Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2015 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Opnun tilboða í hringtengingar ljósleiðara á Vestfjörðum og Snæfellsnesi

Tilboð í hringtengingar ljósleiðara á Vestfjörðum og Snæfellsnesi voru opnuð í dag hjá Ríkiskaupum. Þrjú tilboð bárust í hvort verk. Öll tilboðin gera ráð fyrir verklokum árið 2015. Hagkvæmustu tilboðin eru vel undir kostnaðaráætlun.

Auglýst var í lok febrúar eftir markaðsáformum fjarskiptafyrirtækja um að ljúka umræddum ljósleiðarahringtengingum án opinberra styrkja. Engin tilkynning barst um slík áform en fjórir aðilar tilkynntu hins vegar um áhuga á að taka verkefnið að sér gegn opinberum styrk. Fjarskiptasjóður ákvað því að styrkja framkvæmdirnar í opnu útboðsferli. 

Ríkiskaup buðu verkin út fyrir hönd innanríkisráðuneytisins og fjarskiptasjóðs í þeim tilgangi að koma á hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Meginmarkmiðið er að efla fjarskiptaöryggi á þessum landsvæðum.

Hringtenging Vestfjarða – fyrri verkhluti

Fyrri verkhluti af tveimur á Vestfjörðum snýst um tengingu frá Brú í Hrútafirði að Hólmavík. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 131.000.000 kr.
Eftirfarandi tilboð bárust:

 Míla ehf.    56.280.808 kr.     
 Orkufjarskipti hf.   92.000.000 kr.    
 Tengir hf.  123.000.000 kr.    

Tenging frá Hólmavík að Súðavík verður boðin út síðar á árinu á sama hátt og miðað er við að hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum verði lokið fyrir árslok 2016. Skilgreining verkhluta tók mið af áætlunum Orkubús Vestfjarða sem óskaði eftir að samnýta jarðvinnuframkvæmdina fyrir lagningu á rafstreng.

Hringtenging Snæfellsness

Á Snæfellsnesi er um að ræða tengingu frá Hörðubóli að botni Álftafjarðar. Þannig kemst á hringtenging ljósleiðara á Snæfellsnesi. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 86.000.000 kr.
Eftirfarandi tilboð bárust:

 Orkufjarskipti hf.  66.000.000 kr.     
 Míla ehf.   73.759.056 kr.    
 Tengir hf.  87.000.000 kr.    

Mat tilboða

Tilboð verða nú metin og stefnt er að samningagerð og undirritun á næstu vikum.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum