Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd húsamála

Mál nr. 104/2023-Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 104/2023

 

Krafa um húsfund.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 21. september 2023, beindi A hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, móttekin 23. október 2023, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 30. október 2023, og athugasemdir gagnaðila, dags. 9. nóvember 2023, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 16. maí 2024.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C í D, alls 37 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi eignarhluta í húsinu en gagnaðili er húsfélagið. 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að halda húsfund þar sem gerð verði grein fyrir ákvörðunum stjórnar það sem af sé ári og ársreikningur verði tafarlaust lagður fram, áritaður af stjórn og skoðunarmönnum.

Álitsbeiðandi kveður engan ársreikning hafa verið lagðan fram fyrir árið 2022 og að ekki sé búið að fullmanna stjórn gagnaðila, sem auk þess svari engum fyrirspurnum. Aðalfundur hafi verið haldinn í apríl 2023 en ákveðið að halda annan fund í maí sama ár, sem hafi þó enn ekki verið haldinn. Fjármálum hafi verið útvistað án samþykkis húsfundar. Þá hafnar álitsbeiðandi því að störf hans sem bókari og gjaldkeri í þágu húsfélagsins hafi verið ófullnægjandi og telur ómaklega vegið að æru hans með fullyrðingum í þá veru.

Gagnaðili kveður engar fyrirspurnir hafa borist frá álitsbeiðanda varðandi ársreikning. Stuttu áður en álitsbeiðnin hafi verið lögð fram hafi borist póstur frá honum þar sem hann hafi sagst ekki fá nein svör frá formanni gagnaðila varðandi ársreikning. Ritari stjórnar hafi svarað honum 29. september 2023 eftir að hún hafði ráðfært sig við formanninn og hann upplýstur að aðalfundur yrði haldinn fljótlega þar sem ársreikningur verði kynntur og að bókhaldsmál væru í góðum málum. Stjórnin hafi átt í vandræðum með að koma frá sér ársreikningi af ástæðum sem að flestu leyti mega rekja til vandræða sem stafi af fyrri störfum álitsbeiðanda sem bókara og gjaldkera sem og framkomu hans gagnvart gagnaðila. Keypt hafi verið þjónusta bókhaldsfyrirtækis til að gera ársreikning fyrir árið 2022. Í ljósi ásakana álitsbeiðanda hafi annað álit verið fengið á ársskýrslunni en hún verði kynnt á aukaaðalfundi á næstu vikum.

Á aðalfundi 2. maí 2023 hafi verið kosin í stjórn formaður og ritari, sem og varamaður. Enginn hafi boðið sig fram sem gjaldkera. Stjórn gagnaðila sé rekin í samræmi við 66. gr. laga um fjöleignarhús en hún samanstandi af formanni, ritara og varamanni. Til að tryggja starfshæfni stjórnarinnar hafi verið ráðinn bókari til gjaldkerastarfa, sbr. 69. gr. laga um fjöleignarhús.

III. Forsendur

Aðalfundur var haldinn 2. maí 2023 en ársreikningur vegna ársins 2022 var ekki tilbúinn þá og því boðað að haldinn yrði aukaaðalfundur. Fyrir liggja samskipti frá júní 2023 þar sem álitsbeiðandi kemur á framfæri verulegum athugasemdum við bókhaldsfyrirtækið sem annaðist gerð ársreikningsins fyrir árið 2022 og lýsir hann meðal annars þeirri afstöðu sinni að ársreikningurinn sé ótækur til kynningar. Gagnaðili hefur þó upplýst að haldinn verði framhaldsaðalfundur þar sem ársreikningurinn, sem þegar liggur fyrir, verði kynntur. Þá gerir álitsbeiðandi athugasemdir við að ekki sé búið að fullmanna stjórn gagnaðila en engar kröfur eru hafðar uppi vegna þeirrar fullyrðingar, en þess utan benda svör gagnaðila ekki til annars en að stjórnin sé fullmönnuð. Kærunefnd fær þannig ekki ráðið að ágreiningur sé um kröfu álitsbeiðanda og því ekki þörf á úrlausn nefndarinnar. Málinu er því vísað frá nefndinni.

Hafi aukaaðalfundurinn ekki þegar farið fram telur nefndin þó rétt að beina þeim tilmælum til gagnaðila að hann verði haldinn hið fyrsta enda ljóst að hann er kominn út fyrir þau tímamörk sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri málinu frá.

Reykjavík, 16. maí 2024

 

Auður Björg Jónsdóttir

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta