Hoppa yfir valmynd
30. október 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra situr Norðurlandaráðsþing

Norrænir forsætisráðherrar ásamt fulltrúum ungmenna af Norðurlöndum - mynd
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sótti Norðurlandaráðsþing sem var sett í Stokkhólmi í gær. Forsætisráðherra tók þar þátt í störfum þingsins og í þemaumræðu forsætisráðherra fjallaði hún um lýðræðislegt hlutverk grasrótarhreyfinga, stjórnmálaflokka og frjálsra félagasamtaka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þá var forsætisráðherra viðstödd afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs í gærkvöldi í Konserthuset í Stokkhólmi.

Forsætisráðherra fundaði með forsætisnefnd Norðurlandaráðsþings í morgun þar sem rætt var um störf þingsins. Þá stjórnaði forsætisráðherra einnig fundi norrænna forsætisráðherra, þ.m.t. leiðtoga Álandseyja, Færeyja og Grænlands, og framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar þar sem umræða um loftslagsmál var helst á dagskrá og ræddu forsætisráðherrarnir með hvaða hætti Norðurlöndin gætu betur tekið höndum saman í þeim efnum á alþjóðavettvangi. Á fundinum var einnig rætt um framkvæmd á nýrri sýn fyrir norrænt samstarf, sem var formlega samþykkt á fundi norrænna forsætisráðherra sem fram fór í Reykjavík í ágúst sl.

Þá sátu norrænir forsætisráðherrar fund með fulltrúum ungmenna þar sem rætt var um sjálfbærni og loftslagsmál. Fundurinn var þriðji samræðufundurinn með ungmennum skipulagður af hálfu formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, en jafnframt sá fyrsti þar sem fulltrúar ungmenna fá tækifæri til þess að eiga samtal við norrænu forsætisráðherrana og tjá sig um með hvaða hætti hægt sé að ná markmiðum nýrrar framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar og hver forgangsröðun loftslagsaðgerða ætti að vera. Niðurstöður fundarins verða nýttar í vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar sem snúa að framkvæmd aðgerðaráætlunarinnar fyrir Our Vision 2030.

Að loknum fundum morgunsins var haldinn blaðamannafundur norrænna forsætisráðherra.

  • Frá fundi norrænna forsætisráðherra ásamt leiðtogum Álandseyja, Færeyja og Grænlands - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ásamt Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum