Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Áform um endurskoðun laga um Póst- og fjarskiptastofnun kynnt í samráðsgátt

Áform um að leggja fram frumvarp á Alþingi til nýrra heildarlaga um starfsumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar hafa verið birt til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 9. september nk.

Tilgangur frumvarpsins er að endurskoða starfsumhverfi Póst- og fjarskiptastofnunar með tilliti til fyrirsjáanlegra og áorðinna breytinga á verkefnum stofnunarinnar. Núverandi lagarammi um stofnunina, sem er að stofni til frá árinu 2003, hefur tekið miklum breytingum og stefnt er að því að meta heildstætt þær breytingar sem gera þarf vegna nýrra laga og hvernig tryggja megi að stofnunin þjónusti samfélagið sem best til framtíðar. 

Á undanförnum misserum hafa verið innleiddar umtalsverðar breytingar á löggjöf tengdri fjarskiptum, netöryggi og póstmálum. Ber þar helst að nefna lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða (nr. 78/2019), heildarendurskoðun póstlaga (nr. 98/2019) og frumvarp til laga um heildarendurskoðun fjarskiptalaga sem lagt var fyrir á Alþingi í maí 2020 og verður lagt að nýju fyrir haustþing 2020.

Til stendur að greina verkefni stofnunarinnar og leggja fram tillögur um úrbætur á grundvelli greiningarvinnunnar. Stofnanir hins opinbera verða að endurspegla lagaumhverfi og þarfir samfélagsins á hverjum tíma og vera má að einstök verkefni verði flutt til á milli stofnana ef niðurstöður greiningarvinnu gefa tilefni til. Þá verður leitast við að einfalda regluverk eftir því sem niðurstöður greiningar gefa tilefni til og stuðla að bættri stjórnsýslu.

Stefnt er að því að lagafrumvarpið verði lagt fram á vorþingi 2021.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira