Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2016

Hinn 12. maí 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2016:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 456/2014

Ákæruvaldið

gegn

Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni,

Sigríði Elínu Sigfúsdóttur

og

Steinþóri Gunnarssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

 1. Með erindi, dagsettu 2. desember 2016, fór Sigríður Elín Sigfúsdóttir þess á leit að hæstaréttarmál nr. 456/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 8. október 2015, yrði endurupptekið hvað hana varðar.
 2. Að beiðni endurupptökubeiðanda var Helgu Melkorku Óttarsdóttur hrl. veitt umboð til að gæta hagsmuna hennar.
 3. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn Jóhannesson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

  II. Málsatvik

 4. Í hæstaréttarmáli nr. 456/2014 voru endurupptökubeiðandi, sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf., og Sigurjón Þ. Árnason (SÞÁ), sem annar bankastjóri sama banka, bæði í lánanefnd bankans, gefið að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Voru þau ákærð fyrir að hafa þann 30. september 2008 farið út fyrir heimildir til lánveitinga er þau í sameiningu veittu Imon ehf. lán að fjárhæð 5.163.000.000 kr. til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hlutum í Landsbanka Íslands hf. án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Þá voru þau jafnframt ákærð fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 fyrir að hafa ranglega látið líta svo út að fjárfestir hafi lagt fé til framangreindra hlutabréfakaupa og borið af þeim fulla markaðsáhættu.
 5. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 456/2014 var talið að endurupptökubeiðandi og SÞÁ hefðu átt að gera sér grein fyrir því að með því að veita Imon ehf. lán gegn tryggingum, sem metnar höfðu verið til verðs á alls ónothæfum grunni og voru að auki langt frá því sem almennt skyldi miða við samkvæmt útlánareglum Landsbanka Íslands hf., væru þau, við þær aðstæður, sem ríktu á fjármála- og verðbréfamörkuðum, að víkja á freklegan hátt frá því sem af þeim var krafist í störfum þeirra fyrir Landsbanka Íslands hf. Þau hefðu því misnotað aðstöðu sína, sem hefði valdið því að félagið varð bundið við þær ráðstafanir fjármuna sem áttu sér stað þann 30. september 2008 og hafi leitt til verulegrar fjártjónshættu fyrir Landsbanka Íslands hf. Voru þau sakfelld fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá var endurupptökubeiðandi sakfelld fyrir hlutdeild í broti gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti vegna framangreindra viðskipta. Endurupptökubeiðandi var dæmd til fangelsisvistar í átján mánuði. Jafnframt var endurupptökubeiðandi dæmd til greiðslu sakarkostnaðar, samtals 15.245.814 kr.
 6. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 456/2014 var snúið við sýknudómi yfir endurupptökubeiðanda sem kveðinn var upp af fjölskipuðum héraðsdómi þann 5. júní 2014 í máli nr. S-553/2013.

  III. Grundvöllur beiðni um endurupptöku

 7. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að uppfyllt séu skilyrði núgildandi 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 80/2008 um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti Íslands, sbr. 1. mgr. 232. gr. sömu laga.
 8. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að fram séu komin ný gögn sem verulega miklu hefðu skipt fyrir niðurstöðu málsins hefðu þau komið fram áður en dómur gekk, sbr. þágildandi a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, nú samhljóða a-lið 1. mgr. 228. gr. laganna. Þá telur hún að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafði á niðurstöðu þess, sbr. c-lið sömu málsgreinar. Að lokum telur endurupptökubeiðandi að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið sömu málsgreinar.
 9. Með beiðninni leggur endurupptökubeiðandi fram ný gögn sem hún telur að hefðu skipt verulega fyrir niðurstöðu málsins hefðu þau komið fram áður en dómur gekk. Vísar hún til þess að umsjón með þeirri lánveitingu sem hún var sakfelld fyrir hafi Árni Maríasson (ÁM), forstöðumaður á fyrirtækjasviði bankans, haft. Hann hafi sagt fyrir dómi að hann hefði útbúið ákvörðunartökublað þar sem lánveitingunni var lýst. Á umræddu blaði hafi komið m.a. fram mat hans á því hvernig tryggingarstöðu lánsins yrði háttað, en lánið átti að vera tryggt annars vegar með handveði í þeim hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. sem kaupa átti og hins vegar með veði í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði hf. í eigu Imon ehf., sem var á þessum tíma stærsti eigandinn í Byr sparisjóði hf. Samkvæmt ákvörðunartökublaðinu var veðhlutfall við lánveitinguna 86-95%.
 10. Endurupptökubeiðandi bendir á að í dómi Hæstaréttar Íslands hafi komið fram sú afstaða að ekki hafi verið forsvaranlegt að horfa til þessara viðmiða þar sem þau hafi verið reist á ónothæfum grunni. Virðist þar hafa vegið hvað þyngst að ekki hafi legið fyrir mat óvilhallra sérfræðinga á verðmæti hvors fyrirtækis um sig, þá sérstaklega í tilviki Byrs sparisjóðs hf., hvers stofnfjárhlutir voru til tryggingar láninu.
 11. Að mati endurupptökubeiðanda eigi hin nýju gögn að sýna að sá „Viðræðurammi Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs hf.“ sem vísað er til í dómi Hæstaréttar Íslands hafi hvorki markað upphaf samningaviðræðna milli stjórna þessara tveggja fjármálafyrirtækja né stafað einhliða frá Byr sparisjóði hf., heldur hafi þvert á móti verið um að ræða niðurstöðu samningaviðræðna milli þeirra um að leggja skyldi til grundvallar við samrunaviðræður að verðmæti Byrs sparisjóðs hf. væri 70,2 milljarðar kr. Gögnin sýni jafnframt fram á að þessar viðræður og hugleiðingar um sameiningu hafi í það minnsta staðið yfir frá 19. september 2008 og allt til 27. september 2008. Þá lagði endurupptökubeiðandi jafnframt fram skýrslu um verðmat á Byr sparisjóði hf. og verðmæti Byrs sparisjóðs hf. fyrir Glitni banka hf. Í skýrslunni, sem sé dagsett 24. september 2008, komi fram að starfsmenn Glitnis banka hf. hafi talið ásættanlegt verð fyrir Byr sparisjóð hf. vera 70 milljarða kr., sem virðist óháð því á hvaða gengi stofnfjáreigendur kaupi hluti í Glitni banka hf. Skýrslan, sem sé samtímagagn, sýni að efri mörk verðmats ÁM, lánasérfræðings á fyrirtækjasviði Landsbanka Íslands hf., hafi verið lægra en það verð sem stjórnir Byrs sparisjóðs hf. og Glitnis banka hf. höfðu samið um og byggði á ítarlegri greiningarvinnu starfsmanna Glitnis banka hf., sem voru sérhæfðir í að meta fyrirtæki. Í þessu sambandi þurfi að hafa í huga hver var fjöldi stofnfjárhluta í Byr sparisjóði hf. sem stóð til tryggingar skuldbindingum Imon ehf., auk hinna veðsettu hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. sem einnig stóðu til tryggingar skuldbindingunni. Þannig liggi fyrir að það mat á verðmæti Byrs sparisjóðs hf. sem kom fram í fyrrnefndum viðræðuramma og endurupptökubeiðandi lagði til grundvallar ákvörðun um veitingu lánsins byggði á mati starfsmanna Glitnis banka hf. sem höfðu engan hag af því að meta verðmæti Byrs sparisjóðs hf. of hátt. Telur endurupptökubeiðandi að sökum þessa sé ekki unnt að líta svo á að það hafi verið rangt að miða við 86% veðhlutfall þar sem það hafi byggt á „ónothæfum grunni“ líkt og Hæstiréttur Íslands lagði til grundvallar í dómi sínum, sem hafði þær afleiðingar að endurupptökubeiðandi var talin hafa gerst sek um umboðssvik og markaðsmisnotkun.
 12. Þá áréttir endurupptökubeiðandi að sú staðreynd að Glitnir banki hf. hafi verið tekinn yfir af ríkinu hinn 29. september 2008 geti ekki leitt til þess að ótækt hafi verið að horfa til framangreinds mats á verðmæti Byrs sparisjóðs hf. Jafnvel þótt hlutabréf í Glitni banka hf. hafi lækkað í verði við yfirtökuna liggi ekkert fyrir um að verðmæti stofnfjárhluta Byrs sparisjóðs hf. hafi lækkað í kjölfar þeirrar yfirtöku. Í málinu hafi engin gögn legið fyrir sem gætu gefið tilefni til slíkrar ályktunar, en ákæruvaldið hafi ekki aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Í þessu sambandi þarf að mati endurupptökubeiðanda að hafa í huga að verðmat það sem lagt var til grundvallar við samruna Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs hf. voru síðustu upplýsingar sem unnt var að miða verðmæti stofnfjárhluta Byrs sparisjóðs hf. við og að sönnunarbyrði um atriði sem eru ákærða í óhag hvíla á ákæruvaldinu. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að ráðið verði af kynningu sem var útbúin af starfsmönnum Glitnis banka hf. um samrunaviðræðurnar að verðmæti Byrs sparisjóðs hf. hafi verið óháð breytingum á verði hlutabréfa á fjármagnsmörkuðum, með vísan til þess að ólíkt mörgum öðrum sparisjóðum hafi Byr sparisjóður hf. óverulega áhættu af þróun hlutabréfamarkaða. Þá telur endurupptökubeiðandi að jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að stofnfjárhlutir Byrs sparisjóðs hf. hafi lækkað í verði í kjölfar yfirtöku Glitnis banka hf. þá hafi endurupptökubeiðandi lagt fram gögn sem sýna að hlutabréf í innlendum fjármálafyrirtækjum lækkuðu að meðaltali einungis um tæp 4% frá þeim tíma sem Glitnir banka hf. var yfirtekinn og þar til Hæstiréttur Íslands taldi að lánið hefði verið veitt, eða á tímabilinu 29. til 30. september 2008. Slík lækkun myndi ekki leiða til þess að sú trygging sem fólst í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs hf. hafi verið orðin að engu. Með hliðsjón af framangreindu telur endurupptökubeiðandi að hin nýju gögn hefðu skipt verulega miklu fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.
 13. Að því er varðar rangt sönnunarmat Hæstaréttar Íslands byggir endurupptökubeiðandi aðallega á tvennu. Í fyrsta lagi að endurupptökubeiðandi hafi verið látin bera hallann af sönnunarskorti um raunverulegt verðmæti stofnfjárhluta í Byr sparisjóði hf. þann 30. september 2008. Í stað þess að láta ákæruvaldið bera hallann af þessum sönnunarskorti hafi Hæstiréttur Íslands horft til þess að verð hlutabréfa hafi almennt lækkað eftir yfirtöku Glitnis banka hf. og því hljóti verðmæti stofnfjárhluta í Byr sparisjóði hf. einnig að hafa lækkað. Endurupptökubeiðandi telur að hvorki ákæruvaldið né ákærðu hafi lagt fram gögn í málinu sem sýndu að verðmæti hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum hefðu almennt lækkað í kjölfar yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. hinn 29. september 2008, enda hafi Hæstiréttur Íslands ekki vísað til neinna gagna eða fyrri dómaframkvæmd réttarins til stuðnings þessari forsendu sinni. Þá sé Hæstiréttur Íslands, við mat á því hvað telst sannað, vitaskuld bundinn af því sem aðilar hafa lagt fram í málinu, sbr. 110. gr. laga um meðferð sakamála. Þar sem ekki hafi verið um að ræða atriði sem var alkunnugt á þeim stað og tíma sem dómurinn gekk, eða atriði sem var óumdeilt í málinu, enda hafði það aldrei komið til tals, og aðilar höfðu ekki lagt fram nein gögn um þetta, var ósannað að mati endurupptökubeiðanda að hlutabréf í fjármálafyrirtækjum hafi lækkað frá yfirtöku Glitnis banka hf., og eigi endurupptökubeiðandi ekki að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
 14. Í öðru lagi byggir endurupptökubeiðandi á því að héraðsdómur, sem var skipaður sérfróðum meðdómanda, taldi sannað og lagði til grundvallar niðurstöðu sinni að viðbótarveðið í stofnfjárhlutum Byr sparisjóðs hf. hefði verið allt að 1,5 milljarðar kr. og miðaði þá við verðmat ÁM. Verðmæti Byrs sparisjóðs hf. samkvæmt samtímagögnum hafi verið í samræmi við matið sem ÁM vann um verðmæti Byrs sparisjóðs hf. nokkrum dögum síðar, en það mat var lagt til grundvallar ákvörðun endurupptökubeiðanda um að veita Imon ehf. lánið. Þrátt fyrir það taldi Hæstiréttur Íslands sig geta fullyrt að ákvörðun um lánið hafi verið reist „á alls ónothæfum grunni“. Þessi staðhæfing réttarins hafi verið röng þar sem ekkert á þeim tíma sem um ræðir hafi gefið endurupptökubeiðanda til kynna að verðmat ÁM hafi verið rangt. Að mati endurupptökubeiðanda var það ákæruvaldsins að sanna að raunverulegt verðmæti stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði hf. þann 30. september 2008 hafi verið annað og minna en ÁM gekk út frá þegar hann vann að því að meta eigna- og greiðslustöðu Imon ehf. Hæstiréttur Íslands geti ekki leyst ákæruvaldið undan þeirri sönnunarbyrði sem á því hvílir samkvæmt 108. gr. laga um meðferð sakamála. Að mati endurupptökubeiðanda hafði hið ranga sönnunarmat Hæstaréttar Íslands samkvæmt framangreindu augljós áhrif á niðurstöðu málsins.
 15. Endurupptökubeiðandi byggir á því að verulegir gallar hafi verið til staðar á meðferð málsins sem hafi haft áhrif á niðurstöðu þess. Í fyrsta lagi telur endurupptökubeiðandi að Hæstiréttur Íslands hafi endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að hún hafi byggt málatilbúnað sinn fyrir dómi, m.a. á því að hún hafi ekki skrifað undir lánssamninginn og ákvörðunartökublaðið fyrr en 3. október 2008, en í greinargerð endurupptökubeiðanda til Hæstaréttar Íslands sagði m.a.:

  ,,Ákærða Sigríður Elín kom ekki að viðskiptunum með bréfin, sem áttu sér stað 30. september 2008, líkt og greinir í ákæru. Gögn málsins og framburðir vitna sýna að ákærða kom fyrst að málinu þegar lánveitingin var borin undir hana hinn 3. október 2008. Þannig sýna fyrrnefnd ákvörðunarblöð að ákærða samþykkti lánveitinguna ekki fyrr en þann dag en undirritun hennar er dagsett 3. október 2008. Enn fremur hafa vitnin Árni Maríasson, Magnús Ármann og Ívar Guõjónsson líkt og meðákærði Steinþór staðfest aõ ákærða Sigríður Elín var ekki í neinum samskiptum við kaupanda bréfanna eða aðra sem að þeim stóðu í aðdraganda viõskiptanna; hún hafði ekki frumkvæði að viðskiptunum og kom ekki að skipulagningu þeirra eða nánari útfærslu. Farsímagögn sem Embætti sérstaks saksóknara hefur aflað benda til þess sama. Í stuttu máli var aðkoma hennar að viðskiptunum engin.“

  Vísar endurupptökubeiðandi til þess að það styðji framangreint að aðrir sem skrifuðu undir lánssamninginn hafi gert það á fundi hinn 30. september 2008, sem hún var ekki viðstödd, en ákvörðunartökublaðið var undirritað og dagsett 3. október 2008 af henni. Sökum þessa taldi endurupptökubeiðandi ljóst að hið meinta markaðsmisnotkunarbrot hafi verið fullframið áður en hún kom nokkuð að málinu, en viðskipti með bréfin áttu sér stað 30. september 2008.

 16. Þessu tengdu fullyrti Hæstiréttur Íslands:

  „Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var lánssamningur milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. undirritaður 30. september 2008 af ÁM og ákærðu Sigríði Elínu fyrir hönd bankans og MÁ fyrir hönd félagsins. Í upphafsorðum samningsins kom fram að um væri að ræða ,,langtímalán til 19 mánaða að fjárhæð kr. 5.163.000.000"."

  Þessi fullyrðing er hins vegar ekki rétt að mati endurupptökubeiðanda. Í dómi héraðsdóms hafi ekkert komið fram um að endurupptökubeiðandi hafi undirritað lánssamninginn þennan dag, aðeins að hann sé með þessari dagsetningu. Þar hafi nánar tiltekið sagt:

  ,,Lánssamningur, dagsettur 30. september 2008, er undirritaður af ákærðu Sigríði Elínu og ÁM fyrir hönd Landsbanka Íslands hf., en MÁ fyrir hönd Imon ehf.“

  Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að í dómi Hæstaréttar Íslands hafi síðan sagt:

  ,,Samningur um lánið, sem Landsbanki Íslands hf. veitti Imon ehf. og a. liður II. kafla ákæru tekur til, var eins og áður er fram komið undirritaður 30. september 2008 af ÁM og ákærðu Sigríði Elínu fyrir hönd bankans og MÁ fyrir hönd félagsins. Reyndar kvaðst ákærða Sigríður Elín, eins og fram kemur í héraðsdómi, líklega ekki hafa ritað undir samninginn fyrr en 3. október sama ár þótt aðrir, sem skrifuðu undir hann, hafi gert það 30. september í samræmi við dagsetningu hans. Þetta breytir engu um það að endanleg ákvörðun um veitingu lánsins var tekin síðastgreindan dag með undirritun lánssamningsins af hálfu beggja.“

  Endurupptökubeiðandi telur að þessa afstöðu Hæstaréttar Íslands megi túlka á tvo vegu. Annars vegar að Hæstiréttur Íslands átti sig ekki á mikilvægi þess að endurupptökubeiðandi hafi ekki komið að málinu fyrr en 3. október 2008, þegar meint brot var fullframið. Hins vegar að Hæstiréttur Íslands sé með þessu af hafna þessari útskýringu endurupptökubeiðanda á hennar aðkomu, sem studd var gögnum og framburðum vitna og héraðsdómur lagði augljóslega til grundvallar í dómi sínum. Að mati endurupptökubeiðanda gat sú niðurstaða ekki verið endurmetin af hálfu Hæstaréttar Íslands, sbr. þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 512/2012. Í þessu sambandi skiptir engu sú fullyrðing Hæstaréttar Íslands að niðurstaða héraðsdóms um háttsemi endurupptökubeiðanda sé ekki reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, sbr. þágildandi 3. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála, heldur rangri skýringu á 249. gr., sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Þegar dómur héraðsdóms er lesinn sé augljóst að mati endurupptökubeiðanda að dómurinn telur ósannað að „Imon ehf. hafði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur“. Við það sönnunarmat leit rétturinn til þeirra sönnunargagna sem lágu fyrir réttinum, þ.á m. framburða vitna sem komu fyrir dóminn, svo sem áðurnefnds ÁM, sem fór með skjölin til endurupptökubeiðanda og bað um undirskrift hennar á þau. Sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna endurupptökubeiðanda af ákæru um umboðssvik og markaðsmisnotkun byggði að mati endurupptökubeiðanda nær einvörðungu á þessu sönnunarmati dómsins. Hæstiréttur Íslands komst að gagnstæðri niðurstöðu um hvort sannað væri að Imon ehf. hefði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur. Sú niðurstaða var ekki reist á nýjum gögnum sem lögð höfðu verið fyrir Hæstarétt Íslands heldur lagði rétturinn einfaldlega annað mat á þau sönnunargögn sem lágu fyrir við meðferð málsins í héraðsdómi. Að mati endurupptökubeiðanda er því augljóst, hvað sem líður áðurgreindum orðum Hæstaréttar Íslands, að rétturinn taldi að sönnunarmat héraðsdóms hafi verið rangt - ekki túlkun hans á 249. gr., sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga, sem komst að gagnstæðri niðurstöðu eftir að hafa lagt mat á sömu gögn. Í stað þess að ómerkja dóm héraðsdóms, sbr. þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála, lagði Hæstiréttur Íslands það sönnunarmat til grundvallar við sakfellingu endurupptökubeiðanda fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun.

 17. Endurupptökubeiðandi telur að með þessu hafi Hæstiréttur Íslands endurmetið mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar endurupptökubeiðanda og vitna, án þess að þau hafi komið fyrir Hæstarétt. Slíkt sé í andstöðu við þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Sigurþórs Arnarssonar (nr. 44671/98). Endurupptökubeiðandi telur að framangreint ætti einnig að geta leitt til þess að mál hennar yrði endurupptekið á grundvelli þágildandi c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, enda fól það í sér að sönnunargögn sem færð hafi verið fram í málinu hafi verið rangt metin.
 18. Endurupptökubeiðandi byggir jafnframt á því að brotið hafi verið gegn þágildandi 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttamála Evrópu með því að sakfella hana fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkunarbroti meðdómfellda SÞÁ án þess að hún hafi fengið tækifæri til að grípa til varna á þeim grunni. Hún telur þessa niðurstöðu hafa komið niður á vörnum hennar, enda séu skilyrði fyrir sakfellingu hlutdeildarbrots allt önnur en fyrir sakfellingu sem aðalmaður brots. Ákæruvaldið hafi ekki á neinum tímapunkti ýjað að því að háttsemi endurupptökubeiðanda gæti talist hlutdeildarbrot. Þá hafi ekkert komið fram í dómi héraðsdóms sem gat gefið endurupptökubeiðanda til kynna að hún gæti talist hlutdeildarmaður í broti annarra ákærðu. Hvorki endurupptökubeiðandi né verjandi hennar hafi því á neinu stigi málsins fengið tækifæri til eða haft ástæðu til að koma að vörnum hvað varðaði meint hlutdeildarbrot. Þannig hafi Hæstiréttur Íslands ekki fengið tækifæri til að meðtaka og taka afstöðu til varna endurupptökubeiðanda að þessu leyti.
 19. Endurupptökubeiðandi telur að brotið hafi verið gegn skilyrðinu um skýrleika refsiheimilda samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem hún hafi verið sakfelld á grundvelli „annarra reglna, jafnt skráðra sem óskráðra“ án þess að það liggi fyrir hvaða reglur það séu. Þá telur hún jafnframt að með þessu hafi hún verið sakfelld fyrir aðra háttsemi en hún var ákærð fyrir en slíkt sé í andstöðu við 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Hvergi sé í dómi Hæstaréttar Íslands vikið að því eða útskýrt hvaða reglur það séu sem endurupptökubeiðandi á að hafa brotið gegn en Hæstiréttur hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki brotið gegn reglum bankans.
 20. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að Hæstiréttur Íslands virðist ekki hafa tekið tillit, við ákvörðun refsingar hennar, til brota ákæruvaldsins á rétti hennar til að ræða í einrúmi við verjanda sinn, en símtal hennar við verjanda sinn var hlerað, en á það er ekki minnst í dómi réttarins. Þá taldi rétturinn ekki að meðferð málsins hefði dregist úr hófi fram þrátt fyrir að rannsókn málsins hafi legið niðri í tæp þrjú ár af þeim fjórum sem málið var til rannsóknar og hafi ákæruvaldið ekki fært fram nein haldbær rök fyrir þeim töfum. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að þessi atriði hefðu átt að hafa áhrif á ákvörðun refsingar hennar enda hafi sérstakur saksóknari brotið gegn rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar og rétti til friðhelgi einkalífs. Þannig hafi hún hlotið þyngri refsingu en ella.
 21. Endurupptökubeiðandi telur einnig að rangt sönnunarmat Hæstaréttar Íslands ætti að leiða til endurupptöku málsins á grundvelli þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála og er vísað til umfjöllunar um rangt sönnunarmat í endurupptökubeiðni hvað það varðar. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar telur endurupptökubeiðandi að verulegir gallar hafi verið á málsmeðferð Hæstaréttar Íslands.

  IV. Viðhorf gagnaðila

 22. Þann 31. janúar 2017 bárust athugasemdir ríkissaksóknara við beiðni endurupptökubeiðanda. Varðandi atriði í endurupptökubeiðni er varða þágildandi a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála vísar ríkisaksóknari til umsagnar sinnar um umsókn Sigurjóns Þ. Árnasonar í máli endurupptökunefndar nr. 7/2016. Í því bréfi kemur fram að ríkissaksóknari telur að téð framlögð gögn breyti engu fyrir niðurstöðu Hæstaréttar Íslands enda byggir rétturinn á því að sameining Byrs sparisjóðs hf. og Glitnis banka hf. og verðhugmyndir tengdar henni hafi verið út úr myndinni þegar lánveitingin til Imon ehf. var gerð og séu forsendur þess raktar í dóminum.
 23. Varðandi atriði er varða þágildandi c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála telur ríkissaksóknari að krafa endurupptökubeiðanda um endurmat á þeim atriðum sem um getur í þessum lið og eru tvískipt rúmist ekki innan c-liðar, enda færi endurskoðun á þessum forsendum út fyrir hlutverk endurupptökunefndar. Endurupptökunefnd sé ekki áfrýjunarstig yfir Hæstarétti Íslands og séu dómar hans endanlegir með þröngum undantekningum. Túlka beri þágildandi c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála þröngt, eðli máls samkvæmt, vegna þeirrar undantekningar frá meginreglu íslenskrar dómstólaskipunar sem felst í henni. Styðst þetta við orðalag ákvæðisins þar sem segir „verulegar líkur eru leiddar að því“ o.s.frv. Ríkissaksóknari telur að mat Hæstaréttar Íslands sem vikið sé að í fyrri lið málsástæðna um að verðmæti fjármálafyrirtækja hafi almennt rýrnað á markaði hér á landi eftir að ráðagerðir um yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. var kunngerð falli undir að vera almenn vitneskja sem krafðist ekki sérstakrar sönnunarfærslu, umfram það sem lá fyrir í gögnum málsins.
 24. Varðandi seinni lið í málsástæðum endurupptökubeiðanda er varða þágildandi c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, þess efnis að verðmat ÁM hafi ranglega verið talið alls ónothæfur grunnur undir ákvörðun endurupptökubeiðanda af Hæstarétti Íslands, segir ríkissaksóknari að Hæstiréttur færi sjálfur rök fyrir þeirri niðurstöðu. Ríkissaksóknari telur ekki ástæðu til að rekja frekar röksemdir Hæstaréttar Íslands en vísi til dóms Hæstaréttar um þær. Komi þar meðal annars fram að verðmat þetta hafi eingöngu verið undirritað f.h. Byrs sparisjóðs hf. og hafi verið liður í mati á eignum hans og Glitnis banka hf. vegna fyrirhugaðrar sameiningar sem ekki hafi orðið af. Það að endurupptökubeiðandi sé ósammála Hæstarétti Íslands að þessu leyti nægi ekki sem rökstuðningur fyrir endurupptöku málsins. Þá telur ríkissaksóknari að ekki hafa verið leiddar verulegar líkur í skilningi c-liðarins að sönnunargögn hafi verið rangt metin. Ríkissaksóknari telur ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þau sjónarmið sem endurupptökubeiðandi leggur fram undir þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

  V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

 25. Þann 3. mars 2017 bárust athugasemdir endurupptökubeiðanda við viðhorf ríkissaksóknara. Endurupptökubeiðandi telur að þegar rökstuðningur Hæstaréttar Íslands sé skoðaður sé nokkuð augljóst að fullyrðingar ríkissaksóknara séu rangar hvað varðar þá málsástæðu endurupptökubeiðanda er snýr að þágildandi a-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þótt ekki hafi orðið af hinni fyrirhuguðu sameiningu Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs hf. og að gengi hlutabréfa í Glitni banka hf. hafi lækkað við yfirtöku íslenska ríkisins á stórum hluta hans hinn 29. september 2008 þá hafi hvorug þessi atriði áhrif á það verðmat sem nú liggur fyrir að unnið var af óháðum sérfræðingum á Byr sparisjóði hf. Það mat var lagt til grundvallar við viðræður um fyrirhugaða sameiningu þessara tveggja fjármálafyrirtækja allt þar til þær viðræður liðu undir lok hinn 27. september 2008 eða einungis þremur dögum fyrir lánveitinguna. Enda sýna hin nýju gögn að mati endurupptökubeiðanda að það verðmat var óháð því á hvaða gengi stofnfjáreigendur myndu kaupa í Glitni banka hf. Hefðu þessi gögn legið fyrir við rekstur málsins í Hæstarétti Íslands þá hefði það haft veruleg áhrif á mat Hæstaréttar á því hvort viðmið á verðmæti stofnfjárhluta í Byr sparisjóði hf., sem lagt var til grundvallar við veitingu lánsins 30. september 2008, hafi verið tækt. Þannig hefðu hin nýju gögn skipt verulega miklu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.
 26. Þá telur endurupptökubeiðandi að fullyrðing ríkissaksóknara þess efnis að endurupptökunefnd færi út fyrir hlutverk sitt ef lagt yrði mat á málsástæður endurupptökubeiðanda er varða þágildandi c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eigi ekki rétt á sér. Finna megi dæmi um að Hæstiréttur Íslands hafi fyrir gildistöku laga nr. 15/2013 heimilað endurupptöku og snúið við dómum sínum í sakamáli á grundvelli þessa liðar, sbr. t.d. beiðni um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 390/1997, sbr. Hrd. 512/2012. Með lögum nr. 15/2013 var sérstakri nefnd, endurupptökunefnd, falið að taka við því hlutverki Hæstaréttar Íslands að taka ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í Hæstarétti. Við þessa breytingu var ekki ætlunin að breyting yrði á því mati sem fram þyrfti að fara þegar ákvörðun um endurupptöku væri tekin. Endurupptökunefnd fari því ekki út fyrir lögbundið hlutverk sitt að mati endurupptökubeiðanda við efnislega úrlausn á beiðni endurupptökubeiðanda að því er þennan lið varðar.
 27. Í öðru lagi haldi ríkissaksóknari því fram að sú forsenda Hæstaréttar Íslands að verðmæti fjármálafyrirtækja hafi almennt rýrnað eftir að ráðagerðir um yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. var kunngerð falli undir að vera almenn vitneskja sem krafðist ekki sérstakrar sönnunarfærslu um. Endurupptökubeiðandi bendir á að samkvæmt 3. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála þurfi ekki að sanna það sem er alkunnugt á þeim stað og tíma sem dómur gengur. Ákvæðið sé samhljóða 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og feli í sér undantekningu frá meginreglu um forræði aðila á sönnunarfærslu og þeirri meginreglu sakamálaréttarfars að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði um atriði sem telja megi ákærða í óhag. Þessa heimild dómara verði þar af leiðandi að skýra afar þröngt. Með hliðsjón af því og þeirri ríku sönnunarbyrði sem hvílir á ákæruvaldinu telur endurupptökubeiðandi að beiting þessarar reglu ætti því ekki að koma til skoðunar nema í algjörum undantekningartilvikum; þegar telja verði eitthvað svo alþekkt að óþarft sé að sanna það. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að af fræðiskrifum megi ráða að með ákvæðinu sé dómara ekki veitt frjáls heimild til að leggja sína eigin vitneskju til grundvallar. Skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar sé að um alkunnar staðreyndir sé að ræða. Það var ekki alkunnugt að mati endurupptökubeiðanda, í skilningi 3. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, á þeim tíma sem dómur í hæstaréttarmálinu nr. 456/2014 féll, að verðmæti fjármálafyrirtækja hafi almennt rýrnað á markaði eftir að ráðagerðir um yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. var kunngerð. Þá fullyrðir endurupptökubeiðandi að einungis þeir sem hafi sérstaklega kynnt sér gengi fjármálafyrirtækja á dögunum fyrir fall bankanna hafi verið kunnugt um að gengi hlutabréfa þeirra fjármálafyrirtækja sem skráð voru á skipulegan verðbréfamarkað hafi lækkað á umræddum tíma. Af dómi Hæstaréttar Íslands verður heldur ekki ráðið, hvortheldur beint eða óbeint, að rétturinn sé þarna að notast við heimild 3. mgr. 109. gr. laga um meðferð sakamála, líkt og eðlilegt hefði verið í ljósi aðstæðna.
 28. Endurupptökubeiðandi vekur athygli á því að ríkissaksóknari mótmæli því ekki í umsögn sinni að ákæruvaldið hafi ekki undir rekstri hæstaréttarmálsins nr. 456/2014 lagt fram gögn sem sýndu að gengi hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum á markaði hafi almennt lækkað eftir yfirtöku Glitnis banka hf. eða gert tilraun til að sýna fram á að virði stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði hf. hafi lækkað við yfirtökuna. Um það sé því ekki ágreiningur. Þá ítrekar endurupptökubeiðandi að jafnvel þótt verðmæti fjármálafyrirtækja á markaði hafi almennt lækkað eftir að ráðagerð um yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. hafi verið kunngerð, og verði talið atriði sem hafi verið alkunnugt þegar dómur í málinu var kveðinn upp, þá geti það eitt og sér aldrei leitt til þeirrar niðurstöðu að talið verði nægilega sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að verðmæti stofnfjárbréfa Byrs sparisjóðs hf. hafi lækkað á sama tíma. Einungis hluti fjármálafyrirtækja hafi verið með skráð gengi á umræddum tíma. Byr sparisjóður hf. hafi ekki verið eitt þeirra. Það hafi þar með ekki verið vitað hvort verðmæti eignarhluta í fjármálafyrirtækjum sem ekki voru á markaði og því með skráð gengi hafi lækkað strax í kjölfarið á yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. Allt eins hafi mátt ætla að fjárfestar hafi í kjölfar yfirtöku ríkisins á Glitni banka hf. leitast til að fjárfesta í fjármálafyrirtækjum sem voru ekki álitin jafn áhættusækin og stóru bankarnir, svo sem sparisjóðum, sem hefði þá leitt til hækkunar á virði stofnfjárbréfa þeirra.
 29. Í þriðja lagi hafi ríkissaksóknari vísað til þess að þó endurupptökubeiðandi sé ósammála Hæstarétti Íslands um atriði sem snúa að verðmati því sem haft var til hliðsjónar við ákvörðun um lánveitinguna, þá nægi það ekki sem rökstuðningur fyrir endurupptöku málsins. Hvað þetta varðar bendir endurupptökubeiðandi á að það eitt að hún sé ósammála Hæstarétti Íslands um tiltekin atriði nægi vitaskuld ekki sem rökstuðningur fyrir endurupptöku málsins. Endurupptökubeiðandi hafi hins vegar lagt fram ný gögn sem sýna meðal annars að umrætt verðmat var ekki unnið einhliða af hálfu Byrs sparisjóðs hf., líkt og Hæstiréttur Íslands lagði til grundvallar, heldur af óháðum sérfræðingum, og rökstutt ítarlega af hverju sönnunarmat Hæstaréttar hafi verið rangt hvað varðar það verðmat sem haft var til hliðsjónar við ákvörðun um veitingu lánsins 30. september 2008.

  VI. Ný málsástæða endurupptökubeiðanda

 30. Með bréfi, dagsettu 3. mars 2017, kom endurupptökubeiðandi á framfæri nýrri málsástæðu fyrir endurupptöku, er varðar hæfi dómara í Hæstarétti Íslands. Endurupptökubeiðandi byggi á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-liður 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.
 31. Undir lok árs 2016 hafi verið greint frá því í fjölmiðlum að dómarar við Hæstarétt Íslands hafi átt hlutabréf í íslensku viðskiptabönkunum á árunum fyrir og við fall þeirra. Á meðal þeirra dómara sem hafi átt slík hlutabréf voru hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Markús Sigurbjörnsson. Allir hafi þeir dæmt í hæstaréttarmálinu nr. 456/2014. Nánar tiltekið hafi komið fram í umfjöllun fjölmiðla að Viðar Már og Eiríkur hafi átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., en Eiríkur hafi einnig átt hlutabréf í Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. Virði hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. í eigu Viðars Más hafi numið um 19,1 milljón kr. um ári fyrir fall bankans, en virði hlutabréfa Eiríks hafi verið um 3,8 milljónir kr. á sama tíma. Þá hafi Eiríkur einnig átt hlutabréf í Glitni banka hf., en virði þeirra í júlí 2007 hafi verið um 8,8 milljónir kr. Verðmæti hlutabréfa þessara dómara hafi síðan lækkað mikið á árinu 2008 og urðu þau að lokum verðlaus við fall bankanna það ár. Hvað varðar Markús þá hafi komið fram í fjölmiðlum að hann hafi átti hlutabréf að andvirði nokkrum tugum milljóna í Glitni banka hf., sem hann hafi selt á árinu 2007. Fyrir söluandvirði þeirra hluta hafi aðallega verið keypt hlutdeildarskírteini í sjóðum á vegum sama banka, sem hafi einkum fjárfest í félögum honum tengdum. Við fall Glitnis banka hf. hafi Markús tapað um 7-10 milljónum kr. Jafnframt hafi komið fram að Markús hafi átt hlutabréf í Glitni banka hf. við fall bankans, en virði þeirra hafi verið um 427 þúsund kr. í júlí 2007. Þá hafi komið fram að þrjú barna hans, sem öll voru ófjárráða á þessum tíma, hafi átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008. Samanlagt virði þeirra nam um 1,9 milljónum kr. í október 2007, en þau urðu verðlaus við fall bankans árið 2008.
 32. Í tilefni af þessari fjölmiðlaumfjöllun sendi lögmaður endurupptökubeiðanda bréf f.h. endurupptökubeiðanda til nefndar um dómarastörf, dags. 22. desember 2016, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort og þá að hvaða marki þeir dómarar sem dæmdu í hæstaréttarmáli nr. 456/2014 hafi átt hluti í Landsbanka Íslands hf., Kaupþingi banka hf. og Glitni banka hf. og hvort þeir hafi átt slíka hluti við fall þeirra. Hinn 31. desember 2016 barst lögmanni endurupptökubeiðanda bréf frá nefnd um dómarastörf. Var þar greint frá því að Markús Sigurbjörnsson hafi eignast hlutabréf í Glitni banki hf. (þá Íslandsbanka hf.) við úthlutun arfs úr dánarbúi móður hans. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2007, hafi hann tilkynnt að umrædd hlutabréf hefðu verið seld. Þar með hefði hann ekki lengur átt hlut í bankanum. Samkvæmt bréfinu höfðu ekki aðrir dómarar sem dæmdu í hæstaréttarmáli nr. 456/2014 tilkynnt um að þeir ættu hlutabréf í framangreindum fjármálafyrirtækjum. Þá barst lögmanni endurupptökubeiðanda leiðrétting frá nefnd um dómarastörf með bréfi dags.15. febrúar 2017. Þar hafi komið fram að í mars 2007 hafi Markús Sigurbjörnsson fengið útgreiddan arð af 1.739.518 hlutum í Glitni banka hf. sem hann hafði eignast fyrir arf á árinu 2002 og selt árið 2007. Arðurinn hafi verið greiddur með 13.832 hlutum í Glitni banka hf. og verið að verðmæti 343.034 kr. Þessir hlutir hafi orðið verðlausir árið 2008. Í sama bréfi kom jafnframt fram að frá janúar 2007 hafi Glitnir banki hf. haft á hendi eignastýringu fyrir Markús, sem hafi að þó nokkru leyti snúist um meðferð söluandvirðis fyrrnefndra hlutabréfa í félaginu.
 33. Endurupptökubeiðandi telur að dómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Markús Sigurbjörnsson hafi verið vanhæfir til að dæma í hæstaréttarmálinu nr. 456/2014, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Það að þeir hafi farið með málið fór að mati endurupptökubeiðanda í bága við almenna hæfisreglu g-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna og fól í sér brot gegn rétti endurupptökubeiðanda til að fá leyst úr ákæru á hendur sér af óhlutdrægum dómstól, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Sökum þessa hafi verið verulegir gallar á meðferð málsins þannig að áhrif hafi getað haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga um meðferð sakamála. Við mat á vanhæfi umræddra dómara verði að líta til þess að í dómi Hæstaréttar Íslands í hæstaréttarmáli nr. 456/2014 tók Hæstiréttur sérstaklega fram þegar hann fjallaði um þann kafla ákærunnar sem sneri að umboðssvikum endurupptökubeiðanda í málinu að „óvarlegar ákvarðanir þeirra um lánveitingar gátu valdið hluthöfum í Landsbanka Íslands hf. stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni“. Jafnframt sagði Hæstiréttur Íslands um þá háttsemi endurupptökubeiðanda í málinu sem talin var til markaðsmisnotkunar í ákæru að hún beindist ,,í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi og verður tjónið, sem af þeim hlaust, ekki metið til fjár.“ Þeir Viðar Már og Eiríkur hafi verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. og voru sem slíkir jafnframt aðilar á ,,fjármálamarkaðinum". Markús hafi einnig verið aðili að þeim markaði, sem hluthafi í Glitni banka hf. og sem eigandi hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum á vegum þess banka. Miðað við þessi ummæli Hæstaréttar Íslands sé því ljós sú afstaða réttarins að sú háttsemi sem ákært var fyrir í hæstaréttarmálinu nr. 456/2014 olli þremur dómurum af fimm beinu fjártjóni. Þegar litið sé til framangreindrar fjölmiðlaumfjöllunar sé ljóst að það tjón nam tugum milljóna króna.

  VII. Athugasemdir gagnaðila vegna nýrrar málsástæðu endurupptökubeiðanda

 34. Þann 30. mars 2017 bárust athugasemdir ríkissaksóknara vegna nýrrar málsástæðu endurupptökubeiðanda. Í þeim athugasemdum er greint að ríkissaksóknari telji að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um meðferð sakamála þá gæti dómari sjálfur að hæfi sínu. Þá hafi umræddir dómarar, áður en þeir tóku sæti í málinu, metið hæfi sitt til að taka sæti í dómi.
 35. Að mati ríkissaksóknara hafa ekki komið fram neinar nýjar upplýsingar sem raski mati dómaranna um hæfi sitt og skipti skoðun endurupptökunefndar engu máli um það viðfangsefni þar sem endurskoðun á matskenndri ákvörðun dómaranna sé ekki á færi nefndarinnar.
 36. Við skýringu á gildissviði þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála telur ríkissaksóknari að endurupptaka komi eingöngu til greina þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi sem dómari hafi ekki vitað um, eða að það atriði hafi ekki fengið umfjöllun fyrir héraðsdómi vegna þess að sakflytjendum hafi þá ekki gefist kostur á að hafa uppi kröfu fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti Íslands vegna vanhæfis héraðsdómara. Það skipti engu máli hver vitneskja sakflytjenda sé um hæfi hæstaréttardómara, ef dómaranum hefur sjálfum verið kunnugt um það atriði sem gætu haft áhrif á hæfið og hann hafi metið sig hæfan til að taka sæti í dómi.Þá verði að hafa í huga hvernig álitamál um hæfi dómara Hæstaréttar Íslands sé meðhöndlað af dóminum. Sakflytjendur geti ekki krafist úrskurðar Hæstaréttar Íslands um hæfi einstaka dómara, þeir geti bent á álitaefni sem þeir telja að geti haft áhrif á hæfið, það sé svo dómarinn sem meti hæfi sitt sjálfur og slíkum ákvörðunum verði ekki skotið til æðra dóms. Þar af leiðandi verði þetta álitaefni ekki endurskoðað af endurupptökunefnd.
 37. Þá telur ríkissaksóknari hagsmuni dómaranna hafa verið óbeina og óverulega af niðurstöðu málsins. Eignarhlutir þeir sem ætlað er að umræddir dómarar Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson hafi átt í Landsbanka Íslands hf. hafi án efa ekki orðið fyrir miklum áhrifum af lánveitingum endurupptökubeiðanda til Imon ehf. í því máli sem námu rúmum 5 milljörðum króna enda einungis um lítið brot af efnahag bankans að ræða. Hagsmunir þessir séu að mati ríkissaksóknara óverulegir og óbeinir, ekki ólíkt því þegar dómarar dæma í málum sem varða fjárhagslega hagsmuni íslenska ríkisins. Almennt hafi ekki verið talið að það að dómarar, sem íslenskir ríkisborgarar og skattgreiðendur, séu vanhæfir til að dæma í málum er varða hagsmuni ríkissjóðs. Með líku móti er um hagsmuni þeirra af hlut sínum í Landsbanka Íslands hf., að mati ríkissaksóknara.

  VIII. Frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda

 38. Að framkominni umsögn ríkissaksóknara vegna nýrrar málsástæðu endurupptökubeiðanda bárust frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda þann 27. apríl 2017. Í athugasemdunum mótmælir endurupptökubeiðandi því að endurupptökunefnd geti ekki lagt sjálfstætt mat á hæfi hæstaréttardómara og endurskoðað þannig mat þeirra á eigin hæfi. Nefndinni sé falið þetta hlutverk með lögum, sbr. þágildandi d-liður 1. mgr. 211. gr., sbr. 1. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála, og vísar endurupptökubeiðandi til þess að nefndin hafi áður framkvæmt slíkt mat. Þá hafnar endurupptökubeiðandi sjónarmiðum ríkissaksóknara sem snúa að því að umræddir dómarar hafi ekki verið vanhæfir sökum þess að hagsmunir þeirra af niðurstöðu málsins hafi verið óbeinir og óverulegir. Að mati endurupptökubeiðanda beri að leggja til grundvallar í mati á sérstöku hæfi dómara hvort ótti málsaðila um óhlutdrægni dómara teljist hlutlægt séð vera réttmætur. Endurupptökubeiðandi telur nokkuð augljóst að það að þrír þeirra dómara sem dæmdu í sakamáli á hendur henni sem framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf. hafi átt í hinum föllnu bönkum og tapað af því tugum milljóna króna, þar af tveir sem höfðu tapað tugum milljóna á eignarhlut sínum í þeim banka sem hún kom að því að stýra, hljóti að leiða til þess að ótti hennar um að umræddir dómarar hafi ekki getað litið óhlutdrægt á málið teljist réttmætur. Þá leggur endurupptökubeiðandi sérstaka áherslu á hagsmuni dómarans Viðars Más Matthíassonar sem tapaði að mati endurupptökubeiðanda mjög háum fjárhæðum við fall bankans, en eignarhlutur hans hafi verið þegar best lét 19.092.145 kr. virði.

  IX. Upplýsingar um hlutabréfaeign dómara

 39. Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 15. desember 2017, til endurupptökunefndar upplýsti ríkissaksóknari nefndina um að dómararnir Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson hefðu óskað eftir því að koma á framfæri athugasemdum við beiðni endurupptökubeiðanda. Var þess óskað að afstaða yrði tekin til þess hvort dómararnir fengju að koma athugasemdum sínum á framfæri og ef svo væri, að þeim yrði gefinn frestur til að skila inn athugasemdum sínum til nefndarinnar.
 40. Endurupptökunefnd óskaði þann 17. apríl 2018 eftir því við ríkissaksóknara, að hann hlutaðist til um að rannsaka, með vísan til 4. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála, hvort dómarar við Hæstarétt Íslands, sem dæmdu í hæstaréttarmáli nr. 456/2014, og makar þeirra hafi átt:
  1. eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008;
  2. hvort þau hafi átt hlutdeildarskírteini í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem áttu eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008;
  3. hvort þau hafi átt eignarhluti í félögum sem áttu eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008.

   Þá var óskað eftir upplýsingum um fjölda hluta, nafnverð þeirra og sölu á tímabilinu auk þess sem óskað var upplýsinga um það hvort umræddir dómarar hefðu tilkynnt um eignarhluti sína til nefndar um dómarastörf, sbr. þágildandi 3. mgr. 26. gr. laga um dómstóla. Með bréfi sama dag, var með vísan til bréfs ríkissaksóknara frá 15. desember 2017, greint að telji dómararnir Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson ástæðu til að senda nefndinni frekari upplýsingar, væri þess farið á leit að embætti ríkissaksóknara hlutaðist til um að afla þeirra upplýsinga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 41. Ríkissaksóknari ritaði endurupptökunefnd bréf, dags. 26. apríl 2018, þar sem með fylgdu athugasemdir dómaranna Eiríks Tómassonar og Viðars Más Matthíassonar, sem þeir settu fram að eigin ósk. Þá kom fram í bréfi ríkissaksóknara að embættið myndi rita dómurum Hæstaréttar Íslands bréf þar sem óskað yrði eftir þeim gögnum sem nefndin leitaðist við að fá, að undanskildum upplýsingum um hlutdeildarskírteini og öðrum réttindum í hvers konar verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Vísaði ríkissaksóknari til þess að Hæstiréttur Íslands hefði sjálfur hafnað að veita slíkar upplýsingar til verjanda dómfelldu SES á fyrri stigum, meðal annars vegna þess að nefnd um dómarastörf hafi ekki litið á þessi hlutdeildarskírteini og réttindi sem tilkynningarskyld.
 42. Í bréfum dómaranna Eiríks Tómassonar og Viðars Más Matthíassonar, dags. 23. og 24. apríl 2018, komu dómararnir á framfæri athugasemdum sínum og upplýsingum vegna hlutabréfaeigna þeirra í Landsbanka Íslands hf., sem fóru forgörðum við fall bankans 7. október 2008
 43. Í bréfi Eiríks Tómassonar kom fram að hann átti hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 87.383 kr. en hluti að nafnverði 85.041 kr. eignaðist hann á tímabilinu 2003 til 2005, auk þess sem hlutaféð hækkaði um 2.342 kr. á árinu 2008 vegna hækkunar hlutafjár í bankanum. Kaupverð hlutanna í Landsbanka Íslands hf., sem hann festi kaup á, nam samtals 374.112 kr. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem var 19,9 kr. á hlut, var verðmæti hlutafjáreignar hans 1.738.922 kr.
 44. Í bréfi Viðars Más Matthíassonar kom fram að hann átti hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnverði 428.075 kr. en þessa hluti eignaðist hann í sex tilvikum á tímabilinu frá 8. mars til 26. september 2007. Samanlagt verðmæti þessara hluta á þeim dögum sem hann eignaðist þá var 14.753.256 kr. Miðað við skráð gengi bréfanna 3. október 2008, sem var 19,9 kr. á hlut, var verðmæti hlutafjáreignar hans, 8.518.692 kr.
 45. Í bréfum sínum fjalla Eiríkur og Viðar Már báðir um embættisskyldu dómara til að taka sæti í máli og dæma í því og að dómari geti ekki vikist undan þeirri skyldu þyki honum mál óþægilegt. Undantekning frá þeirri reglu sé ef dómari er vanhæfur. Í 1. mgr. 7. gr. laga um meðferð sakamála segi að dómari gæti að sjálfsdáðum að hæfi sínu til að fara með mál. Til athugunar komi hvort ákvæði g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála hafi leitt til vanhæfis þeirra. Þeir telja sig ekki hafa haft fjárhagslega hagsmuni af úrslitum umrædds máls í ljósi þess að eignarhlutir þeirra fóru forgörðum 7. október 2008. Hvorugur þeirra segist hafa borið óvildarhug til endurupptökubeiðanda sem gæti hafa haft áhrif á afstöðu þeirra.
 46. Eiríkur vildi koma því á framfæri við endurupptökunefnd, að fengnu samþykki eiginkonu sinnar, að hún hafi ekki átt eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008. Jafnframt að í ársbyrjun 2007 hafi hann átt hlut í Glitni banka hf. að nafnverði 283.354 kr. og eftir að hafa keypt viðbótarhluti að nafnverði 3.770 kr. á því ári hafi hann átt hlut í félaginu að nafnverði 287.124 kr. í lok ársins og hafi sá eignarhluti haldist óbreyttur á árinu 2008. Kaupverð umræddra hluta í Glitni banka hf. hafi numið samtals 772.817 kr.
 47. Viðar Már vildi koma því á framfæri við endurupptökunefnd, að fengnu samþykki eiginkonu sinnar,að hún hafi ekki átti eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008.
 48. Við mat á sérstöku hæfi komi, að mati Eiríks og Viðars Más, til álita hversu langur tími hafi verið liðinn frá atvikum, sem leitt gætu til vanhæfis. Viðar Már vísar í því sambandi sérstaklega til umfjöllunar Páls Hreinssonar í ritinu Hæfisreglur stjórnsýslulaga og framkvæmdar. Þá telji dómararnir að einnig verði að horfa til umfang tjóns og áhrif á fjárhag þeirra. Þeir telji báðir að tapið hafi ekki íþyngt þeim og hafi haft lítil sem engin áhrif á fjárhagsstöðu þeirra m.t.t. launatekna, eignarstöðu, skulda og annarra tekna. Að framangreindu virtu telji þeir báðir að þeir hafi ekki verið vanhæfir til að dæma í máli nr. 456/2014.
 49. Ríkissaksóknari ritaði endurupptökunefnd bréf, dags. 15. maí 2018, þar sem fram kom að embættið hefði endurskoðað fyrri afstöðu sína til beiðni endurupptökunefndar frá 17. apríl 2018. Taldi ríkissaksóknari að beiðni endurupptökunefndar, sem beindist að fjárhagsmálefnum dómara málsins og mökum þeirra, yrði ekki gerð á grundvelli laga um meðferð sakamála heldur yrði nefndin sjálf að hlutast til um að upplýsa málið að þessu leyti. Var því beiðni nefndarinnar um frekari gagnaöflun hafnað.

  Í ljósi afstöðu ríkissaksóknara, sendi endurupptökunefnd bréf til Hæstaréttar Íslands, dags. 5. júní 2018, þar sem farið var fram á að nefndinni yrðu veittar áður nefndar upplýsingar. Þá óskaði nefndin, sama dag, eftir því við nefnd um dómarastörf að hún myndi senda endurupptökunefnd afrit þeirra tilkynninga sem nefndinni hefðu borist vegna hlutafjáreignar dómara við Hæstarétt Íslands í Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007-2008.

 50. Í bréfi nefndar um dómarastörf, dags. 21. júní 2018, kom fram að tilkynningarskylda dómara nái til eigna dómara meðan þeir gegni embætti. Dómarinn Viðar Már Matthíasson hafi verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands þann 10. september 2010 en Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson þann 1. september 2011. Taki fyrirspurn endurupptökunefndar því ekki til þeirra. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hafi hvorki Helgi I. Jónsson né Markús Sigurbjörnsson átt eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili.
 51. Hæstiréttur Íslands svaraði endurupptökunefnd með bréfi, dags. 27. júní 2018. Með bréfinu fylgdu viðbótarathugasemdir dómaranna Eiríks Tómassonar og Viðars Más Matthíassonar, þar sem fram kom að makar þeirra hefðu ekki verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili. Þá vísaði Hæstiréttur Íslands til skriflegra svara til verjenda endurupptökubeiðenda í málum nr. 456/2014, 478/2014 og 842/2014, og hefði endurupptökunefnd þær upplýsingar undir höndum. Þá kom fram að dómararnir Helgi I. Jónsson, Þorgeir Örlygsson og Markús Sigurbjörnsson hefðu ekki átt eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. Það sama ætti við um maka þessara dómara. Hæstiréttur Íslands tók fram að ekki yrðu veittar upplýsingar um eignarhald dómara í félögum sem kynnu að hafa átt hluti í Landsbanka Íslands hf., svo og hlutdeildarskírteinum í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum sem kynnu að hafa átt eignarhlut í bankanum. Byggðist synjunin í fyrsta lagi á því að endurupptökubeiðandi hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar, í öðru lagi á því að eign í hlutabréfasjóðum eða hliðstæðum sjóðum væri eðlisólík hlutabréfaeign að því leyti að hlutabréfum fylgdi ákvörðunarvald í málefnum félags en það gerði hlutdeild í slíkum sjóðum ekki. Þá hefðu hlutdeildarsjóðshafar ekki ákvörðunarvald um í hvaða verðbréfum væri fjárfest hverju sinni. Þá var þess getið að ákvæði 26. gr. laga um dómstóla og reglna nr. 463/2000 tækju ekki til eigna í verðbréfasjóðum, sem nefnd um dómarastörf tók af skarið um á fundi sínum 15. desember 2016. Þá vísaði Hæstiréttur Íslands til dóms í hæstaréttarmáli nr. 705/2017, sem hann taldi vera beint fordæmi um þau atriði í fyrirspurn endurupptökunefndar sem að framan greini. Loks vísaði Hæstiréttur Íslands til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði nýlega borið upp spurningar til íslenska ríkisins í tengslum við kvörtun sem einn endurupptökubeiðandi hefði beint þangað vegna máls síns en spurningar dómstólsins lutu meðal annars að því hvort tilteknir dómarar sem sátu í dómi í málinu hefðu átt eignarhlut í Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf. eða Landsbanka Íslands hf. Spurningar mannréttindadómstólsins varði úrlausn um sama álitaefni og endurupptökunefnd hefði til meðferðar og lutu þær hvorki að eignarhlutum í öðrum félögum en þessum fjármálafyrirtækjum né hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum. Af því yrði að draga þá ályktun að mannréttindadómstóllinn teldi atriði sem þessi ekki skipta máli. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur Íslands ekki efni til að veita frekari svör um þessi atriði
 52. Engar frekari athugasemdir bárustfrá endurupptökubeiðanda né ríkissaksóknara og var málið því tekið til úrskurðar.

  X. Niðurstaða

 53. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti Íslands verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. laganna er fullnægt.
 54. Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

  a.  fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

  b.  ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

  c.  verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

  d.  verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

 55. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
 56. Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðandi var með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 456/2014 sakfelld fyrir umboðssvik, sbr. a. lið II. kafla ákæru, og hlutdeild í markaðsmisnotkun, sbr. b. lið II. kafla ákærunnar. Var hún dæmd til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.
 57. Endurupptökubeiðandi starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf. þegar bankinn féll og hafði sinnt því starfi frá árinu 2003. Sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs átti hún sæti fjármálanefnd bankans og lánanefnd sem fór með æðsta vald í útlánamálum bankans. Er því óhætt að segja að ábyrgð endurupptökubeiðanda á störfum bankans hafi verið mjög rík.
 58. Í málinu dæmdu hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
 59. Endurupptökubeiðandi byggir á því að skilyrði a, c og d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála séu fyrir hendi svo endurupptaka eigi málið. Reisir endurupptökubeiðandi kröfu sína á því að komin séu fram ný gögn sem hefðu skipt verulega miklu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk í málinu.Þá telur endurupptökubeiðandi að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.Að endingu telur endurupptökubeiðandi að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess og vísar í því sambandi meðal annars til þess að þrír af þeim dómurum sem dæmdu í téðu hæstaréttarmáli hafi verið vanhæfir til að dæma í málinu.
 60. Hvað varðar síðastnefndu málsástæðu endurupptökubeiðanda, þá telst rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Er rétturinn varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 45. gr. laga um dómstóla þá skulu dómarar vera sjálfstæðir í störfum sínum, sbr. einnig samhljóða ákvæði eldri laga um dómstóla nr. 15/1998. Sérstaklega er fjallað um hæfi dómara til setu í dómsmáli í 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Í g-lið ákvæðisins segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður, heldur en taldar eru upp í fyrri stafliðum ákvæðisins, sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að dómari gæti að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum, en aðili getur einnig krafist að hann víki sæti. Umrædd ákvæði varða rétt manna til að vera dæmdir af óháðum og óhlutdrægum dómstólum.
 61. Lög um meðferð sakamála heimila endurupptöku vegna verulegra galla á málsmeðferð, sbr. d-liður 1. mgr. 228. gr. laganna. Vanhæfi dómara getur talist til slíkra galla enda telst málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Má í því sambandi vísa til þess að ígreinargerð með frumvarpi að lögumum meðferð sakamála, er varð að lögum nr. 88/2008, segir: „Að einu leyti eru þó ráðgerð nýmæli með því að í d-lið 1. mgr. er ákvæði um heimild dómfellds manns til að leita endurupptöku ef sýnt er fram á að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls og þeir haft áhrif á niðurstöðu þess. Um þessa aðstöðu eru engin fyrirmæli í gildandi lögum, en undir þetta gæti meðal annars átt tilvik, þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómarans, sem með málið fór, og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Þykir eðlilegt að taka upp reglu af þessum toga til að tryggja rétta meðferð máls“.
 62. Með stofnun endurupptökunefndar tók nefndin við því hlutverki af Hæstarétti Íslands að úrskurða um endurupptökubeiðnir dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði eða Hæstarétti og síðar Landsrétti. Fyrir liggur að Hæstiréttur Íslands endurmat efnislegt mat dómara á eigin hæfi þegar álitaefnið kom á borð réttarins í fyrri tíð. Með lögum nr. 15/2013 var gerð sú breyting að ákvörðunarvald um endurupptöku dómsmála var fengið sérstakri stjórnsýslunefnd, endurupptökunefnd, sbr. 34. gr. þágildandi laga um dómstóla. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga er áréttað að ekki sé „hróflað við skilyrðum endurupptöku frá því sem verið hafði.“ Þessi framkvæmd er áréttuð enn frekar í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum á dómstólum, meðferð einkamála og meðferð sakamála, sem nú liggur fyrir Alþingi (Endurupptökudómur). Þá liggur einnig fyrir að endurupptökunefnd hefur áður lagt mat á hæfi dómara, sbr. t.d. úrskurðir endurupptökunefndar nr. 8, 9, 10 og 14/2015. Með vísan til framangreinds er því ekki fallist á þá röksemd gagnaðila að það sé ekki á færi nefndarinnar að endurmeta efnislegt mat dómara á eigin hæfi.
 63. Réttur sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól er varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og telst rétturinn til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Við túlkun á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu hefur verið litið til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu. Frumvarp til laga nr. 62/1994 áréttar um slíka framkvæmd og þá hefur löggjafi, framkvæmdavald og dómstólar hér á landi gert slíkt í framkvæmd.
 64. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í dómaframkvæmd sinni fjallað um hæfi dómara með tilliti til skilyrða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um að málsaðili fái réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól. Hefur mannréttindadómstóllinn talið að dómstóll þurfi að uppfylla bæði huglægt og hlutlægt mat svo að framangreindum skilyrðum sé fullnægt, sbr. t.d. Piersack gegn Belgíu og Hauschildt gegn Danmörku.
 65. Spurningunni um hvort óhlutdrægni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sáttamálans sé fyrir hendi ber bæði að svara á huglægum grundvelli, þ.e. á persónulegri sannfæringu dómara í tilteknu máli, og á hlutlægum grundvelli, þ.e. með athugun á hvort aðstæður hafi verið þannig að útiloka megi að óhlutdrægni dómarans verði með réttu dregin í efa. Hið hlutlæga mat byggir á ásýnd dómstóls og þeirri kennisetningu að ekki sé nægilegt að dómari hafi í raun verið óvilhallur þegar hann leysti úr máli, heldur verður hann jafnframt að líta út fyrir að vera það í augum hins almenna borgara. Leiðir það af því trausti sem dómstólar í lýðræðisþjóðfélagi verða að njóta. Hæstiréttur Íslands hefur orðað þetta sem svo að réttur manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól sé meðal þeirra hornsteina sem lýðfrjáls ríki byggja réttarskipan sína á, sbr. Hrd. 604/2008
 66. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað lýst hlutlæga matinu sem eftirfarandi, sbr. t.d. dómur í máli Péturs Sigurðssonar gegn íslenska ríkinu:

  „Samkvæmt hinu hlutlæga viðmiði verður að ákvarða, án nokkurs tillits til gerða dómarans, hvort fyrir hendi séu atvik sem kunna að vekja vafa um óhlutdrægni hans. Í þessu efni kann ásýndin ein jafnvel að öðlast nokkuð mikilvægi. Það sem hér er í húfi er það traust, sem dómstólar í lýðræðisþjóðfélagi verða að vekja meðal almennings. Þess vegna verður hver sá dómari, sem með réttu er unnt að óttast að ekki sé óhlutdrægur, að víkja sæti. Þetta felur í sér að afstaða viðkomandi málsaðila er mikilvæg við ákvörðun á því hvort með réttu megi óttast um óhlutdrægni ákveðins dómara í ákveðnu máli, þótt ekki sé hún afgerandi. Hið afgerandi atriði er hvort telja megi þann ótta hlutlægt séð réttmætan“.

 67. Þetta felur meðal annars í sér að hinn hlutlægi mælikvarði er ólíkur hinum huglæga að því leyti að þegar honum er beitt þarf aðili máls ekki að færa sérstaklega sönnur á að dómstóll hafi verið óvilhallur.
 68. Við túlkun 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans hefur mannréttindadómstóllinn fjallað um fjárhagslega hagsmuni dómara í tengslum við aðila máls. Í máli Péturs Sigurðssonar gegn íslenska ríkinu taldi dómurinn ekkert benda til þess að persónulegir hagsmunir dómara við Hæstarétt Íslands eða eiginmanns hennar hafi verið í húfi í málaferlunum milli kæranda og tiltekinnar fjármálastofnunar, sem kærandi átti í málaferlum við. Hins vegar var þáttur dómarans í skuldaskilum eiginmanns hennar við viðkomandi fjármálastofnun, það hagræði sem eiginmaður hennar naut og tengsl hans við fjármálastofnunina þannig að eðli og umfangi, og það nálægt athugun Hæstaréttar Íslands á máli kæranda í tíma, að kærandi gat með réttu óttast að Hæstarétt skorti þá óhlutdrægni sem krafist er.
 69. Við mat á beitingu g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála er rétt að líta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 511/2014, en þar segir:

  „Þegar lagt er mat á hæfi dómara eftir g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum þess og efni, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki, þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Þá er hæfisreglum ekki ætlað það eitt að vernda rétt sakaðs manns samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óhlutdrægum dómstóli, heldur einnig að girða fyrir að hlutdrægni gæti gagnvart ákæruvaldinu við rækslu á því lögbundna hlutverki þess að halda uppi refsivörslu ríkisins í þágu almannahagsmuna. Sé með réttu vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli eða ómerkt verði eftir atvikum fyrir æðra dómi úrlausn, sem hann hefur staðið að, þótt af því geti hlotist röskun á rétti aðila til að fá leyst úr máli sínu innan hæfilegs tíma.“

 70. Þegar skoðað er hvort hægt sé að draga með réttu í efa óhlutdrægni dómstóls er óhjákvæmilegt að líta til atvika sem og aðstæðna sem liggja til grundvallar í því máli sem er til skoðunar. Slíkt mat getur verið víðtækt en eitt af þeim atriðum sem koma til skoðunar eru tengsl dómara við efni og aðila máls. Í því samhengi geta fjárhagsleg tengsl dómara, sem og aðila nátengdum dómurum, komið til skoðunar líkt og í máli því sem hér er til umfjöllunar.
 71. Í málinu er ágreiningslaust að tveir af dómurunum sem dæmdu í máli endurupptökubeiðanda, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson, áttu hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., bæði á því tímabili þegar hin refsiverða háttsemi átti sér stað og einnig þann 7. október 2008 þegar íslenska ríkið tók yfir bankann og hlutabréfin urðu verðlaus. Þá er ágreiningslaust að þeir urðu fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa.
 72. Við mat á hæfi umræddra dómara til setu í dóminum kemur meðal annars til skoðunar hvort það fjárhagslega tjón sem þeir urðu fyrir sé til þess fallið að draga hafi mátt óhlutdrægni þeirra með réttu í efa, sbr. g-liður 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, og með því valdið því að verulegur galli var á meðferð málsins, sbr. d-liður 1. mgr. 228. gr. sömu laga.
 73. Óumdeilt er að dómarinn Viðar Már Matthíasson keypti hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 8. mars til 26. september 2007 og nam verðmæti þeirra, á þeim dögum sem hann eignaðist bréfin, 14.753.256. kr. Verðmæti bréfanna tóku breytingum allt fram til þess tíma þegar bankinn var yfirtekinn af íslenska ríkinu, er þau urðu verðlaus. Miðað við síðasta skráða gengi bréfanna þann 3. október 2008 nam verðmæti fyrrgreindra hluta 8.518.692 kr. Ljóst er samkvæmt framansögðu að fjárhagslegt tjón dómarans vegna kaupa hans á hlutafé í bankanum var því verulegt. Telja verður að þeir fjármunir sem fóru forgörðum hjá dómaranum hafi verið slíkir að atvik eða aðstæður voru til að draga óhlutdrægni dómstólsins með réttu í efa, sbr. g-liður 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála. Breytir þá engu þótt nokkur tími hafi liðið frá því tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu. Hvað varðar tjón dómarans má í þessu sambandi einnig líta til orðalags Hæstaréttar Íslands í máli endurupptökubeiðanda. Í forsendum sínum kemst rétturinn svo að orði: „Óvarlegar ákvarðanir [ákærðu] um lánveitingar gátu því valdið hluthöfum í Landsbanka Íslands hf., stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni“. Enn fremur er til þess að líta að framangreindar upplýsingar um kaup og eignarhald dómarans lágu ekki fyrir við meðferð málsins í Hæstarétti Íslands og voru þær því endurupptökubeiðanda ókunnar.
 74. Samkvæmt framangreindu eru því fram komnir gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti Íslands. Við mat á skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála verður að líta til þess að endurupptökuheimild samkvæmt þeim staflið kom fyrst inn í lögin með nýjum lögum um meðferð sakamála. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga er sérstaklega tekið fram að með stafliðnum gætu meðal annars átt við tilvik þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómara sem með málið fór og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Nákvæmlega það tilvik er uppi í þessu máli. Þá segir jafnframt í frumvarpinu að þessi tiltekna heimild hafi verið sett í lögin í því skyni að tryggja rétta meðferð máls. Með hliðsjón af framansögðu og þeirrar grundvallarreglu sem fram kemur í 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól verður að telja uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
 75. Þar sem skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála telst uppfyllt gerist ekki þörf á að fjalla um meint vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður endurupptökubeiðanda. Samkvæmt því er beiðni endurupptökubeiðanda samþykkt.
 76. Lögmaður endurupptökubeiðanda, Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl., var skipuð til að gæta réttar hennar, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Kostnaður endurupptökubeiðanda samtals 1.240.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 231. gr. sömu laga.
 77. Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til þess að endanleg skipun nefndarmanna í endurupptökunefnd í máli þessu lá ekki fyrir fyrr en þann 8. mars 2018.

 

 

Úrskurðarorð

Beiðni Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 456/2014, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands þann 8. október 2015, er samþykkt að því er hana varðar.

Kostnaður endurupptökubeiðanda 1.240.000 kr. greiðist úr ríkissjóði.

 

 

 

Haukur Örn Birgisson, formaður

 

 

Björn Jóhannesson

 

 

Þórdís Ingadóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira