Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á Arctic Frontiers-ráðstefnunni

Þórdís Kolbrún ásamt þeim Tobiasi Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs og Johönnu Sumuvuori, ráðuneytisstjóra í finnska utanríkisráðuneytinu, í pallborðsumræðunum í dag. - myndDavid Jensen

Innrás Rússlands í Úkraínu og afleiðingar hennar fyrir norðurslóðasamstarf voru efst á baugi í umræðum utanríkisráðherra Íslands, Noregs og Svíþjóðar og ráðuneytisstjóra finnska utanríkisráðuneytisins á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsø í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra undirstrikaði hve skaðleg áhrif innrásin hefði haft á norðurslóðasamvinnu og ekki væri hægt að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er stödd í Tromsø í Noregi en þar stendur yfir norðurslóðaráðstefnan Arctic Frontiers. Í dag tók Þórdís Kolbrún þátt í pallborðsumræðum ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Svíþjóðar og ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis Finnlands um hnattrænar áskoranir og áhrif þeirra á íbúa norðurslóða. Þar bar hæst annars vegar loftslagsváin og margháttaðar afleiðingar hennar fyrir bæði líf og umhverfi svæðisins og hins vegar áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu á ríkjasamstarf á norðurslóðum.

Mikill samhljómur var í pallborðinu um mikilvægi samstöðu norðurskautsríkjanna sjö sem í kjölfar innrásarinnar gerðu hlé á samstarfi við Rússland á vettangi Norðurskautsráðsins. „Við erum öll sammála um að það þjóni hagsmunum allra til lengri tíma að Norðurskautsráðið verði áfram helsti vettvangur norðurslóðasamvinnu. Hins vegar er ljóst að yfirstandandi atburðir hafa stórskaðað samstarf norðurskautsríkja og það er alls ekki hægt að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist,“ sagði utanríkisráðherra í umræðunum. Í máli sínu minnti hún einnig á mannauð norðurslóða og nauðsyn þess að virkja sköpunarkraft íbúanna til að finna nýjar, grænar lausnir.

Fyrr í dag átti Þórdís Kolbrún fund með norrænu kollegunum um borð í norska rannsóknaskipinu Prins Haakan. Þar voru meðal annars til umfjöllunar innganga Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu og formennska Íslands í Evrópuráðinu. Þá átti utanríkisráðherra fund með bandarískum embættismönnum þar sem málefni norðurslóða og stríðið í Úkraínu voru helst til umræðu.

Ráðherra heimsótti ennfremur fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins og var viðstödd formlega opnun skrifstofu Arctic Mayors Forum, sem eru samtök bæjarfélaga á norðurslóðum, en Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar var fyrsti formaður samtakanna 2019-2022.

  • Frá heimsókn ráðherra í fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum