Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2006 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fyrsta skóflustunga að nýju pósthúsi

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók á mánudag fyrstu skóflustunguna að nýju pósthúsi Íslandspósts sem reist verður á Húsavík. Er það hið fyrsta tíu pósthúsa sem byggð verða á næstu þremur árum og er verkið liður í umfangsmikilli uppbyggingu hjá fyrirtækinu.

Husavik skoflust.
Sturla Böðvarsson tekur fyrstu skóflustunguna með aðstoð Þórðar Sigurðssonar. Hjá þeim standa Björn Jósef Arnviðarson, Ingimundur Sigurpálsson og Guðmundur Oddsson.

Framkvæmdir við pósthúsið á Húsavík eru þegar hafnar og er gert ráð fyrir að verktakinn, Norðurvík, afhendi húsið 17. júní. Næst hefjast framkvæmdir við pósthús á Reyðarfirði og síðan koll af kolli. Húsin eru misjöfn að stærð eftir umfangi starfseminnar á hverjum stað eða milli 300 og rúmlega 800 fermetrar. Pósthúsið á Húsavík verður 315 fermetrar.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, sagði í ávarpi við athöfnina að með tilkomu nýrra pósthúsa og afgreiðslustaða væri bæði bætt úr starfsaðstöðu og þjónusta við viðskiptavini aukin. Þannig sagði hann ætlunina að auka til dæmis vörusölu og taka upp ýmsar nýjungar á því sviði. Hann sagði heildarfjárfestinguna í byggingu og endurnýjun pósthúsa nema alls 950 milljónum króna og að frá því megi draga um 250 milljónir sem gera mætti ráð fyrir að fá fyrir húsnæði sem yrði selt. Ingimundur og Þórólfur Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Norðurvíkur, undirrituðu verksamning við athöfnina.

Í ávarpi sínu sagði Sturla Böðvarsson það rétta ákvörðun hjá Íslandspósti að hefja markvissa uppbyggingu og endurnýjun pósthúsa. Með því væri bæði hlúð betur að starfsfólki og skapaður möguleiki til aukinnar þjónustu. Við athöfnina, sem Björn Jósef Arnviðarson, formaður stjórnar Íslandspósts, stjórnaði, töluðu einnig Jónasína Skarphéðinsdóttir, forstöðumaður Íslandspósts á Húsavík, og Gunnlaugur Stefánsson, fyrir hönd sveitastjórnarinnar.

Skilgreind hafa verið 17 kjarnasvæði á landinu þar sem 16 pósthús auk póstmiðstöðvar og pósthúsa á höfuðborgarsvæðinu mynda þéttriðið þjónustunet fyrir viðskiptavini Íslandspósts um land allt. Pósthús á kjarnasvæðum verða auk höfuðborgarsvæðisins á Akranesi, í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Patreksfirði, Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Höfn, Hvolsvelli, Selfossi, Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ. Á þessum kjarnasvæðum munu pósthús þjóna viðskiptavinum á öllu svæðinu. Þau sjá um útkeyrslu sendinga og flokkun þeirra, þar verður aðstaða fyrir bréfbera og landpósta og þar fer fram móttaka og afhending sendinga. Ein póstafgreiðsla eða fleiri verða á hverju kjarnasvæði.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum