Hoppa yfir valmynd
22. september 2014 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin tekur fyrir stöðuskýrslu um einfaldara regluverk

Á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudaginn var tekin fyrir stöðuskýrsla um einföldun gildandi regluverks. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að einfalda regluverk og er það verkefni sérstaklega tekið upp í núverandi stjórnarsáttmála. Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin 24. maí 2013 aðgerðaáætlun um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið.

Í samræmi við aðgerðaáætlunina hafa forsætisráðuneytið og ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur tekið saman stöðuskýrslu um einföldun gildandi regluverks og gefið út handbók fyrir stjórnvöld. Í stöðuskýrslunni er farið yfir reynsluna af starfi ráðuneytanna við einföldun regluverks og hún borin saman við reynslu annarra þjóða. Þá eru settar fram tillögur í átta liðum um forgangsverkefni á þeim vetri sem nú fer í hönd.

Tillögurnar eru:

  1. Unnið verði að því að setja upp eina rafræna gátt varðandi leyfisveitingar. Þannig geti til dæmis fyrirtæki gengið að öllum upplýsingum er varða opinberar kröfur til tiltekinnar atvinnustarfsemi á einum stað og átt rafræn samskipti við stjórnvöld.
  2. Handbók um einföldun regluverks sem nú liggur fyrir verði gefin út og nýtt í einföldunarstarfi stjórnvalda.
  3. Valið verði tiltekið svið atvinnulífs til að skoða í kjölfar þeirrar skoðunar sem fram fór á reglum um ferðaþjónustu síðasta vetur.
  4. Sett verði stefna um hvenær þörf sé á að leyfisbinda atvinnustarfsemi. Hugmyndin er sú að oft kunni að vera nægilegt að fyrirtæki tilkynni starfsemi til stjórnvalda í stað þess að sækja um sérstakt leyfi.
  5. Mótuð verði viðmið um starfshætti eftirlitsstofnana og stjórnskipulag. Þessi vinna er nú þegar í farvegi hjá sérstökum vinnuhópi ríkisstjórnarinnar.
  6. Eflt verði það mat á áhrifum og samráð sem á sér stað í aðdraganda laga- og reglusetningar. Verið er að endurskoða handbók um lagasetningu í þessu skyni. Einnig er til skoðunar að setja upp einn samráðsvef fyrir stjórnvöld.
  7. Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur fái til umsagnar frumvörp að lögum og drög að reglugerðum sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulífið.
  8. Tekin verði næstu skref til innleiðingar á svokallaðri jafnvægisreglu (ein inn, ein út). Þannig verði teknar saman árlega tölfræðilegar upplýsingar um þróun reglubyrði atvinnulífsins.

Á ríkisstjórnarfundinum var verkum skipt á milli ráðuneytanna við eftirfylgni með þessum tillögum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum