Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2022 Innviðaráðuneytið

Skýrsla um endurskoðun ákvæða sveitarstjórnarlaga um fjármál sveitarfélaga

Til samræmis við bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 hefur starfshópur á vegum innviðaráðherra skilað skýrslu sinni um endurskoðun ákvæða sveitarstjórnarlaga er fjalla um fjármál sveitarfélaga. 

Lagt var fyrir starfshópinn að hafa m.a. til hliðsjónar samkomulag ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál dags. 6. apríl 2018 og að leitað yrði til ýmissa sérfræðinga um einstök efnisatriði sem þeir hafa sérþekkingu á og leita álits þeirra á útfærslum. Eftir að starfshópurinn hafði komist að niðurstöðu var lagt upp með að gerð yrðu drög að breytingum á ákvæðum fjármálakafla sveitarstjórnarlaga og reglugerðum eftir því sem við á. 

Starfshópurinn hefur í vinnu sinni horft til reynslunnar af gildandi lögum og rætt hvað megi bæta í þeim. Þá hefur hópurinn einnig skoðað efni laga um opinber fjármál sem tóku gildi 1. janúar 2016 og möguleg áhrif þeirra á sveitarfélög og sveitarstjórnarlögin. Enn fremur hefur starfshópurinn haft til hliðsjónar þingsályktun um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Þar er gert ráð fyrir að sett verði í áföngum ný viðmið um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga og stefnt að því að styrkja sveitarstjórnarstigið með ýmsu móti. Það er mat starfshópsins að ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga muni styrkja fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga.

Tillögur starfshópsins fela í sér frekari skref í átt að stefnu- og árangursmiðaðri fjármálastjórn sveitarfélaga og fella hana að ákveðnu marki að ákvæðum laga um opinber fjármál eins og erindisbréf starfshópsins kveður á um. Stefnumörkunin verði byggð á grunngildum sem sveitarstjórn setur sér líkt og kveðið er á í lögum um opinber fjármál. Tilgangurinn er í samræmi við það markmið laga um opinber fjármál, að ríki og sveitarfélög, í sameiningu, stuðli að styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. 

Að markmiðum um að stefna í átt að árangursmiðaðri fjármálastjórn eru margar leiðir færar. Höfuðáttir má greina í hversu mikið svigrúm sveitarfélög eiga að hafa í mótun og eftirliti með framgangi fjármála sinna. Sjálfsstjórn sveitarfélaga á Íslandi er mikil og því eðlilegt að fram fari virkt eftirlit sem stuðlar að samræmdri yfirsýn um markmið og viðmið í fjárhagslegri sjálfbærni. 

Fulltrúar í starfshópnum náðu ekki saman um hvaða leið væri fýsilegust. Fulltrúar ríkisins telja mikilvægt að setja skýrar fjármálareglur og tilgreina frekari viðmið um einstaka ákvæði laganna og þróa áfram tiltekna fjárhagslega mælikvarða með faglegum hætti. Fulltrúar sambandsins vilja á hinn bóginn treysta sveitarfélögum til að setja sér ígrundaða stefnu og fylgja skynsamlegri fjármálastjórn innan þess ramma sem (að mestu leyti) óbreyttar fjármálareglur marka. Við þau skilyrði væri ekki ástæða til að herða eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Auk þess sjá fulltrúar sambandsins tækifæri til að styðja við markvissa aðlögun sveitarfélaga að ákvæðum nýrra laga með því að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga sérstakt ráðgjafar- og fræðsluhlutverk við innleiðinguna. 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum