Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2015 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Skýrsla um aðkomu einkaaðila að samgönguframkvæmdum komin út

Komin er út skýrsla starfshóps sem fyrrverandi innanríkisráðherra skipaði til að skoða aðkomu einkaaðila í umfangsmiklum samgönguverkefnum og fjármögnun þeirra. Starfshópurinn kannaði nokkur verkefni með tilliti til mögulegrar einkaframkvæmdar og setur hann í skýrslunni fram tillögur um hvort og hverjar þeirra gætu fallið undir þá leið.

Í starfshópnum áttu sæti: Helga Valfells, framkvæmdastjóri sem jafnframt var formaður, Erlendur Magnússon framkvæmdastjóri, Jóhanna Harpa Árnadóttir verkfræðingur, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Þorsteinn Rúnar Hermannsson, verkfræðingur hjá Mannviti. Með hópnum starfaði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu og sérstakur fulltrúi ráðherra í starfshópnum.

Hópnum var falið að setja fram lista yfir verkefni sem koma til álita fyrir aðkomu einkaaðila og eftir atvikum forgangsraða og fækka verkefnum. Hópurinn kannaði sérstaklega verkefni sem Vegagerðin hefur talið koma til greina í einkaframkvæmd í samgöngum.

Umfangsmesta verkefnið sem starfshópurinn kannaði var gerð Sundabrautar, rekstur hennar og viðhald. Var gerð frumgreining á fýsileika verkefnisins fyrir einkaaðila. Benda niðurstöður hennar til þess að sé Sundabraut skoðuð sem framkvæmd í einum áfanga sé mögulega hægt að fjármagna brautina að fullu með veggjöldum. Leggur hópurinn til við ráðherra að útboðsrammi verði útbúinn og kannað hvaða aðilar séu hugsanlega reiðubúnir að koma að verkefninu í einhvers konar undirbúningsfélagi með ríkinu.

Önnur samgönguverkefni sem starfshópurinn skoðaði voru smíði Vestmannaeyjaferju, breyting Hringvegar við Blönduós og við Varmahlíð, svo og breyting á Hringvegi við Selfoss, Borgarnes og um Grunnafjörð, nýr vegur um Kjöl, Axarvegur, Fjarðarheiðargöng, Súðavíkurgöng og Lónsheiðargöng.

Skýrslan var afhent Ólöfu Nordal innanríkisráðherra nýverið og mun ráðherra í framhaldinu meta hvernig farið verður með tillögurnar sem þar er að finna.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira