Hoppa yfir valmynd
9. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Gerð hafnar í Bakkafjöru vel möguleg

Stýrihópur sem samgönguráðherra skipaði í fyrrasumar til að fjalla um mögulega hafnargerð í Bakkafjöru vegna Vestmannaeyjaferju hefur skilað skýrslu og telur slíka höfn vel mögulega. Skýrslan var kynnt fyrir ríkisstjórn í morgun.

Að baki niðurstöðunni liggja frumrannsóknir Siglingastofnunar, áhættumat fyrir siglingaleiðina, þarfagreining vegna stærðar ferju, mat á áhrifum starfseminnar á samfélagið og mat erlendra aðila á niðurstöðum Siglingastofnunar.

Í lokakafla skýrslunnar segir stýrihópurinn að niðurstöður rannsókna á hafnargerð í Bakkafjöru og ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og Bakkafjöruhafnar séu mjög jákvæðar. Þar segir einnig: ,Framkvæmdin er tæknilega möguleg, kostnaður er innan hóflegra marka og áhrifin af framkvæmdinni eru jákvæð bæði fyrir Vestmannaeyinga og íbúa nágrannasveitarfélaganna á landi. Það er álit Stýrihóps um Bakkafjöruhöfn, að gerð ferjuhafnar í Bakkafjöru sé góður kostur í almenningssamgöngum milli Vestmannaeyja og lands um alllanga framtíð. Leggur stýrihópurinn til við samgönguráðherra, að ákveðið verði að ráðast í gerð Bakkafjöruhafnar og smíði nýrrar ferju, þannig að hefjast megi fljótlega handa við frekari undirbúning hafnargerðarinnar í samræmi við tímaáætlun stýrihópsins.”

Í tímaáætluninni kemur meðal annars fram að á þessu ári yrði ráðist í mat á umhverfisáhrifum, hugsanleg jarðakaup, frumhönnun og annan undirbúning, á næsta ári verði unnið við nauðsynlega vegalagningu, grjótnám og gerð grjótgarðs sem standi fram á árið 2009 en þá verði einnig hafist handa við sjálfa bryggjugerðina og nauðsynleg innkaup. Gert er ráð fyrir að höfnin verði tilbúin árið 2010. Jafnramt er gert ráð fyrir að hönnun ferju fari fram árið 2008 og smíði hennar standi fram á árið 2010. Gert er ráð fyrir að ferjuútboðið verði einkaframkvæmd.

Opnaður verður tengill hér á síðunni á sérstakan upplýsingavef um málefni Bakkafjöru og þar verður að finna ýmsar skýrslur sem unnar hafa verið í tengslum við verkefnið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum