forstöðumanna ríkisins til að vinna að undirbúningi átaksins. Því verður ýtt úr vör í byrjun nóvember nk. með röð námskeiða sem ætluð eru bæði stjórnendum og fulltrúum starfsmanna í samstarfsnefndum.

Ætlast er til að allar samstarfsnefndir af sömu stofnun sæki fræðsluna saman svo verkefni sem unnin eru nýtist til áframhaldandi vinnu við endurnýjun stofnanasamninga. Um er að ræða eitt heils dags námskeið og verða þau haldin á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði á tímabilinu nóvember 2016 til mars 2017. Uppbygging námskeiðanna byggir að hluta á verkefnavinnu þátttakenda. Stofnanir fá nánari tilkynningu um hvaða degi þeim verður úthlutað ásamt upplýsingum um stað og tíma eftir því sem við verður komið.

Fræðsluátakinu er ætlað að auka þekkingu á stofnanasamningum en þeir eru hluti af kjarasamningum ríkisins og stéttarfélaganna. Stefnt er að því að átakið leiði til betri vinnubragða og virkari stofnanasamninga sem eru mikilvægur hluti af heildstæðri mannauðsstefnu stofnunar. Góður stofnanasamningur og virk framkvæmd hans endurspeglar áherslur stofnunar og styður við stefnu hennar og markmið.

Til að fræðslan nýtist samstarfsnefndum og stofnunum sem skyldi er mælt með því að fulltrúar stofnana kynni sér hvort fyrir liggi stefna stofnunar auk starfsmannastefnu, launastefnu og símenntunar- og starfsþróunarstefnu og ef svo er hvort að þau gögn hafi verið endurskoðuð nýlega.

Leiðbeinendur á námskeiðunum verða Hanna Guðlaugsdóttir og Grétar Guðmundsson. Hanna er með BS. gráðu í viðskiptafræðum frá Háskólanum í Reykjavík og með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá University of Surrey. Hanna býr yfir afar víðtækri reynslu á sviði mannauðsmála og stjórnunar og hefur síðustu 14 árin sinnt ýmsum mannauðsverkefnum fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki og stofnanir. Hanna kom að fræðslu og námskeiðum stofnanasamninga á árunum 2005-2006. Grétar Guðmundsson hefur víðtæka reynslu af gerð og framkvæmd stofnanasamninga en Grétar starfaði um árabil að kjara- og starfsmannamálum hjá fjármálaráðuneytinu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins auk þess að vera nefndarmaður í samninganefnd ríkisins.

Ríkisstarfsmenn ánægðastir með sveigjaleika og sjálfstæði í starfi

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samstarfi við SFR, stóð að starfsánægjukönnun meðal allra ríkisstarfsmanna sjötta árið í röð. Spurningar voru að venju fjölmargar og snéru að fjölbreyttum atriðum í starfsumhverfi ríkisstarfsmanna. Þessar spurningar eru svo settar saman í níu þætti sem eiga að endurspegla viðhorf starfsmanna til sinna vinnustaða. Þættirnir eru; viðhorf starfsfólks til stjórnunar, launakjara, vinnuskilyrða, sveigjanleika í vinnu, möguleika starfsmanna á sjálfstæðum ákvörðunum í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt, starfsandi í stofnun og jafnrétti. Síðast nefndi þátturinn er nýr og mælir jafnrétti á vinnustað í víðum skilningi.

Eins og sjá má er stöðugleiki í niðurstöðunum mikill og gætt hefur samræmis frá ári til árs. Þó er ánægjuefni að flestir þættirnir stefna örlítið uppávið frá síðasta ári og sá sem hækkar mest er ánægja með launakjör. Sá þáttur hefur verið og er enn sá sem minnst ánægja er með. Einnig er athyglisvert að sjá að trúverðugleiki stjórnenda hefur aukist nokkuð frá því mælingar hófust. Eins og áður þá skora þættirnir sveigjanleiki í vinnu og sjálfstæði í starfi hæst en ánægja með laun lægst. Á heildina litið eykst ánægja ríkisstarfsmanna milli áranna 2015 og 2016 og hefur hún ekki mælst hærri en nú í ár.

Starfsemi ríkisins byggir fyrst og fremst á mannauði og því er mikilvægt að leggja mælistiku á þá þætti sem liggja til grundvallar þegar að starfsmönnum eru sköpuð starfsskilyrði í þægilegu og hvetjandi umhverfi. Könnunin kallar fram það sem vel er gert og líka það sem betur má fara í starfmannamálum stofnanna. Því nýtast niðurstöður hennar fjármála- og efnahagsráðuneytinu við stefnumótun í starfsmannamálum og áframhaldandi þróun mannauðsviðmiða ríkisins. Stjórnendur fá kynningu á niðurstöðum sinnar stofnunar og hvernig hún kemur út í samanburði við aðrar. Könnunin kemur því stjórnendum einstakra stofnana að góðum notum og flestir eru á því að hún sé mikilvæg viðbót við þau stjórntæki sem þeir hafa yfir að ráða við mat á rekstri sinna stofnana.

Snemma á nýju ári verður farið að undirbúa næstu starfsánægjukönnun og eru stjórnendur hvattir til að leggja að sínu starfsfólki að taka þátt í henni svo að könnunin gefi sem besta mynd af stöðu starfsmannamála hjá ríkinu.

Græn skref til sparnaðar

Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri hóf göngu sína haustið 2014 og nú þegar eru 32 stofnanir skráðar í verkefnið með yfir 70 starfsstöðvum.

Ríkisstofnanir hafa fundið fyrir umtalsverðum ávinningi með þátttöku í verkefnin. Fyrst og fremst má nefna bætt ímynd, fjárhagslegur ávinningur, aukin umhverfisvitund, meiri starfsánægja og starfsmenn fara að sinna umhverfismálum í meira mæli á heimilum sínum.

Dæmi um ávinning:

  • ÁTVR sparar um 250.000 kr. á ári með því að hætta að kaupa einnota plastglös fyrir starfsmenn.
  • Landsvirkjun sparar um 600 – 700 þús kr. með því að hætta að kaupa einnota pappaglös fyrir starfsmenn.
  • Stofnanir draga úr óþarfa innkaupum og endurskipuleggja innkaup með umhverfisvænni hætti.
  • Landmælingar Íslands hafa dregið úr prentun úr 50.000 blöðum í 25.000 blöð.
  • Umhverfisstofnun hefur dregið úr matarsóun um 63% í mötuneyti sínu og aðeins 6,3% úrgangs frá stofnuninni fer í urðun.
  • Háskóli Íslands dró úr pappírsnotkun um 4 tonn milli áranna 2014 og 2015.
  • Hjá Ríkiskaupum var útprentun 22 kg á starfsmann árið 2012 en fór niður í 13 kg árið  2015.
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneyti eykur hlutfall úrgangsflokkunar jafnt og þétt og nú fer 62% úrgangs frá þeim í endurvinnslu.

Fyrir áhugasama og þá sem eru þegar í verkefninu verður haldinn Morgunverðarfundur, 9. nóvember milli kl. 09:00- 11.00 á Nauthól. Kynning verður á stöðu verkefnisins, grænum lífsstíl og fleiru tengdu verkefninu. Dagskrá verður kynnt síðar. Allir áhugasamir eru velkomnir og eru beðnir að skrá sig hjá Hólmfríði Þorsteinsdóttur, verkefnisstjóra Grænna skrefa og einnig ef stofnanir hafa einhverjar spurningar.

Við hvetjum ríkisstofnanir til að skrá sig í Græn skref í ríkisrekstri www.graenskref.is, verkefnið er stofnunum að kostnaðarlausu og Umhverfisstofnun býður aðstoð og ráðgjöf við innleiðingu.

Kynjabókhald forstöðumanna 2016

Í janúar 2016 voru forstöðumenn 156 og hefur þeim fækkað um fjóra á síðastliðnu ári. Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eru samtals 12 forstöðumenn, en voru 13 árið 2015, en SRA (Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna) var lögð niður formlega 1.janúar 2015. Fækkun er í mennta- og menningarmálaráðuneyti um tvo, en Iðnskólinn í Hafnarfirði og Tækniskólinn voru sameinaðir á árinu sem leið og Menntamálastofnun tekur við hlutverkum Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar. Í utanríkisráðuneyti var Þróunarsamvinnustofnun Íslands flutt yfir til utanríkisráðuneytis frá og með 1. janúar 2016 og því einn forstöðumaður þar, sem er ráðuneytisstjórinn. Kynjahlutfall breytist aðeins í mennta- og menningarmálaráðuneyti, en konur voru 23 af 50 árið 2015, en eru nú 21 af 48 forstöðumönnum. Í velferðarráðuneyti fjölgar konum, úr 8 í 10 af 27 forstöðumönnum.

Taflan sýnir fjölda forstöðumanna (þ.m.t. ráðuneytisstjóra) eftir ráðuneytum og hlutfall kvenna eftir hverju ráðuneyti fyrir sig.

Tafla 1. Fjöldi forstöðumanna eftir ráðuneytum

  Karlar Konur Samtals Ár 2016 Ár 2015
Forsætisráðuneyti 2 4 6 67% 67%
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 9 3 12 25% 23%
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 10 3 13 23% 23%
Innanríkisráðuneyti 21 13 34 38% 38%
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 27 21 48 44% 46%
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 11 4 15 27% 27%
Utanríkisráðuneyti 1 0 1 0% 0%
Velferðarráðuneyti 17 10 27 37% 30%
  98 58 156 37% 36%

Konur eru 58 talsins og gerir það 37% af heildarfjölda forstöðumanna, en hlutfallið var 36% árið á undan.

Meðalaldur forstöðumanna er 55,3 ára, konur eru að meðaltali 52,2 ára og karlar eru 57,1 ára.

Upplýsingar um ráðgjöf KMR

Kjara- og mannauðssýsla ríkisins hefur m.a. það hlutverk að veita ráðuneytum og stofnunum ráðgjöf tengda starfsmannamálum. Að meðaltali berast um 500 skriflegar fyrirspurnir á ári til KMR. Kjara- og mannauðssýslan hvetur forstöðumenn stofnana og aðra starfsmenn sem hafa umsjón með starfsmannamálum að leita sér ráðgjafar með úrlausn vafamála með því að senda fyrirspurnir á tölvupóstfangið, [email protected]. Þá minnir Kjara- og mannauðssýslan á heimasíðu skrifstofunnar.

Dómar í starfsmannamálum árið 2015

Dómar uppkveðnir á árinu 2015 og varða starfsmannalög og lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru nú komnir á heimasíðu FJR. Á árinu 2015 voru kveðnir upp 30 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess og er um mesta fjölda dóma frá því að reifanir á dómum hófust á heimasíðu FJR á árinu 2004. Munar hér mestu um fjölda félagsdóma á árinu en þeir voru alls 15. Kjaramálin hafa því skipað stóran sess í dómum síðasta árs auk þess sem lög á verkföll komu til úrlausnar héraðsdóms og Hæstaréttar á árinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira