Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Önnur skýrsla um stöðu mannréttindamála á Íslandi, okt. 2016

Komin er út íslensk þýðing á skýrslu stjórnvalda vegna allsherjarúttektar mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi (Universal Periodic Review – UPR). Í skýrslunni er farið yfir hvernig íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir tilmælum eftir fyrri úttekt SÞ og greint frá til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að bæta stöðu mannréttindamála á Íslandi.

Skýrslan verður lögð til grundvallar við fyrirtöku á fundi mannréttindaráðs SÞ í Genf 1. nóvember næstkomandi þar sem sendinefnd Íslands gerir grein fyrir helstu atriðum skýrslunnar og svarar spurningum aðildarþjóða SÞ um stöðu mannréttinda.

Fyrsta úttekt mannréttindaráðs SÞ á stöðu mannréttindamála var gerð hér á landi árið 2011 og komu þá fram 84 tilmæli. Af þeim var fallist á 34 að öllu leyti svo og 18 til viðbótar og þau þegar talin innleidd. Hin 32 tilmælin voru tekin til frekari skoðunar.

Innanríkisráðuneytið ber ábyrgð á að samhæfa aðgerðir Íslands til að fylgja tilmælunum eftir í nánu samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og velferðarráðuneytið. Við undirbúning þessarar skýrslu leituðu íslensk stjórnvöld til ýmissa aðila og samtaka sem var boðið að koma með tillögur eða tjá sig um efni skýrslunnar. Á opnum fundi í júní gerði UPR-teymi Íslands grein fyrir ferlinu og var gestum boðið að ræða stöðu mannréttindamála á Íslandi og koma með athugasemdir og tillögur varðandi hvað ætti að leggja áherslu á í skýrslunni.

Í skýrslunni er auk inngangs fjallað um mannréttindavernd á Íslandi, innleiðingu mannréttinda og í niðurlagskafla hennar um forgangsatriði í mannréttindamálum. Þar kemur meðal annars fram að Ísland haldi fram mannréttindum og grundvallarfrelsi í tvíhliða og marghliða samskiptum á alþjóðlegum vettvangi. Áfram sé lögð áhersla á jafnrétti kynjanna, baráttu fyrir kvenréttindum, valdeflingu kvenna, þátttöku þeirra í ákvarðanatöku og baráttuna gegn ofbeldi gegn konum. Þá kemur fram að Ísland styðji hvers kyns aðgerðir gegn mismunun, þar á meðal þeirri sem byggist á kynhneigð og kynvitund, styðji réttindi barna og aðgerðir gegn mansali.

Drög að þessari skýrslu voru birt á ensku á vefsíðu innanríkisráðuneytisins á sínum tíma. Fjöldi tilmæla og athugasemda barst ráðuneytinu. Niðurstöður þessa samráðs komu að miklu gagni en efni hennar er þó að fullu á ábyrgð stjórnvalda.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira