Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2019

Árið 2020, 6. apríl, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 9/2019 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með erindi, dags. 5. nóvember 2019, sendi X, kt. [], kæru til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi ,,neitun Mosfellsbæjar á endurgreiðslu á ofteknum fasteignaskatti”. Með tölvubréfi yfirfasteignamatsnefndar til kæranda, dags. 22. nóvember 2019, var athygli hans vakin á því að samkvæmt 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, væri hægt að kæra ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um endurmat fasteignamats til yfirfasteignamatsnefndar. Var jafnframt óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hvort beina ætti kærunni til yfirfasteignamatsnefndar og væri það ætlunin yrði ákvörðun/úrskurður Þjóðskrár Íslands að fylgja með kærunni auk þess sem nauðsynlegt væri að setja fram afmarkaða kröfugerð til nefndarinnar.

Kærandi sendi yfirfasteignamatsnefnd bréf, dags. 10. desember 2019, þar sem hann gerði þá kröfu að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019 um lækkun á fasteignamati fasteignar hans að Völuteig [], Mosfellsbæ, fnr. [], fyrir árið 2019, yrði notuð sem grundvöllur fyrir álagningu fasteignaskatta ársins 2019. Kærunni fylgdi afrit af tilkynningu Þjóðskrár Íslands um nýtt fasteignamat fasteignar kæranda, dags. 25. júlí 2019.

Með bréfi, dags. 16. desember 2019, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögnum frá Þjóðskrá Íslands og sveitarfélaginu Mosfellsbæ vegna kærunnar. Umsögn Þjóðskrár Íslands barst nefndinni 22. janúar 2020 en umsögn Mosfellsbæjar barst þann 3. febrúar 2020. Báðar umsagnirnar voru sendar kæranda til kynningar sama dag og þær bárust og var honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málið var tekið til úrskurðar 6. apríl 2020.

 1. Málavextir

  Þann 15. júní 2018 sendi Þjóðskrá Íslands tilkynningu inn á pósthólf kæranda á vefnum www.island.is um fyrirhugað fasteignamat fasteignar kæranda að Völuteigi [], Mosfellsbæ, vegna ársins 2019.

  Þann 30. janúar 2019 óskaði kærandi eftir því við Þjóðskrá Íslands að fram færi endurmat á fasteignamati fasteignarinnar. Taldi kærandi að fasteignamat eignarinnar endurspeglaði ekki verðmæti hennar og að sú hækkun sem hefði orðið frá fyrra ári samræmdist ekki markaðshækkun fasteigna í sveitarfélaginu.

  Þjóðskrá Íslands tók beiðni kæranda um endurmat til afgreiðslu og eftir frekari upplýsingagjöf frá kæranda ákvað Þjóðskrá Íslands þann 25. júlí 2019 að lækka fasteignamat eignarinnar úr kr. 359.350.000.- í kr. 342.250.000.- . 

  Með tölvupósti, dags. 30. september 2019, sendi kærandi upplýsingar um endurmatið til sveitarfélagsins, Mosfellsbæjar. Sama dag fékk kærandi svar frá sveitarfélaginu þar sem fram kom að lækkun fasteignamatsins hefði ekki skilað sér inn í álagningarkerfi sveitarfélagsins og var kærandi inntur eftir því hvort hann hefði haft samband við Þjóðskrá Íslands af þessum sökum.

  Með tölvupósti til Þjóðskrár Íslands, dags. 2. október 2019, vakti kærandi athygli stofnunarinnar á því að svo virtist sem sú breyting sem gerð var á fasteignamati eignarinnar 25. júlí 2019 hafi ekki skilað sér til Mosfellsbæjar þannig að unnt væri að endurreikna álagðan fasteignaskatt eignarinnar fyrir árið 2019. Fór kærandi þess á leit við Þjóðskrá Íslands að stofnunin staðfesti endurmatið við Mosfellsbæ þannig að hægt væri að endurreikna fasteignaskatt ársins 2019. Þjóðskrá Íslands svaraði kæranda samdægurs þar sem fram kom að eigendur fasteigna gætu allt til áramóta hvers árs óskað eftir endurmati á yfirstandandi fasteignamati sem þá hefði áhrif á fasteignamat næsta árs á eftir. Endurmatið frá því í júlí 2019 hefði áhrif til lækkunar á fasteignaskatti ársins 2020 en ekki ársins 2019 þar sem beiðni kæranda um endurmat hefði borist of seint til að svo yrði. Sveitarfélagið gæti hins vegar óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands að endurmatið yrði úrskurðað í áramótastöðu 2019.

  Með tölvupósti til Mosfellsbæjar og Þjóðskrár Íslands þann 7. október 2019 vakti kærandi athygli á því að hann hafi um leið og hann fékk álagningarseðil fasteignagjalda í janúar 2019, þar sem fram kom 39% hækkun á fasteignamati eignarinnar milli áranna 2018 og 2019, sent beiðni til Þjóðskrár Íslands um endurmat á fasteignamatinu. Þar sem fasteignamatið væri skattstofn fasteignagjalda væri undarlegt að það réðist af geðþóttaákvörðun sveitarfélagsins hvort breyting á skattstofninum yrði tekin til greina. Ítrekaði kærandi kröfu sína um að fasteignaskattur ársins 2019 yrði lækkaður til samræmis við þær breytingar sem hefðu orðið á fasteignamati eignarinnar. Þjóðskrá Íslands svaraði kæranda sama dag og benti honum á að möguleiki væri að kæra málið til yfirfasteignamatsnefndar en Þjóðskrá Íslands væri einfaldlega að fara eftir þeim lögum sem henni bæri að starfa eftir.

  Í tölvupósti Mosfellsbæjar til kæranda þann 30. október 2019 kom fram að breyting á fasteignamati eignarinnar hefði ekki áhrif á fasteignagjöld ársins 2019 en kæmi til með að hafa áhrif á útreikning fasteignagjalda ársins 2020. Var kæranda bent á þann möguleika að kæra málið til yfirfasteignamatsnefndar ef hann væri ósáttur við fyrrgreinda niðurstöðu.

  Kærandi vill ekki una því að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019 um lækkun fasteignamats fasteignar hans verði ekki notuð sem grundvöllur fyrir álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar fyrir árið 2019 og hefur því kært þá ákvörðun til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

 2. Sjónarmið kæranda

  Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019 um lækkun á fasteignamati fasteignar hans að Völuteig [], Mosfellsbæ, fnr. [], fyrir árið 2019, verði notuð sem grundvöllur fyrir álagningu fasteignaskatts eignarinnar fyrir árið 2019.

   

  Vísar kærandi til þess að fasteignamat fasteignar hans fyrir árið 2019 hafi verið kært til Þjóðskrár Íslands þann 30. janúar 2019 þar sem óvenjuleg hækkun hafi verið gerð á fasteignamati eignarinnar milli áranna 2018 og 2019. Ekkert hafi heyrst frá Þjóðskrá Íslands fyrr en í júlí 2019 en þá hafi verið ákveðið að lækka fasteignamatið úr kr. 359.350.000.- í kr. 342.250.000.-. Sú breyting hafi átt að leiða til lækkunar á fasteignaskatti ársins 2019 úr kr. 7.040.189.- í kr. 6.733.415.-, eða um kr. 306.774.-.

  Kærandi áréttar að fasteignamatið sé skattstofn og breyting á skattstofni eigi að leiða til breytinga á fasteignaskatti sem sé leiddur af fasteignamatinu. Kærandi hafi greitt fasteignaskatt vegna eignarinnar til Mosfellsbæjar fyrir árið 2019 með fyrirvara um að greiðslan kynni að vera óréttmæt. Kærandi telur að neitun Mosfellsbæjar um að lækka fasteignaskatt vegna eignarinnar þegar skattstofninn hefur verið lækkaður standist ekki lög.

   

   

 3. Sjónarmið Þjóðskrár Íslands

  Í umsögn Þjóðskrár Íslands kemur fram að stofnuninni beri að endurmeta fasteigamat allra fasteigna á Íslandi einu sinni á ári miðað við gangverð umreiknað til staðgreiðslu, sbr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Skráð matsverð fasteignar skuli vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma sem ætla megi að eignin hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001. Þannig miðist fasteignamat ársins 2019 á öllu landinu við verðlag fasteigna í febrúarmánuði 2018.

  Þjóðskrá Íslands bendir á að í júní ár hvert sé öllum fasteignaeigendum tilkynnt um fyrirhugað fasteignamat sem taki svo gildi 31. desember ár hvert. Frestur til að gera athugasemdir við hið nýja mat sé einn mánuður samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001. Þær matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember skuli taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs, sbr. 1. mgr. 31. gr. a. sömu laga. Þetta feli í sér að frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugað mat sé í raun sex mánuðir eða frá 1. júní til og með 30. desember sama ár.

  Bent er á að Þjóðskrá Íslands hafi frá árinu 2016 haft það verklag að birta allar tilkynningar um árlegt endurmat fasteignamats í pósthólfi viðtakanda á vefsíðunni www.island.is. Þjóðskrá Íslands hafi á árinu 2013 hafið auglýsingarherferð þar sem vefsíðan www.island.is og notkun íslykils hafi verið auglýst sem nýr áfangi í rafrænni stjórnsýslu sem uppfylli meginreglur stjórnsýslulaga um rafræna meðferð stjórnsýslumála.

  Þann 15. júní 2018 hafi kæranda verið send tilkynning um fyrirhugað fasteignamat fasteignar hans fyrir árið 2019 með áðurgreindum hætti en inni á pósthólfinu sé m.a. að finna eldri tilkynningar um fyrirhugað fasteignamat. Beiðni kæranda um endurmat hafi borist 30. janúar 2019 og hafi aðeins lotið að skráðu fasteignamati sem hafi áhrif á fasteignamat næsta árs en ekki því mati sem hafi tekið gildi þann 31. desember 2018, sbr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001. Til þess að breyting á fasteignamati hefði haft áhrif á fasteignagjöld ársins 2019 hefði beiðni um endurmat þurft að berast Þjóðskrá Íslands fyrir 31. desember 2018.

  Samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga leggi sveitarfélög árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Það sé jafnframt hlutverk sveitarstjórna að ákveða fjölda gjalddaga fasteignaskatts fyrir upphaf árs, sbr. 4. mgr. 4. gr. sömu laga.

  Þjóðskrá Ísland vísar til þess að það sé lögbundið hlutverk stofnunarinnar að endurmeta allar fasteignir á Íslandi einu sinni á ári. Fasteignaeigendur hafi allt að sex mánuði til þess að koma að athugasemdum um fyrirhugað fasteignamat ella teljist þeir samþykkir því. Beiðni kæranda um endurmat hafi borist of seint og Þjóðskrá Íslands hafi þar af leiðandi ekki getað orðið við þeirri beiðni kæranda um að færa nýtt fasteignamat eignarinnar í áramótastöðu. Þjóðskrá Íslands hafi litið svo á það séu aðeins sveitarfélögin sem geti óskað eftir slíkri skráningu þar sem það feli jafnframt í sér endurgreiðslu ofgreidds fjár sem Þjóðskrá Íslands hafi ekki forræði á.

   

   

 4. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í umsögn Mosfellsbæjar er vísað til þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 4/1995 sé sveitarfélaginu skylt að leggja árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar séu fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá. Stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra og lætur Þjóðskrá Íslands öllum sveitarfélögum í té þann 15. janúar ár hvert skrá yfir metnar fasteignir miðað við 31. desember næstliðins árs. Álagning sveitarfélagsins taki í öllum tilvikum mið af fyrrgreindri skrá og telur sveitarfélagið sér skylt að reikna fasteignagjöld af lögmæltum gjaldstofni sem sé fasteignamat 31. desember á næstliðnu ári.

Bent er á að samkvæmt 2. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna geti Þjóðskrá Íslands að eigin frumkvæði endurmetið eignir og virðist það hafa verið ástæða hækkana á fasteignamati fasteignar kæranda. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal tilkynna eiganda um nýtt eða breytt fasteignamat og hafi sveitarfélagið ekki upplýsingar um annað en að það hafi verið gert í tilviki kæranda. Kærandi hafi samkvæmt sama ákvæði eins mánaðar frest frá tilkynningu til að gera skriflega og rökstudda kröfu um endurupptöku málsins, sem kærandi virðist ekki hafa gert.

Sveitarfélagið vekur athygli á því að þann 25. júlí 2019 hafi fasteignamat fasteignar kæranda verið lækkað með endurmati sem virðist af gögnum málsins hafa verið framkvæmt á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001. Þetta endurmat hafi ekki afturvirk áhrif og sé stofn til álagningar fasteignaskatts vegna ársins 2019, fasteignamat miðað við 31. desember 2018, því enn óbreyttur.

Mosfellsbær telur í ljósi ofangreinds ekki lagaskilyrði fyrir hendi til að verða við beiðnum og kröfum kæranda um endurskoðun fasteignaskatts vegna ársins 2019.

V.           Niðurstaða

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019 um lækkun á fasteignamati fasteignar hans að Völuteig [], Mosfellsbæ, fnr. [], fyrir árið 2019, verði notuð sem grundvöllur fyrir álagningu fasteignaskatts ársins 2019.

Telur yfirfasteignamatsnefnd að túlka verði kröfugerð kæranda þannig að hann geri ekki athugasemd við endurmat Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019, en að kröfugerð hans beinist að því að Mosfellsbæ verði gert að endurgreiða honum þann hluta fasteignaskatts ársins 2019 fyrir fasteign kæranda að Völuteig 17, Mosfellsbæ, fnr. [], sem nemi lækkun gjaldstofns vegna lækkunar fasteignamats, í samræmi við ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019, en lækkunin nemi kr. 306.774.-.

Í 1. mgr. 32. gr. a laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, segir að Þjóðskrá Íslands skuli endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Segir jafnframt að það verð skuli talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Í greininni kemur fram að frestur eiganda til athugasemda skuli vera mánuður frá tilkynningu ákvörðunar. Jafnframt kemur fram að matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember skuli taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs. Í 2. mgr. 32. gr. a sömu laga segir að Þjóðskrá Íslands beri eigi síðar en í júnímánuði ár hvert að gera hverju sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats skv. 1. mgr. sem taki gildi í viðkomandi sveitarfélagi næsta 31. desember.

Í máli þessu liggur ekki annað fyrir en að kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu hins árlega endurmats í júní 2018. Gerði hann ekki athugasemdir við endurmatið fyrr en 30. janúar 2019. Þjóðskrá Íslands tók beiðni kæranda til skoðunar og tók ákvörðun sem honum var birt með tilkynningu um nýtt fasteignamat, dags. 25 júlí 2019. Í tilkynningunni koma fram ýmsar upplýsingar. Þar segir undir fyrirsögninni „Nýtt fasteignamat 2019“ að fasteignamat sé kr. 342.250.000.-. Undir fyrirsögninni „Fasteignamat 2019 fyrir breytingu“ segir að fasteignamat sé kr. 359.350.000.-. Þá segir í tilkynningunni að nýtt fasteignamat umræddrar fasteignar hafi tekið gildi. Einnig kemur fram að fasteignamat 2019 miðist við verðlag fasteigna í febrúarmánuði 2018. Er það í samræmi við ákvæði lokamálsliðs 1. mgr. 32. gr. a laga nr. 6/2001 þar sem segir að matsgerðir framkvæmdar á tímabilinu júní til desember skuli taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs. Liggur fyrir að matsgerðin var framkvæmd á tímabilinu júní til desember og því átti hún að ná bæði til skráðs matsverðs á árinu 2019 og fyrirhugaðs matsverðs á árinu 2020. Þar sem kærandi hefur ekki skotið ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat til nefndarinnar verður ekki tekin afstaða til endurmatsins hér. 

Í 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 kemur fram að verði ágreiningur um gjaldstofn fasteignaskatts skuli vísa honum til úrskurðar Þjóðskrár Íslands og megi skjóta þeim úrskurði til yfirfasteignamatsnefndar. Þá segir að yfirfasteignamatsnefnd skeri úr ágreiningi um gjaldskyldu fasteignaskatts.

Í máli þessu liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands lækkaði gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts vegna  fasteignar kæranda að Völuteig [], Mosfellsbæ í júlí 2019. Eins og áður segir snýr erindi kæranda ekki að þeirri ákvörðun og er því ekki uppi ágreiningur um gjaldstofn sem yfirfasteignamatsnefnd ber að leysa úr á grundvelli ákvæða laga nr. 4/1995. Þá snýr kæran ekki að gjaldskyldu vegna fasteignarinnar í skilningi laga nr. 4/1995.

Snýr krafa kæranda að því að Mosfellsbæ verði gert að endurgreiða honum þann hluta fasteignaskatts ársins 2019 fyrir fasteign hans að Völuteig [], Mosfellsbæ, sem nemi lækkun gjaldstofns vegna lækkunar fasteignamats, í samræmi við ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 25. júlí 2019. Það fellur ekki undir valdsvið yfirfasteignamatsnefndar að taka afstöðu til hugsanlegra krafna um endurgreiðslu á þegar álögðum fasteignaskatti vegna eignarinnar, enda ekki sjálfgefið að endurmat á fasteignamati leiði til endurgreiðslu á mögulega ofteknum fasteignaskatti, sbr. lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Í ljósi alls framangreinds er kærunni vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru X er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Björn Jóhannesson

      _______________________________                             ________________________________

                Áslaug Árnadóttir                                                                             Axel Hall

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira