Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2006 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tækifæri og ávinningur á UT-degi

Samgönguráðherra var með ávarp á UT-deginum - degi tækifæra og ávinnings.

Að deginum stóðu samgönguráðuneytið í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, forsætisráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja og Skýrslutæknifélagið.

Á UT-vefnum er að finna upptöku af erindum og glærum fyrirlesara, þar á meðal erindi samgönguráðherra. Sjá upptöku.

Ræða Sturlu Böðvarssona fer hér á eftir.

Fundarstjóri, góðir fundargestir.

Við tökum því oft sem sjálfsögðum hlut að Ísland standi í fremstu röð þjóða í að nýta upplýsingatækni. En það er engin tilviljun að Ísland er í dag í 2. sæti á 104 þjóða lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir þjóðir sem nýta vel nýja upplýsinga- og fjarskiptatækni. Það er heldur ekki tilviljun að Ísland er með besta fjarskiptakerfi í heimi þrátt fyrir að vera 6. strjálbýlasta land í heimi. Markvisst hefur verið unnið að þessu. Og við höfum gert ríkar kröfur til fjarskiptafyrirtækjanna auk þess sem fjarskiptalöggjöfin hefur verið mótuð í þeim anda að allir landsmenn geti notið upplýsingatækninnar.

Við höfum unnið markvisst að þróunarverkefnum um íslenska upplýsingasamfélagið í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni Auðlindir í alla þágu. Úttekt á árangri, sem gerð var árið 2003, sýndi að verkefnið hafði skilað verulegum árangri. Þó hafði þróunin á nokkrum sviðum orðið hægari en væntingar stóðu til meðal annars vegna takmarkaðs aðgangs að háhraðatengingum víða um landið.

Við höfum hins vegar ekki látið staðar numið í samgönguráðuneytinu þar sem fjarskiptamálin eru stór málaflokkur. Á síðasta vorþingi lagði ég fram tillögu til þingsályktunar, Fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005-2010. Með henni eru lagðar línur um hvernig við viljum og ætlum okkur að bæti samkeppnishæfni einstaklinga og fyrirtækja um allt land og skapa um leið sóknarfæri á erlendri grundu. Og ég verð að segja að sjaldan hef ég fundið fyrir jafn sterkum stuðningi við verkefni á vegum ráðuneytisins. Menn eru að átta sig betur og betur á þeirri staðreynd að fjarskiptainnviðir okkar Íslendinga eru ekki síður mikilvægir, og í raun mikilvægari á stundum, en vegakerfið í landinu.

Í fjarskiptaáætlun eru sett fram skýr og tímasett markmið. Ekki ætla ég að svæfa salinn með því að tíunda hvert og eitt einasta markmið fjarskiptaáætlunar en bendi á að í bæklingi sem fylgir ráðstefnugögnunum má sjá hvernig leiðin er vörðuð allt til ársins 2010.

Ég vil þó gera höfuðmarkmiðum fjarskiptaáætlunar skil en þau snúa að:

  • Háhraðavæðingu alls landsins
  • Þéttingu GSM sambandsins á hringveginum og helstu stofnvegum og ferðamannastöðum
  • Dreifingu sjónvarpsdagskrár og hljóðvarps til sjómanna á miðum og til strjálbýlla svæða í gegnum gervihnött
  • Öryggi í tengingu Íslands við útlönd og lækkun einingaverðs í fjarskiptatenginum milli landa.

Ég er sannfærður um að fjárfesting í hraðbrautum upplýsingamiðlunar um land allt sé lykill að jafnari búsetuskilyrðum. Ég er líka sannfærður um að öflugar samskiptabrautir munu leika stórt hlutverk í alþjóðlegri samkeppnishæfni okkar á komandi árum. Með þessa sannfæringu í brjósti set ég fram markmið um háhraðatengingu til allra landsmanna.

Með því er átt við að allir landsmenn, sem þess óska, geti tengst háhraðaneti eigi síðar en árið 2007 og notið þannig hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Aðgengi að háhraðatengingum hérlendis er nú þegar með því besta sem gerist í heiminum. En við ætlum okkur alla leið í þessum efnum. Þau fjarskiptanet, sem eru til staðar, ásamt miklum kaupmætti, góðri menntun, háu tæknistigi og áhuga þjóðarinnar á tækninýjungum, skapa einstakar aðstæður til að viðhalda og auka enn það forskot sem íslenska þjóðin hefur á sviði upplýsingamiðlunar. Nær öll íslensk fyrirtæki eru nettengd og í árslok 2005 gátu yfir 95% landsmanna nýtt sér háhraðasítengingu. Þrátt fyrir þessa góðu stöðu, sem við getum verið stolt af, eru enn svæði sem standa utan við þessa upplýsingabyltingu.
Það er óásættanlegt að hluti landsins, þó ekki sé um stóran hluta að ræða, eigi þess ekki kost að njóta upplýsingabyltingarinnar og vera virkur þátttakandi í upplýsingasamfélaginu. Það dytti engum í hug að sætta sig við þá stöðu að nokkur prósent þjóðarinnar nytu ekki heilbrigðisþjónustu eða hefðu ekki aðgang að menntakerfinu. Með þetta í huga ætlum við okkur að gera upplýsingasamfélagið aðgengilegt fyrir alla Íslendinga.

Annað forgangsverkefni stjórnvalda er að styðja við uppbyggingu á GSM kerfinu meðfram hringveginum og á helstu stofnvegum og ferðamannastöðum. Undirbúningur er þegar hafinn á útboði á þeim 400 km kafla hringvegarins sem enn er sambandslaus og á 1100 km kafla sem sambandslaus er á helstu stofnvegum landsins. Þessi mikilvæga aðgerð, til að efla öryggi, á eftir að koma öllum landsmönnum til góða.

Þriðja forgangsmálið er að koma útsendingum Ríkisútvarps og sjónvarps um gervihnött til sjófarenda, og annarra sem búið hafa við slæm móttökuskilyrði í núverandi dreifikerfi.

Ég kemst ekki hjá því að tala um öryggi tenginga og verðlagningu í þessari kynningu minni. Fjarskiptanet og upplýsingakerfi eru orðin nauðsynlegur þáttur í daglegum störfum okkar og um leið grundvöllur að þátttöku í upplýsingasamfélaginu og árangri í efnahagslífinu. Samruni fjarskipta- og upplýsingatækni gerir þessa þætti óaðskiljanlega og um leið viðkvæmari fyrir utanaðkomandi hættum.
Ófullnægjandi öryggi skaðar þann árangur sem náðst hefur við uppbyggingu upplýsingasamfélagsins, sem og efnahag og frelsi einstaklingsins í samfélaginu. Þetta kallar á sérstaka stefnumótun af hálfu stjórnvalda og að henni hefur verið unnið á undanförnum mánuðum. Áhersla hefur verið lögð á;

  • að byggja upp traust á upplýsingasamfélaginu, viðhalda öryggi innviða þess og samkeppnishæfni
  • að vinna með markvissum hætti að því að þróa öryggisvitund í samfélaginu
  • að samhæfa framkvæmd stjórnvalda í þessum málum - að efla samstarf opinberra aðila og markaðarins um öryggismál
  • að efla erlent samstarf til varnar sameiginlegum hættum á þessu sviði.

Það dugir ekki að vera í traustu og öruggu sambandi innbyrðis ef tengingin við umheiminn er í ólagi.
Miklir öryggis- og viðskiptahagsmunir eru bundnir við millilandasambandið og alvarleg röskun á því getur haft verulegar afleiðingar fyrir allt samfélagið.

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum hér inni að nagdýr í Skotlandi hafa rofið sambönd sæstrengsins Farice. Sem svo aftur hefur komið niður á tengingum Íslendinga við umheiminn. Segja má að stærsti einstaki veikleiki í öryggi landsins á fjarskiptasviðinu séu tengingar við útlönd. Eins og er höfum við tvær tengingar við landið. Annars vegar Farice1 með flutningsgetu til næstu framtíðar en án hringtengingar þannig að við rof á strengnum verður að notast við varaleiðir. Hins vegar Canntat3, sem er elsti sæstrengur í notkun í N-Atlantshafi með takmarkaða flutningsgetu, en hann hefur þjónað okkur í gegnum tíðina og er nú varasamband fyrir Farice1. Framtíð Cantat strengsins er mjög óviss og huga þarf að framtíðarvarasambandi í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um þau mál.

Annar veikleiki er verðlagning á gagnaflutningi. Í dag er verðlagningin með þeim hætti að óhætt er að hafa áhyggjur af þróun fjarskiptamarkaðarins, stöðu hugbúnaðarfyrirtækja og þjónustuaðila á hér á landi miðað við erlendan samanburð.

Af þessum veikleikum hef ég verulegar áhyggjur.

Hef ég ákveðið að koma á viðræðum milli stærstu meðeigenda ríkisins hér á landi í Farice og annarra hagsmunaaðila til að skoða sérstaklega hvernig lækka megi verð í millilanda samböndum annars vegar og hins vegar til að huga að því að tryggja varasambönd okkar við umheiminn. Ég lít á það sem skyldu stjórnvalda að hafa forgöngu um að tryggja sem best öryggi í samböndum við útlönd á sama hátt og samgönguráðuneytið hafði forystu um að stofna til samstarfsins um lagningu Farice. Ég mun á næstu dögum kalla eftir fulltrúum þeirra sem að þessu samráði þurfa að koma.

Það má segja að aldrei hafi skort vilja til að skara framúr en stundum hafi skort fjármagn. Fögur fyrirheit og metnaðarfull markmið skila litlu ef engir eru fjármunirnir til framkvæmda. En ríkisstjórnin hefur tryggt fjármagn til framkvæmda, fjármagn til að hrinda fjarskiptaáætlun í framkvæmd. Af söluandvirði Símans verður tveimur og hálfum milljarði varið til uppbyggingar í fjarskiptamálum. Nú rétt fyrir áramót samþykkti Alþingi frumvarp um fjarskiptasjóð, sem hefur það hlutverk að úthluta fjármagni til verkefna fjarskiptaáætlunar. Verkefna, sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna sem ætla má að ekki verði ráðist í á markaðsforsendum.

Grundvallaratriði í Fjarskiptaáætlun til 2010 er að landsmenn sitji allir við sama borð óháð búsetu. - Að Ísland verði altengt. – Gert er ráð fyrir því að þjónustugjöld einkarekinna fjarskiptafyrirtækja standi undir uppbyggingarkostnaði og rekstri þjónustunnar, nema í undantekningartilfellum þar sem stjórnvöld munu hlaupa undir bagga. Þar komi til framlög úr nýstofnuðum fjarskiptasjóði.

Fjarskiptasjóði er ætlað að styðja við uppbyggingu fjarskiptafyrirtækja á strjálbýlum svæðum og um leið skapa forsendur til þess að bjóða út þá þjónustu sem fjarskiptafyrirtækin hafa hingað til ekki treyst sér til að sinna. Með þeim fjármunum sem lagðir voru í fjarskiptasjóð er leiðin greið. Það er þó rétt að halda því til haga að með Fjarskiptaáætlun og stofnun Fjarskiptasjóðs er ekki verið að losa fjarskiptafyrirtækin undan ábyrgð á uppbyggingu sinna dreifikerfa, heldur aðstoða þau við að stíga skrefin sem þarf til að tryggja uppbyggingu um landið allt.

Það er útbreiddur misskilningur að stjórnvöld hafi með sölu Símans misst úr höndunum það eina tæki sem þau höfðu til að stuðla að uppbyggingu fjarskipta í landinu. Raunin var sú að eignarhald ríkisins á Símanum tafði fyrir frekari uppbyggingu. Óheimilt var, á grundvelli samkeppnissjónarmiða, að beita markaðsráðandi fyrirtæki í uppbyggingu á svæðum sem ekki voru talin geta staðið undir uppbyggingar- og rekstrarkostnaði fjarskiptakerfa. Má þar nefna sambönd inn á helstu ferðamannastaði og við náttúruperlur landsins þar sem árlega koma þúsundir ferðamanna sem vilja hafa aðgang að fjarskiptanetum.

Frá því að fjarskiptaáætlun var samþykkt síðastliðið vor hefur verið unnið að undirbúningi framkvæmda. Póst- og fjarskiptastofnun hefur verið falið það verkefni að sjá um undirbúning og halda utan um þau verk sem unnin verða í tengslum við fjarskiptaáætlun og styrkt úr fjarskiptasjóði. Og í dag get ég fært ykkur þau tíðindi að stefnt er að því að útboðsferli vegna þéttingar GSM sambandsins hefst í mars.

Góðir fundargestir

Að þessu sögðu held ég að með sanni sé hægt að segja að staða okkar í fjarskiptamálum sé góð. Það er þó alltaf þannig að tækninni fleygir fram og stöðnun er hættuleg. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að sætta okkur við neitt annað en að vera fremst í heiminum þegar kemur að fjarskiptamálum. Stefnan er skýr af hálfu stjórnvalda, leiðin er vörðuð í Fjarskiptaáætlun, fjármagnið er tryggt í Fjarskiptasjóðnum og framkvæmdir hafnar. Ég er sannfærður um það að markaðurinn lætur ekki sitt eftir liggja í því að halda okkur Íslendingum í fremstu röð á sviði fjarskiptanna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum