Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjastefna til 2020

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýja Lyfjastefnu til ársins 2020 sem starfshópur á vegum ráðherra vann að og skilaði fyrir nokkru. Ráðherra hefur ákveðið að leggja stefnuna fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar og er hún nú birt hér til kynningar.

Heilbrigðisráðherra skipaði í byrjun þessa árs nefnd sem hann fól að semja drög að nýrri lyfjastefnu á grundvelli eldri stefnu í málaflokknum. Nefndinni var einnig falið að semja drög að frumvarpi til lyfjalaga og að endurskoða stjórnsýslu lyfjamála og gera tillögur að úrbótum. Formaður nefndarinnar var Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins.

Nefndin hafði í starfi sínu víðtækt samráð við hagsmunaaðila og lagði áherslu á að afla umsagna um stefnuna meðan hún var í mótun. Fjölmargar umsagnir bárust og átti nefndin fund með umsagnaraðilum sl. haust til að ræða ábendingar þeirra og sjónarmið.

Við gerð lyfjastefnunnar var tekið mið af eldri lyfjastefnu sem mörkuð var árið 2007, áherslum heilbrigðisyfirvalda í lyfjamálum, stefnu grannþjóða á þessu sviði og þróun lyfjamála á liðnum árum. Eins og fyrri lyfjastefna tekur lyfjastefnan til 2020 einnig mið af tilskipunum Evrópusambandsins, samþykktum Evrópuráðsins,  markmiðum Alþjóða- heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um lyf og því markmiði lyfjalaga sem felur í sér að tryggja landsmönnum nægt framboð af nauðsynlegum lyfjum; „með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni.“

Í lyfjastefnunni er lögð áhersla á að lyf séu á viðráðanlegu verði og að greiðsluþátttaka af hálfu hins opinbera sé nægileg í kostnaði notenda þeirra svo stuðlað sé að sem mestum jöfnuði og jöfnu aðgengi.

Einnig er lögð er áhersla á að hindranir komi ekki í veg fyrir eðlilega samkeppni á markaðinum og að rannsóknar- og lyfjafyrirtæki búi við skilyrði sem eru sambærileg við það sem best þekkist annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í útdrætti meðfylgjandi Lyfjastefnu er bent á að heilbrigðisútgjöld vaxi hraðar en heilarútgjöld hins opinbera og að útgjöld vegna nýrra lyfja vaxi hraðar en útgjöld vegna almennra lyfja og annarra heilbrigðismála: „Væntingar sjúklinga til meðferðar með nýjum dýrum lyfjum aukast enn hraðar og ljóst er að erfiðara og erfiðara verður að mæta auknum kostnaði vegna þessarar þróunar. Helstu áskoranir lyfjastefnunnar og í raun lyfjastefnu allra landa verður því í vaxandi mæli að skapa sátt um innleiðingu nýrra lyfja og brúa bilið milli væntinga, vísindalegrar framþróunar og fjárheimilda“ segir ennfremur í stefnunni.

Fulltrúar í nefnd um mótun lyfjastefnu voru auk formannsins Sigurðar M. Magnússonar þau Brynjar Níelsson alþingismaður og Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Starfsmenn nefndarinnar voru Einar Magnússon, lyfjamálstjóri í velferðarráðuneytinu, Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu og Sindri Kristjánsson, lögfræðingur hjá  Lyfjastofnun.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist vænta þess að sú nýja lyfjastefna sem hér er kynnt muni koma að góðum notum í þessum mikilvæga málaflokki á komandi árum, skerpa sýn þeirra sem að honum koma og stuðla að aukinni og bættri samvinnu: „Ég mun leggja stefnuna fyrir Alþingi strax og þing kemur saman á nýju ári og vona að hún muni þar fá vandaða umfjöllun og góðar viðtökur, því hér er um afar mikilvægt mál að ræða fyrir samfélagið allt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum