Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 20. febrúar 2015

Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana, 1. tölublað 17. árgangs, er komið út á vef ráðuneytisins.

Nýtt efni á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins

  • Kjaraþróun starfsmanna ríkisins í samanburði við almennan markað
  • Forstöðumannalisti
  • Störf sem undanþegin eru verkfallsheimild
  • Dómar í starfsmannamálum árið 2014
  • Stjórnendur í ríkisrekstri telja sig njóta mikils sjálfstæðis í starfi – niðurstöður COCOPS skýrslunnar
  • Nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015
  • Græn skref í ríkisrekstri

Kjarasamningar 2015

Á árinu 2015 losna kjarasamningar 98 stéttarfélaga við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Samninganefnd ríkisins leggur áherslu á í viðræðum sínum við stéttarfélögin að kjarasamningar byggi á raunsæju mati á efnahagslegum forsendum, stuðli að efnahagslegum stöðugleika, styðji þróun kaupmáttar og ýti undir þróun í átt að einum vinnumarkaði. Þá er einnig lögð áhersla á að kjarasamningar verði einfaldaðir, stuðli að jöfnum launum kvenna og karla og að launakjör byggi í auknum mæli á árangri og frammistöðu.

Hér að neðan er yfirlit yfir þá kjarasamninga sem losna á næstunni:

Gildistími til: Fjöldi
28. febrúar 2015 24 Félög í BHM
30. apríl 2015 74 Félög í ASÍ, BSRB og fl.
    98  

Kynjabókhald forstöðumanna 2015

Í janúar 2015 voru forstöðumenn 160 og hefur þeim fækkað um 9 á síðastliðnu ári. Sameining heilbrigðisstofnana lauk formlega 1. október 2014 og við það fækkar heilbrigðisstofnunum velferðarráðuneytisins, en stofnanir þessar sameinast í Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Í innanríkisráðuneyti fækkar sýslumannsembættum í ársbyrjun. Sýslumannsembætti voru áður 24 talsins, en eru frá janúar 2015 níu sýslumennsembætti og níu lögreglustjóraembætti.

Taflan sýnir fjölda forstöðumanna (þ.m.t. ráðuneytisstjóra) eftir ráðuneytum og hlutfall kvenna eftir hverju ráðuneyti fyrir sig.

  Karlar Konur Samtals Ár 2015 Ár 2014
Forsætisráðuneyti 2 4 6 67% 67%
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 10 3 13 23% 23%
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 10 3 13 23% 15%
Innanríkisráðuneyti 21 13 34 38% 29%
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 27 23 50 46% 44%
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 11 4 15 27% 13%
Utanríkisráðuneyti 2 0 2 0% 0%
Velferðarráðuneyti 19 8 27 30% 28%
102 58 160 36% 31%

Konur eru samtals 58 talsins og gerir það 36% af fjölda forstöðumanna, en var 31% árið á undan. Í súluritinu má sjá þróun síðustu ára.

Kyn forstöðumanna

Meðalaldur forstöðumanna er 55,4 ára, konur eru 52,6 ára og karlar eru 57,0 ára. Meðalaldur ríkisstarfsmanna í heild er ívið lægri eða 46,3 ára, aldur kvenna er 45,7, en aldur karla er um 47,4 ára í janúar 2015.

Aldur forstöðumanna

Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals

Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins, ÍST 85:2012, hefur nú staðið yfir í rúmt ár. Enn eru ellefu stofnanir þátttakendur í verkefninu, tvö sveitarfélög og fjögur fyrirtæki. Ein stofnun hefur sagt sig frá verkefninu og önnur bæst við. Um þrjár stofnanir eru mjög langt á veg komnar og ættu að geta farið í gegnum vottunarferli á þessu ári. Þá hafa verið haldnar þrjár vinnustofur með verkefnahópnum þar sem farið var yfir starfaflokkun, launagreiningu og skráningu í Orra.  Starfsmennt mun hafa frumkvæði að því að þróa námsefni með sérfræðingum fjármála- og efnahagasráðuneytisins og öðrum sérfræðingum, halda námskeiðin og vista námsefnið miðlægt. Stefnt er að því að þessar vinnustofur verði haldnar á vordögum.

Á vegum velferðarráðuneytisins er jafnframt verið að undirbúa  námskeið fyrir úttektaraðila í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Verður það haldið hjá Endurmenntun á vordögum. Nánari upplýsingar um aðgerðir í launajafnrétti og þ.m.t. tilraunaverkefnið um innleiðingu jafnlaunastaðals er að finna á vef velferðarráðuneytisins. Jafnlaunastaðalinn er hægt að kaupa á síðu staðlaráðs.

Ráðgjafarþjónusta KMR

Kjara- og mannauðssýsla  ríkisins hefur m.a. það hlutverk að veita ráðuneytum og stofnunum ráðgjöf tengda starfsmannamálum. Í janúar 2014 voru skráðar í kerfi KMR 45 fyrirspurnir um starfsmannamál. Algengast var að fyrirspurnirnar vörðuðu laun og launakjör starfsmanna, hvernig standa ætti að ráðningu í starf, breytingar á störfum og verksviði starfsfólks og uppsagnir. Sé það yfirlit borið saman við janúar 2015 má sjá að fyrirspurnum fækkaði lítillega og  algengustu fyrirspurnirnar snúa enn að launum og launakjörum, breytingum á störfum og verksviði en við bætist að veikindaréttur og fyrirspurnir um tímabundnar ráðningar verða meira áberandi.

Kjara- og mannauðssýslan hvetur forstöðumenn stofnana og aðra starfsmenn sem hafa umsjón með starfsmannamálum að leita sér ráðgjafar með úrlausn vafamála með því að senda fyrirspurnir á tölvupóstfangið, [email protected].

Kjaraþróun starfsmanna ríkisins í samanburði við almennan vinnumarkað

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gert  samanburð á launaþróun starfsmanna ríkisins við launaþróun á almennum vinnumarkaði. Hér má sjá niðurstöður ráðuneytisins.

Forstöðumannalisti

Birtur hefur verið nýr listi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja í Lögbirtingablaðinu. Fyrir 1. febrúar ár hvert sker fjármálaráðherra úr því hvaða starfsmenn teljast forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja skv. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og birtir lista yfir þá í Lögbirtingablaði.

Þegar listi þessi er skoðaður þarf ávallt að hafa í huga að hann er ekki tæmandi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Embættismenn eru taldir upp í 1-13 tölulið 1. mgr. 22. gr. laganna. Í 13. tölulið segir að fjármálaráðherra skeri úr hvaða starfsmenn falli undir þann lið. Það eru aðeins þeir sem birtir eru á forstöðumannalistanum. Aðrir embættismenn eru sérstaklega tilgreindir í lögunum.

Störf sem undanþegin eru verkfallsheimild

Birt hefur verið auglýsing nr. 70/2015 um skrá yfir störf hjá stofnunum ríkisins sem undanþegin eru verkfallsheimild sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1996 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Dómar í starfsmannamálum árið 2014

Á árinu 2014 voru kveðnir upp 22 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu og stofnunum þess, fjórir hæstaréttardómar, fimmtán héraðsdómar og þrír félagsdómar. Þegar skoðað er hvaða ágreiningsatriði um var deilt í dómsmálum ársins 2014 má sjá að mest bar á málum er vörðuðu uppsagnir vegna hagræðinga, ágreiningsatriði tengd launakjörum og lausn frá störfum vegna heilsubrests.

Stjórnendur í ríkisrekstri telja sig njóta mikils sjálfstæðis í starfi

- niðurstöður COCOPS könnunarinnar kynntar

Þann 10. febrúar sl. var haldinn sameiginlegur morgunverðarfundur fjármála- og efnahagsráðuneytis, félags forstöðumanna og stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þar sem  kynntar voru niðurstöður úr COCOPS könnun. Nánari upplýsingar um niðurstöðurnar og erindi framsögumanna má finna á vef ráðuneytisins.

Nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2015

Geðheilsustöðin í Breiðholti hlaut nýsköpunarverðlaunin árið 2015 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu.

Finna má nánari upplýsingar um öll verkefnin sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna í ár ásamt öðru fróðlegu efni um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á vefsíðunni nyskopunarvefur.is

Græn skref í ríkisrekstri

Græn skref í ríkisrekstriMetnaðarfullar og framsýnar stofnanir geta nú nýtt sér hvatakerfið Græn skref í ríkisrekstri til að innleiða stefnu ríkisins um grænan ríkisrekstur. Verkefnið er byggt á vel heppnuðum grænum skrefum Reykjavíkurborgar, sem góðfúslega gaf leyfi fyrir því að kerfið yrði aðlagað og notað með þessum hætti. Tólf stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis tóku þátt í að þróa verkefnið sem var formlega hleypt af stokkunum í nóvember s.l. Þegar eru átján stofnanir skráðar til leiks og fjórar þeirra hafa náð fyrsta græna skrefinu.

Grænu skrefin eru einföld og aðgengileg leið fyrir opinbera aðila að vinna markvisst að umhverfismálum. Við innleiðingu grænna skrefa er einföldum gátlistum fylgt og eru veittar viðurkenningar fyrir hvert grænt skref sem tekið er. Hvetjum ykkur til að skrá ykkur á vefsíðunni www.graenskref.is.

Grænt bókhald – Auðveld leið til að skoða umhverfisáhrif stofnana

Græn skref í ríkisrekstri myndritGrænt bókhald er efnisbókhald þar sem teknar eru saman upplýsingar um ýmis konar innkaup og rekstur sem hefur umhverfisáhrif. Meginmarkmið með grænu bókhaldi er að fá yfirsýn yfir magntölur í rekstri og greina tækifæri til að draga úr umhverfisáhrifum. Á vef vistvænna innkaupa má nú sjá niðurstöður úr grænu bókhaldi þeirra stofnana sem sendu inn bókhaldsupplýsingar fyrir árin 2011- 2013 og leiðbeiningar um gerð Græns bókhalds.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum