Hoppa yfir valmynd
23. mars 2021 Innviðaráðuneytið

Fjallað um mikilvægi innviða, öryggi og ávinning samhliða fjölgun smáfarartækja

Á Laugavegi - myndÞórmundur Jónatansson

Smáfarartækjum fjölgað mikið í umferðinni á síðustu árum, samhliða aukinni áherslu á fjölbreytta ferðamáta og aðgerðum til að efla þá. 

Á veffundi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og umferðaröryggisráðs, sem haldinn var í morgun um smáfarartækin í umferðinni, var fjallað um mikilvægi innviða, öryggi notenda og annarra vegfarenda og ávinninginn af notkun þeirra fyrir samfélagið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í opnunarávarpi sínu að á undanförnum árum hafi umtalsverðum fjármunum verið varið um land allt í samstarfi við sveitarfélög við að byggja innviði fyrir fjölbreytta ferðamáta þar sem að öryggi ferðalanga er í öndvegi. 

„Örflæði er hugtak sem við notum fyrir umferð þessara smáu fararskjóta í stað enska hugtaksins „micromobility“. Í samgönguáætlun er áfram gert ráð fyrir fjárveitingum í innviði fyrir smáfarartækin til að tryggja örflæðinu öruggar brautir,“ sagði Sigurður Ingi. Ráðherra sagði ekki síður mikilvægt að vegfarendur gæti öryggi og væru sýnilegir með endurskin, ljós og hjálma. „Örflæðið er hljóðlátur og vistvænn ferðamáti sem er að auki heilsusamlegur og gefandi því fólkið á smáfarartækjunum fær meiri hreyfingu og G-vítamín þegar heilsast það mætist, brosir og spjallar jafnvel saman á rauðu ljósi,“ sagði hann.

Fræðandi fyrirlestrar

Fjórir fyrirlesarar fluttu góð og gagnmerk erindi um viðfangsefni fundarins. Kynningar þeirra má nálgast á vefsíðu um morgunfundinn. 

Fyrstur talaði Höskuldur Kröyer, ráðgjafi hjá Trafkon, um smáfarartæki og umferðaröryggi frá ýmsum hliðum. Hann sagði að umferðaröryggi snerist um samspil mismunandi ferðamáta. Smáfarartæki ættu margt sameiginlegt með hjólum en að ferðamátinn væri nýr og ætti eftir að þroskast.

Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur á Höfuðborgarsvæði Vegagerðarinnar, fjallaði einkum um innviði fyrir smáfarartækin með áherslu á öryggi í umhverfi stíganna og leiðir til að draga úr hættum. Katrín sýndi ýmis dæmi um slíka innviði og þróun þeirra, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. 

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala, fjallaði um slys við notkun rafhlaupahjóla en einnig um heilsufarslegan ávinning af fjölbreyttum ferðamátum. Samkvæmt slysaskráningu spítalans verða að meðaltali 1,6 slys daglega tengd rafhlaupahjólum í umferðinni, en ekkert þeirra var mjög alvarlegt á tímabilinu til skoðunar. Slysatíðni reyndist há meðal yngri barna en langflestir sem slasast eru á aldrinum 10-13 ára. Athygli vegur að 40% slysa sem verða hjá aldurshópnum 18 ára og eldri voru vegna áfengisneyslu en engin slys á börnum yngri en 18 ára tengdust vímuefnanotkun sem er afar ánægjulegt.

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, deildarstjóri samgangna hjá Reykjavíkurborg, fjallaði um rafhlaupahjólaleigur í borginni, kröfur til þeirra og notkun hjólanna. Rafhlaupahjólum hafi fjölgað mjög mikið frá síðasta vori þegar fleiri hjólaleigur hófu rekstur. Gerðar væru strangar kröfur, m.a. um viðhald og rekstur hjóla. Guðbjörg sagði frá niðurstöðum úr könnun um eignarhald og notkun rafhlaupahjóla í borginni. Þar kom fram að rafhlaupahjól væru til á 12% heimila og að 44% aðspurðra hafi prófað þau. Notkunin er mest í yngstu aldurshópnum og eignarhaldið mest á yngri heimilum. Hæst er hlutfallið hjá aldurshópnum 18-24 ára þar sem 76% hafa prófað.  Af þeim sem hafa leigt hjól, nota sex af hverjum tíu þau minnst einu sinni í mánuði oftast til að ferðast til og frá vinnu algengastar.

Undir lok fundarins frumsýndi Samgöngustofa tvö ný fræðslumyndbönd um smáfarartæki. Um rafhlaupahjól annars vegar og um vespur, eða létt bifhjól í flokki I hins vegar.

Mikil umræða varð á fundinum m.a. um heiti á rafhlaupahjólin og virtust fundargestir nokkuð sáttir við „rafskottur“, farartæki til að skottast á. Þá var rætt hvort setja ætti aldurstakmörk á notkun rafskotta en víða í Evrópu er nú verið að takmarka notkun við 12 ár. Tillaga kom um að skoða hvort smáfarartæki ættu ekki að vera leyfð á 30 km götum. Loks varð mikil umræða um mikilvægi góðra og öruggra stíga, helst með aðskilnaði smáfarartækja frá gangandi. 

Fræðslumynd um rafhlaupahjól 

Fræðslumynd um létt bifhjól í flokki I

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum