Hoppa yfir valmynd
25. maí 2004 Dómsmálaráðuneytið

Nýjar leiðir vegna afbrota ungmenna

Þann 11. september 2003 skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra nefnd til að fara yfir og fylgjast með tilraunaverkefninu Hringnum, sem er samstarfsverkefni lögreglunnar í Reykjavík og Miðgarðs um nýjar leiðir vegna afbrota ósakhæfra ungmenna. Nefndin hefur nú lokið störfum og kynnti ráðherra skýrslu nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Fréttatilkynning
Nr. 5/2004

Þann 11. september 2003 skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra nefnd til að fara yfir og fylgjast með tilraunaverkefninu Hringnum, sem er samstarfsverkefni lögreglunnar í Reykjavík og Miðgarðs um nýjar leiðir vegna afbrota ósakhæfra ungmenna. Nefndinni var einnig falið að leggja mat á hvort rétt væri að taka upp sambærileg úrræði fyrir sakhæf ungmenni og gera þá í því sambandi tillögur að lagabreytingum. Í nefndina voru skipuð Erna Sigfúsdóttir, lögreglufulltrúi hjá embætti ríkislögreglustjóra, Egill Stephensen, saksóknari hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs, fyrir hönd Félagsþjónustunnar í Reykjavík og Ragnheiður Harðardóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara. Formaður nefndarinnar var skipaður Jón Þór Ólason, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Nefndin hefur nú lokið störfum og kynnti ráðherra skýrslu nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hefur nefndin sérstaklega horft til úrræðis er nefnt hefur verið sáttaumleitun og byggir á hugmyndafræði um uppbyggilega réttvísi (Restorative Justice). Með sáttaumleitun í sakamálum er er átt við þá aðferð að leiða brotamann og brotaþola saman í því skyni að koma hinum brotlega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft, fá hann til að friðmælast við brotaþola og skapa þar með grundvöll fyrir þá að komast að samkomulagi um málalok. Telur nefndin marga kosti felast í úrræðinu. Í fyrsta lagi má nefna að úrlausn minni háttar mála er færð til einstaklinganna sjálfra, sem gefur möguleika á skjótvirkari meðferð mála frá því sem nú er. Á sama tíma er ákveðinn þungi tekinn af ákæruvaldinu og dómstólum. Í öðru lagi er réttarstaða brotaþola styrkt. Í þriðja lagi má nefna að samleiðing brotamanns og brotaþola til að ljúka málum með þessum hætti er líklegri til að hafa sérstök varnaðaráhrif á brotamann en hinar hefðbundnu aðferðir. Í fjórða lagi er brotaþola og brotamanni fullkomlega frjálst að ákveða hvernig þeir vilja ljúka málinu, svo framarlega sem samningurinn er sanngjarn fyrir báða aðila. Að lokum telur nefndin að úrræðið muni sérstaklega hafa uppeldisleg áhrif á unga brotamenn og vel til þess fallið að leiða þau af braut afbrota.

Á grundvelli tillagna nefndarinnar mun dómsmálaráðherra stefna að því að sáttaumleitun verði tekin upp í íslenskt réttarkerfi enda hafa Íslendingar nokkra sérstöðu meðal vestrænna þjóða að því leyti að sáttaumleitun er ekki meðal þeirra úrræða sem til greina koma við að ljúka sakamálum. Verður sáttaumleitun tekin upp sem tilraunaverkefni í málum sakhæfra einstaklinga auk þess sem boðin verður sáttaumleitun fyrir ósakhæfa gerendur og byggt á þeirri reynslu sem er til staðar í Miðgarði (Hringurinn). Sett verður á laggirnar sáttaráð sem fái mál send til sáttameðferðar af hálfu ákæruvaldins. Í upphafi er gert ráð fyrir að einungis minniháttar mál komi til kasta sáttaráðs. Skipuð verður þverfagleg nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins sem hefur eftirlits- og samræmingarhlutverk með verkefninu auk þess sem að því skal stefnt að ríkissaksóknari gefi út almenn fyrirmæli/leiðbeiningar til lögreglustjóra um sáttaumleitun.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,

25. mai 2004.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér. PDF-skjal 343kEfnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira