Skýrsla sérfræðingateymis um málefni barna með fjölþættan vanda
Yfirlit yfir mál sem teymið hafði til umfjöllunar árin 2021–2023
Málefni barna með fjölþættan vanda hafa verið mjög til umræðu á undanförnum mánuðum og árum. Hinir flóknu erfiðleikar sem börnin glíma við skapa miklar áskoranir fyrir fjölskylduna í heild sinni, sem og þjónustuveitendur en oft þarf aðkomu margra aðila með ólíka nálgun, frá mismunandi þjónustukerfum. Þegar vandi þessara barna var ávarpaður í skýrslu árið 2013, var áætlað að um 8–12 börn væri að ræða á hverju tímabili. Nú er talið að þau séu mun fleiri eða í kringum 130 börn.
Í eftirfarandi skýrslu er farið yfir tölulegar upplýsingar um þau börn og ungmenni, sem sérfræðingateymi um málefni barna með fjölþættan vanda fjallaði um árin 2021–2023. Alls fjallaði teymið um málefni 58 barna á tímabilinu. Drengir voru í miklum meirihluta eða um þrír fjórðu allra tilvísana til teymisins. Börnin voru á breiðu aldursbili eða á aldrinum 9–18 ára þegar tilvísun barst en flest á aldrinum 15–18 ára. Langflest börnin voru af íslenskum uppruna. Meirihluti tilvísana var frá Reykjavík eða öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Hátt hlutfall barnanna hafði beitt aðra í nærumhverfi sínu ofbeldi og meirihluti þeirra orðið fyrir einhvers konar ofbeldi og/eða vanrækslu. Rúmur þriðjungur barnanna hafði valdið sjálfum sér skaða eða gert tilraunir til þess.
Mörg barnanna höfðu farið í gegnum greiningarferli varðandi hegðun, þroska og líðan hjá opinberum greiningaraðilum. Flest barnanna voru með fleiri en eina greiningu. Algengast var að þau væru greind á einhverfurófinu og/eða með ADHD en hluti þeirra einnig með lyndisraskanir, tengslaraskanir og/eða þroskahömlun. Meira en helmingur barnanna var þegar kominn í búsetu eða fóstur utan heimilis þegar tilvísun barst. Í meirihluta tilvika mælti sérfræðingateymið með búsetu utan heimilis, ýmist varanlegri
eða tímabundið.
Vistun utan heimilis er mikið inngrip í líf barns og fjölskyldu en á sama tíma eru erfiðleikar á heimili barns stundum orðnir það miklir að úrræði innan heimilis eru talin vera fullreynd, að minnsta kosti tímabundið. Fjölskyldur barnanna hafa oft verið undir langvarandi álagi og þess eru dæmi að foreldrar og jafnvel systkini glími við langvarandi heilsubrest sem rekja má til aðstæðna heima fyrir. Teymið leggur iðulega til að barn sem er vistað utan heimilis eigi kost á eins mikilli nálægð og nærveru við fjölskyldu sína og kostur er á. Ennfremur leggur teymið alltaf til að búseta barns utan heimilis sé endurskoðuð reglulega með tilliti til aðstæðna og þarfa hverju sinni.
Frá upphafi hafa flestar tilvísanir komið frá barnaverndaryfirvöldum en þjónusta við börnin iðulega verið á höndum margra aðila frá mismunandi þjónustukerfum. Oft hefur barni og fjölskyldu þess verið veitt langvarandi þjónusta, þar sem margvísleg úrræði hafa verið reynd. Hins vegar má sjá að oft er skortur á heildstæðum úrræðum, þekkingu, reynslu og/eða mannafla til þess að þjónustan beri tilætlaðan árangur. Það er mat teymisins að þörf sé á markvissari og þekkingarmiðaðri þjónustu frá upphafi með aðkomu allra þjónustukerfa, svo sem félags-, heilbrigðis- og menntakerfis, sbr. þá áherslu sem fram kemur í lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021. Þá er mikilvægt að þriðja stigs sérfræðiþjónusta sé til stuðnings og ráðgjafar eftir því sem þörf er á.