Hoppa yfir valmynd
8. mars 2023 Innviðaráðuneytið

Samgöngur og fatlað fólk

Í skýrslu starfshóps á vegum innviðaráðuneytisins um stöðu fatlaðs fólks í samgöngum eru kynntar niðurstöður um stöðu aðgengismála í ólíkum ferðamátum og lögð fram forgangsröðuð aðgerðaáætlun. Niðurstöður hópsins verða lagðar til grundvallar áherslum og aðgerðum í stefnumörkun samgönguáætlunar. 

Niðurstöður starfshópsins:

  1. Innanlandsflug: Á innanlandsflugvöllum eru engin tæki til að flytja fatlaða farþega um borð í flugvélar. Farþegar sem nota hjólastól eru bornir um borð en sú aðferð er áhættusöm bæði fyrir farþega og starfsfólk.
  2. Ferjusiglingar: Herjólfur sem siglir á milli lands og Vestmannaeyja er aðgengilegur fötluðu fólki en bæta mætti miðlun upplýsinga til fatlaðra farþega. Aðrar ferjur eru eldri og ekki að öllu leyti hannaðar með aðgengi fatlaðs fólks í huga. Landgangar ferja eru þröngir og brattir, og eru því ekki aðgengilegir öllum.
  3. Almenningssamgöngur á landi – höfuðborgarsvæði: Vagnar á höfuðborgarsvæðinu eru flestir aðgengilegir. Aðgengi á biðstöðvum er ekki alltaf hannað með fatlað fólk í huga en víða er unnið að endurbótum. Þá er aðkoma fatlaðs fólks að biðstöðvum víða ábótavant. 
  4. Almenningssamgöngur á landi – dreifbýli: Vagnar í akstri í dreifbýli eru almennt ekki aðgengilegir fötluðu fólki en nýjustu vagnar eru þó með sérhönnuðum lyftum fyrir fólk með hreyfihömlun.  Biðstöðvar fyrir farþega eru langflestum tilfellum óaðgengilegar fyrir fatlað fólk.
  5. Hleðslustöðvar raf- og tvinnbíla: Hleðslustöðvar fyrir bíla eru oft og tíðum óaðgengilegar fyrir þá sem nota hjólastól eða búa við aðra fötlun. Algengt er að búnaðurinn sé í rangri hæð og að stólpar/kantar hindri aðkomu hjólastóls. Þá þarf að huga að nægu rými fyrir hjólastól við bíl sem þarf að hlaða.
  6. Akstursþjónusta fatlaðra: Hvert sveitarfélag rekur þjónustuna á sínum forsendum með hliðsjón af lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og leiðbeiningum stjórnarráðsins. Samræmt aðgengi að þjónustunni, óháð staðsetningu þess fatlaða er ekki í boði í dag þar sem framboð er háð samkomulagi á milli einstakra sveitarfélaga. Þá er þjónustustig mismunandi eftir sveitarfélögum, m.a. hvað varðar þjónustutíma innan vikunnar.

Aðgerðaráætlun tilgreinir eftirtalin forgangsverkefni:

  1. Gerð leiðbeininga um hönnun og uppsetningu hleðslustöðva með hliðsjón af fullu aðgengi.  Allar fyrirgreiðslur, svo sem styrkir og leyfisveitingar frá hendi hins opinbera verði skilyrtar því að fylgja leiðbeiningunum.
  2. Skilyrði um aðgengi fyrir alla verði innleitt í útboðum vegna samgangna til og frá Leifsstöð.
  3. Kaup á tækjabúnaði vegna aðgengis að flugi á innanlandsflugvöllum  (um 65 millj. kr.-).
  4. Hönnun og uppsetning tveggja biðstöðva á dreifbýlisleiðum (30 millj. kr.-).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum