Hoppa yfir valmynd
13. maí 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna

Stöðuskýrsla til ráðherra á þriðja ári innleiðingar

Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, eða farsældarlögin eins og þau eru gjarnan kölluð, voru samþykkt á Alþingi þann 11. júní 2021 og tóku gildi 1. janúar 2022. Frá því að lögin voru samþykkt hefur markvisst verið unnið að innleiðingu þeirra á vegum ríkis og sveitarfélaga um allt land. Eitt helsta nýmæli farsældarlaganna er að marka samstarfi mismunandi þjónustukerfa skýran farveg í lögum.

Frá gildistöku laganna hefur mennta- og barnamálaráðuneytið, í samstarfi við Barna- og fjölskyldustofu, tekið þátt í fjölda viðburða bæði á Íslandi og erlendis vegna innleiðingar þeirra. Í september 2023 var stigið stórt skref í innleiðingu farsældarlaganna, en þá var farsældarþing haldið í fyrsta skipti og skráðu rúmlega 1.200 manns sig til þátttöku á þinginu sem haldið var í Hörpu. Farsældarþingið varði allan daginn og tóku u.þ.b. 40 börn virkan þátt á þinginu. Á farsældarþinginu var vefsíðan Farsældbarna.is, eða farsældarvefurinn, jafnframt opnuð almenningi þar sem hægt er að tengjast mælaborði um farsæld barna.

Á síðastliðnu ári hefur markviss samvinna stjórnvalda um innleiðingu farsældarlaganna í heilbrigðisþjónustu farið fram, m.a. með öflugu samstarfi ráðuneytisins, Barna- og fjölskyldustofu og heilbrigðisráðuneytisins. Í lok árs 2023 var haldinn vinnudagur tengiliða farsældar í heilsugæslu og þegar skýrsla þessi er skrifuð hafa allar heilsugæslustöðvar landsins tilnefnt tengilið farsældar. Þá hefur jafnframt verið ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu til að stýra áframhaldandi vinnu við innleiðingu farsældarlaganna í heilbrigðisþjónustu.

Farsældarrúta Barna- og fjölskyldustofu fundaði með öllum 64 sveitarfélögum landsins árið 2023 og hafa öll sveitarfélögin ýmist hafið samþættingu mála, innleiðingu farsældar eða tekið fyrstu skrefin við að innleiða farsældina. Þá hafa öll sveitarfélög á landinu jafnframt tilnefnt tengiliði og málstjóra farsældar. Um talsvert framfaraskref er að ræða, en árið 2022 höfðu 12 sveitarfélög enga vinnu hafið við innleiðingu farsældar. Barna- og fjölskyldustofa hefur gefið út fjölbreytt fræðsluefni og stofnað svokallaðan Farsældarskóla á vefsvæði stofnunarinnar með námskeiðum fyrir tengiliði og málstjóra. Í upphafi árs 2024 hóf Barna- og fjölskyldustofa jafnframt að kalla eftir mánaðarlegum skráningum mála frá tengiliðum og málstjórum farsældar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum