Hoppa yfir valmynd
7. september 2007 Innviðaráðuneytið

Mótvægisaðgerðir gegn svifryki

Vinnuhópur um mótvægisaðgerðir gegn svifryki hefur sett fram ýmsar tillögur til að draga úr losun sóts frá bílum. Meðal tillagna er að til að draga úr notkun nagladekkja verði fengin heimild í vegalögum til gjaldtöku vegna notkunar þeirra og veittar verði upplýsingar um hæfilegt notkunarsvið nagladekkja, kosti og galla.

Fulltrúar frá umhverfisráðuneyti og samgönguráðuneyti sátu í vinnuhópnum ásamt fulltrúum Umferðarstofu, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Var hópnum meðal annars falið að fjalla um tæknilega þætti og leggja fram nánari útfærslu á tillögum starfshóps sem umhverfisráðuneytið hafði skilað undir lok síðasta árs.

Tillögur vinnuhópsins taka til aðgerða vegna sóts, nagladekkja og nokkurra almennra atriða. Varðandi sót er meðal annars lagt til að settar verði takmarkandi reglur um notkun og eftirlit með aflaukandi tölvukubba í bílum, að gjaldtaka á bílum leiði til þess að hagkvæmara verði að flytja inn litla bíla fremur en stóra og að lagt verði sótgjald á gamla mengandi bíla til að draga úr innflutningi þeirra til landsins. Einnig er lagt til að veittur verði skattafsláttur af gömlum bílum sem settar eru sótsíur í og lagðir mengunarskattar á gamla bíla sem ekki hafa slíkan búnað. Umhverfissvæði í þéttbýli verði skilgreint þannig að bílar sem ekki uppfylla tiltekna mengunarstaðla megi ekki aka þar og blásið verði til fræðsluátaks til að draga úr lausagangi bíla.

Þá leggur vinnuhópurinn til að rykbinding verði gerð að skilyrði fyrir starfsleyfi við niðurrif húsa og að sett verði almenn krafa um takmörkun rykmyndunar í útboðum á framkvæmdum fyrir opinbera aðila.

Tillögurnar eru nú til athugunar í samgönguráðuneytinu.

Hér má sjá skýrsluna: Mótvægisaðgerðir gegn svifryki (PDF)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum