Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Óskað eftir umsögnum við uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er nú til umfjöllunar í Samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til að skila inn umsögnum til 22. september.

Aðgerðaáætlunin samanstendur af 150 aðgerðum, sem er umfangsmikil aukning frá fyrri aðgerðaáætlun. Sérfræðingar víðs vegar að úr stjórnkerfinu komu að vinnunni, í samstarfi við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunasamtök úr atvinnulífinu undir forystu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sem kynnt var fyrr í sumar, samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum. Kortlagning aðgerða áætlunarinnar er mun ítarlegri og áhrifamat þeirra varðandi losun umfangsmeira en í fyrri útgáfum. Í vinnu við gerð áætlunarinnar var grundvallarbreyting í nálgun stjórnvalda á verkefnið hvað varðar samtal við atvinnulíf og sveitarfélög um loftslagsmál, sem er undirstaða áframhaldandi árangurs.

Aðgerðaáætlunin er bæði tól til að Ísland geti framkvæmt aðgerðir til að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og tæki til að undirbúa, samhæfa og samstilla samfélagið í heild til þess að innleiða slíkar aðgerðir.

Í aðgerðaáætluninni, sem nú er til umfjöllunar í Samráðsgátt, er metinn beinn ávinningur 26 aðgerða á beinni ábyrgð stjórnvalda í samfélagslosun Íslands. Áætla má að áætlunin skili 35-45% samdrætti í samfélagslosun fyrir 2030. Hærri talan gerir ráð fyrir árangursríkri innleiðingu og framkvæmd aðgerða sem ekki var hægt að meta beint. Í áætluninni er með afgerandi hætti skýrt að frekari árangur í loftslagsmálum veltur á því að hér á landi sé nægt framboð grænnar orku sem komi í stað jarðefnaeldsneytis.

Aðgerðaáætlunin er birt á vefnum www.co2.is  og verður uppfærð eftir því sem aðgerðum vindur fram. Gert er ráð fyrir að aðgerðir verði uppfærðar reglulega innan hvers árs að undangenginni afgreiðslu verkefnisstjórnar.

Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um uppfærða aðgerðaáætlun og skal umsögnum skilað í Samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 22. september.

Hlekkur á Samráðsgátt: https://island.is/samradsgatt/mal/3758

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta