Hoppa yfir valmynd
9. mars 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

83% íslenskra heimila eru nettengd

Nærri níu af hverjum tíu nettengdum heimilum á Íslandi notuðu hraðvirka tengingu í fyrra en 62% í löndum Evrópusambandsins. Að meðaltali voru tölvur á 84% íslenskra heimila og 83% heimila voru tengd netinu árið 2006. Það ár höfðu 62% heimila í ESB-löndum tölvu og 51% voru tengd netinu.

Þetta kemur fram í nýju hefti Hagtíðinda sem birt er á vefsíðu Hagstofunnar. Hagstofur á Evrópska efnhagssvæðinu hafa um nokkurra ára skeið kannað notkun heimila, einstaklinga og fyrirtækja á upplýsingatækni. Tölurnar sem birtast í Hagtíðindum eru að mestu leyti fengnar úr gagnabanka Eurostat um upplýsingasamfélagið.

Breiðbandstengingum hefur fjölgað ört hérlendis hin síðustu ár eins og í öðrum Evrópulöndum. Í aðildarlöndum ESB voru á síðasta ári að meðtaltali sex af hverjum tíu nettengdum heimilum með hraðvirka tengingu við netið. Hlutfallið var hæst í Belgíu, 89%, en lægst, 17% í Grikklandi. Hérlendis var hlutfallið 87%.

Þá kemur fram í samantekt Hagstofunnar að fyrirtæki í Evrópulöndum hafa nær öll tekið tölvur og netið í þjónustu sína. Milli 89 og 100% fyrirtækja notuðu tölvur og 75-99% voru tengd netinu. Árið 2005 keypti um þriðjungur fyrirtækja á Íslandi vörur og þjónustu um netið og fimmtungur fyrirtækja seldi þjónustu með þeim hætti. Í aðildarlöndum ESB keypti fjórða hvert fyrirtæki vörur og þjónustu um netið og um 15% fyrirtækja þar seldu eigin vörur og þjónustu á þann máta.

Mun algengara er að íbúar í norðvestur hluta Evrópu en aðrir Evrópubúar noti tölvu og netið og á það sérstaklega við Norðurlöndin og Holland. Um og yfir 80% íbúa þessara landa á aldrinum 16-74 ára notuðu tölvu og netið en hlutfallið er hæst á Íslandi, 88%. Mun algengara er að yngra fólk en þeir sem eldri eru hafi tileinkað sér notkun netsins. Meirihluti norrænna einstaklinga yngri en 45 ára eða 84-96% notar netið að staðaldri en í Evrópusambandslöndum í heild er hlutfallið hæst meðal 16-24 ára eða 73%.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum