Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2020

Árið 2021, 24. febrúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 11/2020 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með tölvupósti, dags. 5. nóvember 2020, kærði X, [], Akureyri, til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins ákvörðun Akureyrarbæjar varðandi álagningu fasteignagjalda ársins 2020 á fasteign kæranda að [], Akureyri, fnr. []. Með erindi, dags. 4. desember 2020, framsendi ráðuneytið kæruna til yfirfasteignamatsnefndar.

Með bréfi, dags. 8. desember 2020, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Akureyrarbæ vegna kærunnar. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 18. desember 2020.

Með tölvupósti, dags. 18. desember 2020, var umsögn sveitarfélagsins send kæranda og honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá Akureyrarbæ með tölvupósti, dags. 5. janúar 2021 og bárust umbeðnar upplýsingar frá sveitarfélaginu með tölvupósti, dags. 14. janúar 2021.

Málið var tekið til úrskurðar 24. febrúar 2021.

 

 1. Málavextir

  Kærandi er eigandi íbúðarhúss að [], fnr. [] og að hesthúsi að Sörlagötu [], fnr. [], en báðar fasteignirnar eru staðsettar á Akureyri. Samkvæmt álagningarseðlum fasteignagjalda fyrir árið 2020 var álagningarprósenta fasteignaskatts vegna eignanna mismunandi þrátt fyrir að báðar fasteignirnar falli undir ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Álagningarprósenta fasteignaskatts vegna hesthússins var 0,625% af fasteignamati en 0,33% af fasteignamati íbúðarhússins.

  Kærandi sendi Akureyrarbæ tölvupóst þann 16. júlí 2020 þar sem gerðar voru athugasemdir við mismunandi álagningarprósentu fasteignanna og vísaði kærandi til þess að samræmi yrði að vera varðandi skattlagningu fasteigna innan sama gjaldflokks. Taldi kærandi að ákvörðun sveitarfélagsins færi í bága við ákvæði laga nr. 4/1995 og óskaði eftir skýringum frá sveitarfélaginu og tók jafnframt fram að bærist ekki svar við erindinu færi málið til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samræmi við ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga. 

  Bæjarlögmaður Akureyrarbæjar svaraði erindi kæranda með tölvupósti þann 11. ágúst 2020 þar sem m.a. kom fram að hesthús hafi með lögum nr. 55/2012 verði felld undir ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Við setningu laga nr. 55/2012 hafi komið fram að sveitarstjórn væri heimilt að lækka álagningu fasteignaskatts á árinu 2012 á hesthús þannig að álagningarhlutfall þeirra eigna væri það sama og annarra fasteigna samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Ákvæðið væri þannig heimildarákvæði en ekki skylduákvæði. Þá komi fram að samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1992 hefði sveitarstjórn heimild að hækka um allt að 25% hundraðshluta skatthlutfall þeirra eigna sem tilgreindar væru í a- og c-liðum 3. mgr. 3. gr. laganna. Akureyrarbær hafi nýtt sé þessa heimild gagnvart hesthúsum og hækkað skatthlutfallið um 25%, eins og lögin heimila.

  Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins varðandi álagningu fasteignaskatts á hesthús hans að Sörlagötu [], Akureyri, fnr. [], fyrir árið 2020 og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

   

 2. Sjónarmið kæranda

  Kærandi bendir á að álagning fasteignaskatts fyrir árið 2020 vegna hesthússins að Sörlagötu [], Akureyri, fnr. [] hafi verið samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og hafi álagningarprósentan verið 0,625% af fasteignamati eignarinnar. Álagningarprósenta annarra fasteigna, s.s. íbúðarhúsa, sem falli undir sama gjaldflokk samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði hafi hins vegar verið mun lægra, eða 0,33%. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sé heimilt að ákvarða skatthlutfall allt að 0,5% vegna eigna sem falla undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna auk 0,125% álags sbr. 4. mgr. 3. gr. laganna.

  Kærandi gerir kröfu um að jafnræðis verði gætt varðandi skattlagningu fasteigna innan sama gjaldflokks, þ.e. að álagningarprósentan verði sú sama hvort sem um sé að ræða íbúðarhús eða hesthús. Vísar kærandi til þess að breyting hafi verið gerð á lögum nr. 4/1995 á árinu 2012 með lögum nr. 55/2012 þegar hesthús voru felld undir ákvæði a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 55/2012 hafi komið fram álagningarhlutfall fasteignaskatts á hesthús yrði það sama og þeirra fasteigna sem taldar voru upp í a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna. Akureyrarbær hafi ákveðið að leggja hámarksálag samkvæmt 4. mgr. 3.gr. laganna á hesthús en ekki á aðrar eignir innan sama gjaldflokks. Þetta hafi það í för með sér að hesthúseigendum sé mismunað þar sem jafnræðis sé ekki gætt milli fasteigna innan sama gjaldflokks og telur kærandi þetta ganga gegn ákvæðum laga nr. 4/1995.

   

 3. Sjónarmið Akureyrarbæjar.

  Í umsögn Akureyrarbæjar kemur fram að á fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins þann 15. desember 2020 hafi verið samþykkt að leggja fasteignaskatt sem næmi 0,33% af fasteignamati, á íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd séu landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Með fyrrgreindri ákvörðun bæjarstjórnar sé ekki lengur misræmi milli álagningar á hesthús og annarra fasteignir samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði.

  Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá sveitarfélaginu með tölvupósti, dags. 5. janúar 2021, varðandi fyrrgreinda ákvörðun frá 15. desember 2020 um álagningu fasteignagjalda. Óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir upplýsingum um hvort ákvörðunin væri afturvirk og tæki þar með til fyrri ára þegar hærra skatthlutfall hefði verið í gildi varðandi hesthús en kæra kæranda hafi tekið til ársins 2020.

  Með tölvupósti, dags. 14. janúar 2021, kom Akureyrarbær þeim upplýsingum á framfæri að samkvæmt bókun bæjarráðs, þann sama dag, hefði verið rætt um álagningu fasteignaskatts samkvæmt 3. gr. laga nr. 4/1995. Í ljósi þess misræmis sem hefði verið í álagningu fasteignaskatts á hesthús og aðrar fasteignir samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, hefði bæjarráð samþykkt að endurgreiða gjaldendum fasteignaskatts á hesthús, mismun á fasteignaskatti skv. a-lið og fasteignaskatti á hesthúsum með álagi, fjögur ár aftur í tímann, sbr. 8. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda nr. 150/2019.

   

 4. Niðurstaða

Mál þetta varðar álagningu fasteignaskatts á hesthús kæranda að Sörlagötu [], Akureyri, fnr. [] fyrir árið 2020, en óumdeilt er að ákvarða beri fasteignaskatt vegna eignarinnar samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Kærandi gerir kröfu um að álagningarprósenta fasteignaskatts á fasteignina verði sú sama og hvað varðar íbúðarhús sem séu innan sama gjaldflokks, þ.e. að álagningarprósentan verði 0,33% af fasteignamati en ekki 0,625% eins og ákveðið hafi verið af Akureyrarbæ. Vísar kærandi til þess að óheimilt sé að hafa mismunandi álagningarprósentu milli eigna innan sama gjaldflokks. 

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum viðkomandi sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr þeim ágreiningi, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Ekki er kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds í lögum nr. 4/1995 og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. laganna er kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti en þar kemur fram að ekki skuli vísa slíkri kæru frá ef afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Þó skal ekki sinna kæru ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila máls.

Af gögnum málsins verður ráðið að á álagningarseðlum vegna álagningar fasteignagjalda í Akureyrarbæ vegna ársins 2020, hafi ekki komið fram leiðbeiningar til gjaldenda um kæruheimild og kærufrest til yfirfasteignamatsnefndar.

Með tölvupósti, dags. 5. nóvember 2020, kærði kærandi ákvörðun sveitarfélagsins vegna álagningar fasteignaskatts á fasteign hans að Sörlagötu [], Akureyri, fnr. [], fyrir árið 2020. Kærufrestur til yfirfasteignamatsnefndar var þá liðinn. Yfirfasteignamatsnefnd telur það hins vegar afsakanlegt að kæran hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests þar sem sveitarfélagið vanrækti að veita kæranda leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Verður kröfu kæranda vegna álagningar fasteignaskatts fyrir árið 2020 því ekki vísað frá nefndinni af þeim sökum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að ákveðið var á fundi bæjarstjórnar Akureyrarbæjar þann 15. desember 2020 að fasteignaskattur vegna fasteigna sem falla undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 skyldi vera 0,33% af fasteignamati eigna. Með þeirri ákvörðun var ekki lengur misræmi milli álagningar fasteignaskatts á hesthús og annarra fasteigna sem falla undir fyrrgreint lagaákvæði. Þá var jafnframt ákveðið á fundi bæjarráðs Akureyrar þann 14. janúar 2021 að endurgreiða öllum gjaldendum fasteignaskatts á hesthús, mismun á fasteignaskatti samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 og fasteignaskatti á hesthús með álagi, fjögur ár aftur í tímann, sbr. 8. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Í ljósi framangreindra ákvarðana bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar liggur fyrir að ekki er lengur ágreiningur með málsaðilum um álagningu fasteignaskatts á fasteign kæranda að Sörlagötu [], Akureyri, fnr. [], vegna ársins 2020 og eru því ekki lengur fyrir hendi lögvarðir hagsmunir af hálfu kæranda að fá úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í málinu og er kærunni því vísað frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru X vegna álagðs fasteignaskatts fasteignarinnar að Sörlagötu [], Akureyri, fnr. [], fyrir árið 2020, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

 

_____________________

Björn Jóhannesson

 

________________________                                      ________________________

            Axel Hall                                                                     Valgerður Sólnes

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira