Almenningssamgöngur efldar með samgöngusáttmálanum
Mikilvægt skref var stigið í að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í gær þegar Strætó kynnti verulega aukningu á þjónustu sinni með fjölgun ferða og lengri aksturstíma. Þessar breytingar eru hluti af samgöngusáttmálanum sem var uppfærður í fyrrahaust af hálfu ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Breytingarnar gera það að verkum að hlutfall íbúa sem búa innan 400 metra frá stoppistöð með 10 mínútna tíðni á annatíma fer úr um 18% í rúmlega 50%. Markmiðið er að auka þannig notkun almenningssamgangna með því að bæta aðgengi íbúa og aukinni tíðni.
Nærri 50% hærra framlag á fjárlögum til almenningssamgangna
Framlög til almenningssamgangna hækkuðu verulega í fjárlögum yfirstandandi árs (2025) frá fyrra ári. Hækkunin nemur 2.347 m.kr., sem jafngildir 49,2% hækkun frá fjárlögum 2024. Heildarframlag úr ríkissjóði til almenningsamgagna á landsvísu nemur 8.244 m.kr. á yfirstandandi ári.
Helstu breytingar
Á vef Strætó eru eftirtalin dæmi nefnd um aukna þjónustu sem tók gildi í gær, 17. ágúst
- Aukin þjónusta í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
- Lengri þjónustutími á kvöldin.
- Styttri ferðatími frá Kópavogi og Breiðholti með nýrri forgangsakrein.
- Lengri þjónustutími á Kjalarnesi og stóraukin tíðni.
Breytingar sem nú taka gildi eru undirbúningur fyrir nýtt leiðanet með strætisvögnum og Borgarlínu sem tekur gildi árið 2031.