Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Ný persónuverndarlög taka gildi 15. júlí

Alþingi samþykkti hinn 13. júní sl. ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hin nýju lög taka gildi 15. júlí 2018 en á sama tíma falla gildandi lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga úr gildi. Með hinum nýju lögum er innleidd almenna persónuverndarreglugerð ESB sem þekkt hefur verið undir skammstöfuninni GDPR (General Data Protection Regulation - reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB).

Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 6. júlí 2018. Áætlað er að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar taki gildi hjá EFTA-ríkjunum innan EES þann 20. júlí 2018.

Frá því að almenna persónuverndarreglugerð ESB var samþykkt á vettvangi ESB hinn 27. apríl 2016 hafa ráðuneytið og Persónuvernd hvatt aðila til tímanlegs undirbúnings fyrir nýja persónuverndarlöggjöf auk þess sem Persónuvernd hefur staðið fyrir ýmis konar fræðslu og viðburðum um nýju löggjöfina.

Persónuvernd hefur komið á fót þjónustuborði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki vegna innleiðingar á hinum nýju persónuverndarlögum frá og með 15. júlí, sjá nánar á vef Persónuverndar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum