Hoppa yfir valmynd
9. desember 2000 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Skilaréttur - verklagsreglur

Skilaréttur - Gjafabréf - Inneignarnótur

VERKLAGSREGLUR

Skilaréttur

1. gr. Seljandi sem ákveðið hefur að veita neytendum skilarétt á ógallaðri vöru skal á starfsstöð sinni, svo og við sölu og afhendingu á vöru gefa skriflega og á aðgengilegan hátt upplýsingar um þann skilarétt.

 

Um 1. gr.

Æskilegt er að reglur um skilarétt verði prentaðar t.d. á límmiða sem hafa mætti á afgreiðslukassa verslunar eða sérstökum skiltum á áberandi stöðum í versluninni. Á kassakvittun mætti prenta áminningu til kaupanda um að kynna sér skilareglur verslunarinnar.

Skilafrestur

2. gr. Í neytendakaupum er heimilt að skila vöru innan a.m.k. 14 daga frá því að hún er afhent, enda sé kassakvittun eða sambærilegri sönnun framvísað. Ákvæði þetta takmarkar þó aldrei betri rétt sem neytendur kunna að eiga samkvæmt lögum eða samningi við seljanda.

 

Um 2. gr.

Hér segir að þegar vöru er skilað skuli neytandi sýna fram á kaupin og dagsetningu þeirra með því að framvísa kassakvittun eða annarri sambærilegri sönnun, t.d. nótu sem sýnir með fullnægjandi hætti hvenær varan var keypt. Verklagsreglurnar eru fyrst og fremst settar til að leysa úr vandamálum varðandi skil á ógallaðri vöru, þ.e. skilarétt neytenda. Í lögum er hins vegar að finna ákvæði um vanefndaúrræði neytanda ef vara reynist gölluð, svo og tímafresti til að bera fyrir sig slíka galla. Verklagsreglunum er á engan hátt ætlað að koma í stað slíkra reglna og geta þær því aldrei þrengt að rétti neytanda sem hann kann að eiga lögum samkvæmt. Hið sama á við ef neytandi og seljandi komast að samkomulagi um að neytandi skuli hafa meiri rétt en gert er ráð fyrir í lágmarksviðmiðunum. Eðlilegt er að þetta komi fram í reglunum.

Gjafamerki

3. gr. Gjafir skal vera hægt að fá merktar með gjafamerki og þá sé ekki þörf á að framvísa kassakvittun þegar vöru er skilað Jólagjafamerki skuli miðast við að varan sé afhent 24. desember.

 

Um 3. gr.

Hér er tekið fram að neytendur skuli eiga rétt á því að fá gjafir merktar gjafamerki. Það verður í verkahring einstakra verslana að útfæra þetta nánar en hér skulu sem dæmi nefnd útfærsluatriði á þessu fyrirkomulagi. Rétt er að afgreiðslufólk spyrji kaupanda hvort varan eigi að vera gjöf eða ekki. Ef um gjöf er að ræða, er eðlilegt að verslunin lími sérstaka límmiða yfir verðmiðann og að þar sé færð inn viðeigandi dagsetning sem miða skal skilaréttinn við. Í sumum verslunum hefur tíðkast að útbúa sérstaka fyrir fram prentaða "jólamiða" fyrir jól sem veita skilarétt í ákveðinn dagafjölda eftir jól t.d. til 6. janúar. Merkimiði vörunnar með strikamerkinu, svo og gjafamerki, fylgir vörunni og því þarf ekki að sýna kassakvittun við skil á vörunni. Þó er ljóst að fólk kaupir jólagjafir alla aðventuna og því þykir ekki óeðlilegt að skilaréttur vöru sem merkt er með jólagjafamerki miðist við að varan sé gefin og þar með afhent 24. desember.

Verð

4. gr. Við skil vöru skal miðað við upprunalegt kaupverð vörunnar, sbr. þó 8. gr.

 

Um 4. gr.

Hér segir að þegar vöru er skilað skuli ávallt miða við upprunalegt kaupverð vörunnar, sbr.þó 8. gr. sem veitir undanþágu frá þessari meginreglu þegar varan er komin á útsölu og hefur verið keypt innan við 14 dögum fyrir upphaf útsölu.

Inneignarnótur

5. gr. Verði ekki samið um endurgreiðslu eða nýja vöru í stað þeirrar sem skilað er á neytandi rétt á inneignarnótu. Með inneignarnótu er átt við heimild til úttektar ótilgreindrar vöru fyrir tiltekna fjárhæð. Gildistími inneignarnótu gagnvart seljanda og þeim sem hann kann að framselja verslunarrekstur sinn til er fjögur ár nema annað sé tekið fram á inneignarnótunni, þó aldrei skemmri en eitt ár.

 

Um 5. gr.

Hér er áréttað að sé ekki samið um endurgreiðslu eða telji neytandi sig ekki geta skipt vörunni fyrir aðra vöru skuli hann eiga rétt á inneignarnótu. Nefndin telur að ekki sé sanngjarnt að inneignarnótur takmarkist við eina ákveðna vörutegund eða vöruflokk. Því þótti nauðsynlegt að skilgreina og taka sérstaklega fram hvað átt væri við með orðinu inneignarnóta. Nefndin telur jafnframt að það kunni að vera ósanngjarnt gagnvart seljanda ef engar takmarkanir eru á notkun inneignarnótu á útsölu, sbr. 9. gr. og umfjöllun um hana hér á eftir. Það skal þó tekið fram að seljandi og neytandi geta ávallt samið sérstaklega um að inneignarnótan sé tekin gild á útsölu annað hvort að öllu leyti eða sem greiðsla fyrir útsöluvöruna á verði fyrir útsölu og án útsöluafsláttarins. Almenna reglan er sú að krafa um inneign samkvæmt inneignarnótum fyrnist á fjórum árum, samkvæmt lögum nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Nefndin telur eðlilegt að unnt sé að semja um skemmri frest. Slíkur frestur geti þó aldrei verið skemmri en eitt ár. Mikilvægt er að slíkar kröfur séu færðar í bókhald verslunar og haldi gildi sínu gagnvart þeim sem verslunareigandi kann að framselja verslunarrekstur sinn.

Gjafabréf

6. gr. Gjafabréf sem seljandi gefur út skulu dagsett og halda gildi sínu gagnvart seljendum í fjögur ár frá útgáfudegi, svo og gagnvart þeim er hann kann að framselja verslunarrekstur sinn til.

 

Um 6. gr.

Hér kveður á um að kaupi neytandi gjafabréf skuli það dagsett þannig að ótvírætt sé frá hvaða tíma slík peningaleg inneign hefur stofnast og er almennur fyrningarfrestur á slíkum kröfum fjögur ár, sbr. lög nr. 14/1905. Hér gildir einnig, sbr. 5. gr. að mikilvægt er að slíkar kröfur séu færðar í bókhaldi verslunar og að þær haldi gildi sínu gagnvart þeim sem útgefandi kann að framselja verslunarrekstur sinn til.

Útsölur

7. gr. Skilaréttur gildir ekki um vöru sem keypt er á útsölu nema um annað sé sérstaklega samið.

 

Um 7. gr.

Hér er áréttað að ekki skuli vera skilaréttur á vöru sem keypt er á útsölu sem er í samræmi við viðskiptavenjur eins og þær hafa tíðkast hingað til.

Skil vöru á útsölu

8. gr. Sé vara keypt innan 14 daga fyrir upphaf útsölu skal við skil hennar eftir að útsala hefst miða við verð vörunnar á útsölunni nema seljandi samþykki aðra verðviðmiðun. Neytandi á þó ávallt rétt á inneignarnótu og skal þá miðað við upprunalegt kaupverð vörunnar.

 

Um 8. gr.

Hér er undanþága frá þeirri almennu reglu að miða skuli við upprunalegt verð vöru þegar henni er skilað hafi varan verið keypt skömmu fyrir útsöluna og neytandi vill skila eftir að hún er komin á útsölu og er nú til sölu með útsöluafslætti. Að baki þessari undantekningu búa sjónarmið sem rakin eru í athugasemdum við 5. gr. Í greininni kemur fram að neytandi eigi þó ávallt rétt á inneignarnótu og skuli inneign miðast við upprunalegt kaupverð vörunnar.

Notkun inneignarnótu á útsölu

9. gr. Inneignarnótu sem gefin hefur verið út innan 14 daga fyrir útsölu eða meðan útsala stendur er ekki heimilt að nota á útsölunni nema með samþykki seljanda.

 

Um 9. gr.

Þetta er svipuð undantekning að því er varðar meðferð inneignarnótu sem gefin er út skömmu áður en útsala á vörunni hefst og búa að baki henni svipuð sjónarmið og þegaar hafa verið rakin um skil á vörum eftir að útsala er hafin en auk þess vísast til umfjöllunar í athugasemdum við 5. gr.

Skilaréttarmerkið

10. gr. Til viðbótar við upplýsingagjöf seljenda um skilarétt til neytenda skv. 1. gr. eru seljendur sem beita þessum lágmarksreglum hvattir til að gefa neytendum til kynna rétt sinn með einföldu og skýru merki í versluninni, auglýsingum eða á annan hátt.

 

Um 10. gr.

Hér segir að æskilegt sé að seljendur sem ákveða að veita neytendum a.m.k. þann rétt sem í lágmarksreglunum felst, eða meiri rétt, sameinist um notkun eins merkis sem gæfi neytendum til kynna að viðkomandi verslun aðhyllist í reynd lágmarksviðmið nefndarinnar. Slíkt merki kæmi þó engan veginn í stað upplýsingagjafar samkvæmt 1. gr. en einungis yki hagræði neytenda við að greina þær verslanir sem veittu að minnsta kosti þessa lágmarksþjónustu varðandi skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira