Hoppa yfir valmynd
28. júní 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 28. júní 2000. 2. tbl. 2. árg.

2 tbl. 2. árg.
Útgefið 28. júní 2000
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]

Réttur til að ljúka starfssambandi með uppsögn

Fyrir setningu starfsmannalaganna 1954 var litið svo á að það stjórnvald sem veitti starf, gæti án undangengins dóms vikið þeim starfsmanni frá sem það hafði veitt stöðuna. Væri lausnin endanleg hverjar svo sem ástæður hennar væru enda væri lausnarveitingunni hvorki áfátt að gerð né formi. Jafnframt var litið svo á að ríkisstarfsmanni sem vikið væri frá án sakar eða annarrar nægilegrar ástæðu, ætti rétt á bótum. Réttur forstöðumanns stofnunar til að ljúka einhliða starfssambandi ríkisstarfsmanns sem ráðinn hefur verið með gagnkvæmum uppsagnarfresti, er nú lögfestur í 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (stml). Jafnframt sækir regla þessi stoð í almennar reglur vinnuréttarins um stjórnunarrétt yfirboðara. Rétturinn til að slíta ráðningarsambandi með uppsögn er viðurkenndur sem einn grundvallarþáttur stjórnunarréttarins sem löggjöfin og kjarasamningar hvíla á. Tilgangur hans lýtur að þeim rétti stjórnandans að geta nýtt þá starfsmenn, sem að hans mati eru best til þess fallnir að sinna þeim verkefnum, sem um ræðir.

Frjálst mat

Réttur forstöðumanns til að ljúka starfssambandi einhliða hvílir á matskenndri ákvörðun forstöðumanns. Lög, þ.á.m. starfsmannalög, stjórnsýslulög og upplýsingalög, takmarka þennan rétt með vissum hætti. Forstöðumaður getur að sjálfsögðu dregið inn í matið öll lögmæt og málefnaleg sjónarmið sem máli skipta.

Það er ekki skilyrði að inn í matið sé dregin háttsemi starfsmannsins, hvort hún hafi verði ótilhlýðileg eða teljist brot á starfsskyldum hans.

Grundvöllur uppsagnar

Í 43. gr. stml. er ekki að finna frekari leiðbeiningar um hvaða nánari skilyrði þurfi að vera til staðar svo að uppsögn verði beitt. Af 1. og 2. málslið. 1. mgr. 44. gr. stml. leiðir, að grundvöllur uppsagnar getur annars vegar verið meint brot starfsmanns á starfsskyldum skv. 21. gr. stml. og hins vegar aðrar ástæður. Það skiptir verulegu máli að strax í upphafi sé ljóst hver sé grundvöllur uppsagnarinnar þar sem mismunandi reglur eiga við eftir því hvort ástæða hennar er brot á starfsskyldum eða aðrar ástæður. Hér er ekki ætlunin að rekja nánar aðrar ástæður uppsagnar. Verður það látið bíða betri tíma. Á hinn bóginn er ætlunin að víkja að afleiðingum þess að ekki er gætt réttra aðferða við uppsögn þegar grundvöllur hennar er brot á starfsskyldum og möguleikum forstöðumanns til þess að bæta úr annmörkum áður en uppsögn kemur til framkvæmda.

Annmarkar á uppsögn

Um það getur verið að ræða að rangur aðili hafi sagt starfsmanni upp, að ekki hafi verið gætt réttra málsmeðferðarreglna, áminning hafi ekki verið veitt eða hún reynst ófullnægjandi. Viðurkennt er að við undirbúning áminningar á starfsmaður rétt á að koma að sjónarmiðum sínum áður en hún er veitt. Slíkur réttur starfsmanns er einnig til staðar áður en endanleg ákvörðun um uppsögn er tekin. Oftast lýtur gagnrýni starfsmanns að því að málið sé ekki nægilega upplýst, staðreyndir séu ekki þær sem lýst er eða að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þær. Við slíkar aðstæður hefur forstöðumaður vissulega möguleika til þess að bregðast við andmælum starfsmannins og bæta úr hugsanlegum annmörkum. Af 2. mgr. 44. gr. stml. leiðir ennfremur að fyrirfram er forstöðumanni ekki skylt að rökstyðja ástæður uppsagnar. Ef starfsmaður á hinn bóginn óskar eftir slíku, ber forstöðumanni að rökstyðja ákvörðun sína. Líta verður svo á að við undirbúning rökstuðnings hafi forstöðumaður tækifæri til að virða málið í heild sinni á ný og bregðast við þeim röksemdum sem starfsmaður hefur komið fram með, hafi það ekki þegar verið gert.

Á starfsmaður rétt á að fá starf sitt aftur ?

Bæti forstöðumaður ekki úr annmörkum á málsmeðferð sem hann hefur haft tækifæri til, getur það leitt til þess að uppsögnin verði dæmd ólögmæt. Í nýlegum dómum Hæstaréttar hefur einnig verið viðurkennt að starfsmanni sem sagt hefur verið upp með ólögmætum hætti, geti gert kröfu um það að uppsögn verði dæmd ógild. Til þess að svo geti orðið þurfa annmarkarnir að vera verulegir, svo sem að áminning hafi verið ófullnægjandi eða rangur aðili tekið ákvörðunina. Verði uppsögn dæmd ógild, vaknar sú spurning hvort það leiði til þess að sama réttarástandi verði komið á og gilti fyrir uppsögnina, þ.e. hvort starfsmaðurinn eigi rétt á að taka við starfi sínu aftur. Starfsmannalögin geyma ekki slíkan rétt til handa starfsmanni. Ef forstöðumaður getur bætt úr annmörkunum, t.d. með því að afla nauðsynlegra viðbótarupplýsinga eða veita fullnægjandi andmælarétt, er ljóst að hann getur tekið nýja lögmæta ákvörðun. Sé á hinn bóginn ekki unnt að bæta úr annmörkunum, leiðir það af þeim rétti forstöðumanns að geta skipulagt starfsemi stofnunar sinnar og starfsmannahald að honum er ekki skylt að taka við starfsmanninum aftur. Þau sjónarmið sem hér búa einkum að baki eru þau að ekki eru lengur forsendur fyrir áframhaldandi ráðningu. Brostið er hollustu- og trúnaðarsamband og tillitið til starfsfriðar á vinnustað og samstarfs við aðra starfsmenn gera það ómögulegt að starfsmaðurinn komi til starfa á ný. Hlutaðeigandi á því ekki rétt á að taka við starfi sínu aftur eða fá sig dæmdan inn í það á ný. Þessi niðurstaða styðst ennfremur við dómaframkvæmd hér á landi. Samkvæmt þessu má halda því fram með nokkuð gildum rökum að þó svo að uppsögn hafi verið dæmd ógild, standi hún engu að síður þar sem starfsmaðurinn á ekki rétt á starfinu aftur en í staðinn kann hann að eiga rétt á skaðabótum. Þó svo að réttur forstöðumanns til að segja starfsmanni upp störfum sé ríkur er engu að síður mikilvægt að vandað sé til málsmeðferðar og að nýtt séu þau tækifæri sem gefast til þess að bæta úr hugsanlegum annmörkum.

___________________

Kjarasamningar - aðlögunarsamningar

Flest stéttarfélög opinberra starfsmanna sömdu í síðustu kjarasamningum um breytt launakerfi og er gerð aðlögunarsamninga lokið. Sá misskilningur virðist vera nokkuð víða að gera þurfi nýja aðlögunarsamninga í kjölfar næstu kjarasamninga. Svo er ekki því að starf aðlögunarnefnda var einungis að semja um stofnanaþátt hins nýja launakerfis eða að útfæra forsendur launasetningar hjá hverri stofnun.

Þá ber þess að gæta, að aðlögunarsamningar eru hluti af kjarasamningum og stofnanir eru bundnar af þeim. Það er því t.d. ekki heimilt að færa starf sem flokkast samkvæmt skilgreiningu undir launaramma B, í launaramma C. Komi upp sú staða að nauðsynlegt kunni að vera að breyta forsendum röðunar starfa sem um hefur verið samið í aðlögunarsamningum, er það hlutverk samstarfsnefnda að fjalla um þær breytingar eins og að fjalla um þau ágreiningsmál sem upp kunna að koma við framkvæmd kjarasamninga.

Þessi regla er þó ekki án undantekninga því að í nokkrum samningum aðlögunarnefnda eru endurskoðunarákvæði, svo sem um að heimilt sé að endurskoða meginreglur um grunnröðun og sitthvað fleira. Það eru samstarfsnefndirnar sem annast slíka endurskoðun. Séu endurskoðunarákvæði í samkomulagi stofnunar sem hefur umboð til starfrækslu eigin samstarfsnefndar, annast sú nefnd endurskoðunina. Það að stofnun hafi umboð til starfrækslu eigin samstarfsnefndar þýðir að stofnunin fer með framkvæmd kjarasamninga í umboði fjármálaráðherra og afgreiðir laun starfsmanna sinna sjálf. Hafi stofnun ekki slíkt umboð, getur hún skv. sérákvæðum í miðlæga kjarasamningnum kvatt aðlögunarnefnd saman á ný. Það er þá gert í þeim tilgangi að gera tillögur um breytingar á forsendum stofnunarinnar til viðeigandi samstarfsnefndar sem ein getur breytt aðlögunarsamningi. Í þeim tilvikum er samstarfsnefndin hjá Ríkisbókhaldi launaafgreiðslu sem annast framkvæmd kjarasamninga og launaafgreiðslu allra þeirra stofnana sem ekki hafa sjálfar öðlast heimild til að fara með þennan þátt sjálfar.

Tilkynning um vinnuslys

Í 7. kafla kjarasamninga ríkisstarfsmanna er fjallað um tryggingar, bætur vegna tjóns á persónulegum munum sem og útgjöldum sem starfsmenn verða fyrir af völdum vinnuslysa. Hér verður einkum fjallað um tilkynningu vinnuslysa. Á stofnunum hvílir sú skylda að tilkynna um vinnuslys svo fljótt sem auðið er, annars vegar til slysatryggingadeildar Tryggingastofnunar ríkisins og hins vegar til Vinnueftirlits ríkisins. Alvarleg slys skal þó tilkynna Vinnueftirlitinu innan sólarhrings, sjá 1. gr. reglnanna hér á eftir. Um báðar stofnanirnar gildir að þær gefa út sérstök tilkynningaeyðublöð sem gott er að eiga við höndina. Hægt er að nálgast eyðublöð Vinnueftirlitsins á vefsíðu þess. Auk slysa á vinnustað skal einnig tilkynna um slys sem verða á beinni leið til og frá vinnu. Bílslys á leið til og frá vinnu eru þó undanþegin tilkynningarskyldu gagnvart Vinnueftirlitinu.

Síðar verður fjallað nánar um þann þátt sem snýr að slysatryggingadeild Tryggingastofnunar en aðeins skal nefnt hér að á meðan starfsmaður nýtur launa vegna vinnuslyss, á launagreiðandi rétt á greiðslu dagpeninga vegna hans frá deildinni. Eftir að réttur til launa tæmist, greiðast dagpeningarnir til starfsmannsins.

Hér á eftir fara reglur nr. 612/1989, um tilkynningu vinnuslysa, og eru forstöðumenn og launagreiðendur hvattir til að kynna sér efni þeirra. Bent skal á að til vinnuslysa skv. reglunum teljast líka slys á beinni leið til og frá vinnu, t.d. ef starfsmaður dettur í hálku, hvort sem það er við heimili hans eða vinnustað eða á leiðinni þar á milli.

Reglur um tilkynningu vinnuslysa nr. 612/1989

Sbr. 7. kafla kjarasamninga, um tryggingar

1. gr.

1.1 Komi fyrir slys eða eitrun á vinnustað, sbr. 3. mgr. 1. gr., skal atvinnurekandi eða fulltrúi hans tilkynna það lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins símleiðis eða með öðrum hætti svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan sólarhrings.

1.2 Óheimilt er að breyta aðstæðum á slysstað, nema vegna björgunaraðgerða, fyrr en vettvangskönnun hefur farið fram.

1.3 Slys eða eitrun eru tilkynningarskyld skv. 1. mgr. ef ætla má að áverkinn sem af þeim hlýst, geti valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, svo sem ef slasaði missir útlim eða hluta af útlim, beinbrotnar, fer úr liði, fær meiri háttar sár, missir meðvitund, hlýtur skemmdir á taugavef, verður fyrir alvarlegu augnslysi, innvortis meiðslum eða eitrun.

2. gr.

2.1 Slys eða eitrun sem valda fjarveru frá vinnu í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð, og ekki falla undir 1. gr., skulu tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins á þar til gerðum tilkynningarblöðum svo fljótt sem kostur er og ekki síðar en innan 14 daga.

3. gr.

3.1 Vinnueftirlit ríkisins skal taka á móti tilkynningum allan sólarhringinn um slys eða eitrun skv. 1. mgr. 1. gr.

4. gr.

4.1 Brot gegn reglum þessum varða sektum, nema þyngri refsins liggi við að öðrum lögum. Sektir renna í ríkissjóð. Með mál út af brotum á reglum þessum fer að hætti opinberra mála.

4.2 Reglur þessar eru settar skv. 81. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og öðlast gildi 1. janúar 1990.

___________________

Ýmislegt fréttnæmt

Vor í lofti

Þann 4. maí sl. héldu Ríkisbókhald og fjármálaráðuneytið vel heppnaða ráðstefnu undir heitinu ?Vor í lofti". Ráðstefnuna áttu kost á að sækja allir þeir sem annast fjármál ríkisins og stofnana þess og sóttu hana u.þ.b. 350 manns. Komust þó færri að en vildu. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, setti ráðstefnuna og síðan fjallaði Gunnar H. Hall, ríkisbókari, um ný áform og framtíðarsýn í fjárlagakerfum ríkisins. Að því loknu voru fluttir 24 fyrirlestrar í fjórum sölum þannig að ávallt voru fjórir fyrirlestrar í gangi á sama tíma. Ráðstefnugestir völdu hver um sig þann fyrirlestur sem þeir vildu helst hlýða á. Í fyrirlestrunum var fjallað um margvíslega hluti sem tengjast fjármálum, fjármálakerfum og starfsmannamálum ríkisins.

Fyrirlestra ráðstefnunnar er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins.

___________________

Ríkisstofnun til fyrirmyndar

Þann 25. maí sl. afhenti Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Landgræðslu ríkisins viðurkenningu sem ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2000. Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem slík viðurkenning er veitt og hlaut Kvennaskólinn í Reykjavík hana árið 1996 og Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Reykjanesi árið 1998.

___________________

Frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana var haldinn í Reykjavík 12. maí sl. Formaður félagsins, Magnús Jónsson, flutti skýrslu stjórnar og greindi m.a. frá því að fráfarandi stjórn hefði á síðasta starfsári einkum beitt sér fyrir því að fram færi umræða um stöðu ríkisstofnana og forstöðumanna þeirra í stjórnkerfi landsins. Taldi formaður að nokkur árangur hefði náðst og umræður og skoðanaskipti á fundum og ráðstefnu félagins hefðu verið með ágætum. Þá væri unnið að stækkun félagsins og forstöðumönnum ríkisstofnana sem staðið hefðu fyrir utan félagið, hefði verið boðin innganga. Því mætti vænta þess að töluverð fjölgun yrði í félaginu.

Gestur fundarins var Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og ræddi hann um væntanlega kjarasamninga opinberra starfsmanna. Erindi Gunnars var stórfróðlegt og kom m.a. fram hjá honum mat hans á stöðu samningagerðar við opinbera starfsmenn. Taldi hann að ýmis réttindamál yrðu fyrirferðamikil í samningsgerðinni í haust og taldi að samningsgerðin yrði fyrst og fremst miðlæg enda aðstæður öðruvísi nú en fyrir þremur árum. Hann ræddi einnig um aðlögunarsamninga, hvernig gerð þeirra hefði gengið fyrir sig og um reynsluna af þeim. Fjöldi fyrirspurna og ágætar umræður voru að loknu erindi Gunnars.

Magnús Jónsson veðurstofustjóri var endurkjörinn formaður en aðrir í stjórn og varastjórn voru kosnir Skúli Eggert Þórðarson skattrannnsóknarstjóri, Vilhjálmur Lúðvíksson framkvæmdastjóri Rannís, Guðrún Kvaran forstöðumaður Orðabókar Háskólans, Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu, Ingibjörg Ásgeirsdóttir forstöðumaður Námsgagnastofnunar, Sigurður Guðmundsson landlæknir og Óli H. Þórðarson framkvæmdastjóri Umferðarráðs.

Félag forstöðumanna ríkisstofnana.


___________________

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum