Hoppa yfir valmynd
8. maí 2021 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sáttmáli milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi undirritaður

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp við undirritun sáttmála milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var í dag viðstaddur undirritun sáttmála milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi. Tólf samtök og stofnanir standa að baki sáttmálanum þar sem fólk er hvatt til að sýna tillitssemi, varúð og kurteisi í umferðinni og þekki einnig sérstöðu og viðbrögð hesta þegar ólíkir ferðamátar mætast. 

Á fundinum var frumsýnt nýtt fræðslumyndband um öryggi hestafólks og annarra vegfarenda sem Landssamband hestamannafélaga, Horses of Iceland og Samgöngustofa gerðu í sameiningu. Ætlunin með fræðsluátakinu er að vekja athygli á þörfum mismunandi vegfarendahópa, sérstöðu hestsins og rétti allra til að stunda útvist og komast leiðar sinnar með öruggum hætti. 

Með fræðslumyndinni og undirritun sáttmálans verður leitast við að fræða almenning um það hvernig allir þessir hópar geti stundað heilbrigða og örugga útiveru í sátt og samlyndi.

„Sáttmálinn undirstrikar mikilvægi þess að við setjum okkur í spor hvers annars og gætum fyllstu varúðar. Það að geta sett okkur í spor hvers annars er í raun grundvallaratriði - ekki bara í umferðinni - heldur í öllum samskiptum okkar," sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ávarpi sínu við undirritunina í dag.

„Það er einnig ánægjulegt að við höfum verið að auka fjármagn til reiðvega og hjóla- og göngustíga í samgönguáætlun. Hvað reiðvegi varðar var árlegt framlag aukið í 75 milljónir kr. í stað 60 milljóna kr. Í tengslum við sérstakt fjárfestingarátak stjórnvalda er síðan gert ráð fyrir 50 milljóna kr. aukaframlagi á þessi ári og á næsta ári," sagði Sigurður Ingi.

Eftirfarandi hópar hafa komið sér saman um „Sáttmála hestafólks og annarra vegfarenda“ og munu fulltrúar þessara vegfarendahópa undirrita hann á fundinum:

 • Landssamband hestamannafélaga 
 • Hjólreiðasamband Íslands 
 • FÍB – Félag íslenskra bifreiðaeigenda 
 • Ökukennarafélag Íslands  
 • Sniglarnir  
 • Slóðavinir  
 • Félag ábyrgra hundaeigenda   
 • Skíðasamband Íslands  
 • Skíðagöngufélagið Ullur  
 • Frjálsíþróttasamband Íslands
 • Vegagerðin   
 • Samgöngustofa

Á síðasta ári urðu tíð slys á hestafólki, sum þeirra alvarleg, og oft á þeim stöðum þar sem umferð ríðandi fólks og önnur umferð skarast. Árið 2020 voru 160 hestaslys skráð hjá Bráðamóttöku Landspítalans en almennt eru slík slys talin vanskráð. Orsökin er yfirleitt þekkingarleysi og skortur á því að hestafólk setji sig í spor annarra og að aðrir vegfarendur setji sig í spor hestafólks.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, stillir sér upp fulltrúum mismunandi vegfarendahópa á ólíkum fararskjótum, ásamt Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Samgöngustofu. 

 • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, stillir sér upp með fulltrúum mismunandi vegfarendahópa á ólíkum fararskjótum, ásamt Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Samgöngustofu.
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var viðstaddur undirritun sáttmála milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira