Fjórða landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi fyrir árin 2025–2030
Í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur, frið og öryggi, sem samþykkt var árið 2000, lagði ráðið í fyrsta sinn formlega áherslu á að stríð og átök hefðu mismunandi áhrif á kynin og á mikilvægi þess að konur kæmu að öryggis- og friðarmálum til jafns við karla, í þágu öryggis og friðar. Ísland hefur lagt sig fram um að vinna að framgangi ályktana um konur, frið og öryggi og var meðal fyrstu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna til að móta eigin landsáætlun um framfylgd ályktunarinnar árið 2008. Leggja stjórnvöld nú fram fjórðu landsáætlun sína fyrir árin 2025–2030.