Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2019 Forsætisráðuneytið

Rökræðukönnun um stjórnarskrá um helgina

Rökræðukönnun um endurskoðun stjórnarskrárinnar verður haldin 9. til 10. nóvember nk. í Laugardalshöll með þátttöku 300 manna hóps hvaðanæva af landinu.

Könnunin er hluti af almenningssamráði um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rökræðukönnunin tekur fyrir nokkur afmörkuð atriði s.s. ákvæði um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdóm, breytingar á stjórnarskrá, kjördæmaskiptingu og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf.

Rökræðukönnunin fer þannig fram að þátttakendum verður skipt í hópa sem ræða viðfangsefnin út frá rökum með og á móti ýmsum tillögum undir stjórn umræðustjóra. Að loknum umræðum um hvert efni gefst þátttakendum tækifæri á samtali við sérfræðinga í pallborðsumræðum. Viðhorfskönnun fer fram í upphafi fundar og einnig í lok hans og þannig er kannað hvort breytingar verði á viðhorfum fólks við að taka þátt í nánari skoðun, rýni og umræðum um viðfangsefnin.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annast rökræðukönnunina í samstarfi við Öndvegisverkefni um lýðræðislega stjórnarskrárgerð og Center for Deliberative Democracy við Stanfordháskóla.

Þátttakendur í rökræðukönnuninni voru valdir úr hópi þeirra sem svöruðu viðhorfskönnun um stjórnarskrána sem gerð var síðastliðið sumar sem byggði á slembiúrtaki og netpanel Félagsvísindastofnunar.

Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sem gerð var í sumar (á vef Félagsvísindastofnunar HÍ).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum